Ný byggð áformuð við Skerjafjörð

Hér má sjá hvernig höfundar vinningstillögunnar hugsa sér útlit hinnar nýju byggðar. Til hægri á myndinni sést hvar gert er ráð fyrir landfyllingu og smábátahöfn en til vinstri má sjá tengingu við eldri byggð í Skerjafirði. Norður suður flugbraut Reykjavíkurflugvallar sést síðan lengra til hægri.

Tillaga ASK arkitekta bar sigur úr býtum í samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um nýja byggð við Skerjafjörð. Tillagan var unnin í samstarfi við Landslag og verkfræðistofuna Eflu og byggir á nálægð við sjóinn en einnig er lög sérstök áhersla á græn svæði og útivist.

Páll Gunnlaugsson arkitekt og framkvæmdastjóri ASK arkitekta segir að upphaf þessa máls megi rekja til þess að Reykjavíkurborg hafi vorið 2017 boðið til hugmyndaleitar að nýrri byggð við Skerjafjörð. Fimm hópar hafi verið valdir til að taka þátt. Sérstakur stýrihópur var einnig skipaður fyrir verkefnið en í honum voru: Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, Björn Axelsson skipulagsfulltrúi, Hrólfur Jónsson skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Ómar Einarsson sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs. Með stýrihópnum störfuðu Helgi Geirharðsson verkefnisstjóri og Halldóra Hrólfsdóttir verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa. Jafnframt var skipaður verkefnishópur sem í sátu starfsmenn af hinum ýmsu deildum umhverfis- og skipulagssviðs.

Páll Gunnlaugsson arkitekt.

Nýtt land og styrking byggðar sem fyrir er

Talið berst að tillögu ASK arkitekta, Landslags og Eflu. Páll segir hana gefa hugmynd um á hvern hátt byggja megi í sátt við nágrennið. Við Öskjuhlíðina, Nauthólsvíkina og síðast en ekki síst við Vatnsmýrina þar sem Reykjavíkurflugvöllur stendur nú. “Í greinargerð með vinningstillögunni kemur fram að staðsetning hinnar fyrirhuguðu byggðar hafi allt til að skipulag á þessu svæði geti orðið leiðarljós fyrir þá uppbyggingu sem þarna geti átt sér stað á næstu árum og áratugum. Hún eigi sér stað á landi sem sé eitt það verðmætasta sem borgarbúar hafi yfir að ráða. Verið sé að brjóta nýtt land um leið og að þétta og styrkja þá byggð sem fyrir er.”

Afmarkast af Skeljanesi og öryggissvæðum flugbrautanna

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 er gert ráð fyrir að á svæðinu muni rísa íbúðir og er gerð rammaskipulags fyrsta skrefið í átt að því að framfylgja þeirri stefnu. Áhersla er lögð á vistvæna byggð sem tekur tillit til náttúru og nærliggjandi byggðar. En hvar er þetta svæði nákvæmlega. Páll segir það liggja að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkist af Skeljanesi til vesturs. Til norðurs og austurs afmarkist það af öryggissvæði flugbrautanna á Reykjavíkurflugvelli bæði suður vesturbrautarinnar og norður suður brautarinnar. Til suðurs takmarkist svæðið við strandlínu Fossvogs. Hugmynd sé þó um að fara hana til með landfyllingu til suðurs eins og gert sé ráð fyrir í aðalskipulagi borgarinnar.

Gert er ráð fyrir breytilegri húsagerð í nýrri byggð.

Bílastæðahús sparar fjárhæðir

En eru nýjungar að finna í þeim hugmyndum sem unnið er að varðandi uppbyggingu á þess svæði. Páll bendir á að rammaskipulag Graeme Massie hafi verið leiðarljós skipulags í Vatnsmýrinni um nokkurt skeið. Þar sé að finna að nokkru fyrirmynd rammaskipulags Nýs Skerjafjarðar en þó hafi verið horfið frá hornréttum samgönguæðum og strangri randbyggð. Formin séu mýkri og byggðin fjölbreyttari með mildara yfirbragði. “Við lögðum áherslu á blandaða húsagerð sem gefur umhverfinu grænt og lifandi yfirbragð og góða möguleikar til útivistar. Annað sem er nokkurt nýmæli er að í stað hefðbundinna bílastæða í kjöllurum húsa er gert ráð fyrir bílageymsluhúsum þar sem íbúum mun gefast kostur á að leigja sér bílastæði. Þetta sparar umtalsverðar fjárhæðir í byggingarkostnaði því það þarf ekki að grafa djúpt niður í jörðina fyrir þessum hluta húsa. Honum er einfaldlega sleppt.”

Áhersla er lögð á grænt og fjölskylduvænt umhverfi í nýrri Skerjafjarðarbyggð.

Þjónusta og skóli í hverfinu 

Páll segir næstu skref vera að þegar rammaskipulag liggi fyrir verði kallaðir til þróunaraðilar sem vinna eiga endanlegt deiliskipulag í samráði við borgina. “Við erum að skipuleggja íbúðabyggð með um 800 íbúðum í þriggja til fimm hæða húsum þar sem reynt verður að leita eins vistvænna skipulagslausna eins og unnt er að bjóða upp á og fjölbreyttar gerðir íbúða hvað varðar stærðir og útlit. Við gerðum ráð fyrir eðlilegu hlutfalli atvinnuhúsnæðis fyrir verslun, þjónustu, menningarstarfsemi og mögulega aðra atvinnustarfsemi í byggðinni. Það er nauðsynlegt að íbúar geti fengið ákveðna grunnþjónustu heima fyrir og þurft ekki að leita út úr hverfinu eftir hverju smáatriði. Þá verður að tryggja gott samspil almenningsrýma, bygginga og nærumhverfis og nauðsynlegt að tryggja skólahald með því að leik- og grunnskóli upp í fimmta bekk verði starfandi í byggðinni. Við viljum að götumyndir verði heildstæðar og gatnakerfi verið borgarmiðað. Eftir er að vinna tillögur um tengingar við helstu samgönguæðar í nágrenni við svæðið en við gerum ráð fyrir að tengja það við fyrirhugaða brú yfir Fossvog þar sem Borgarlínan mun mögulega liggja í framtíðinni. Síðan má hugsa fyrir nýjum tengingu eftir að flugvöllurinn verður endanlega farinn úr Vatnsmýrinni. Eitt sem horft er til að ef farið verðir í landfyllingu sunnan fyrirhugaðrar byggðar að koma upp smábátahöfn. Þar gætu menn verið með litla báta, skroppið á sjóinn og jafnvel fengið sér í soðið. Annað sem við horfum til í sambandi við útivist er grænt belti sem nær nokkuð upp í Vatnsmýrina – svona til móts við hús Íslenskrar erfðagreiningar.

Margir taka þessu vel en skoðanir eitthvað skiptar

Hvernig taka aðrir íbúar í Skerjafirði þessum hugmyndum. “Ég hef farið á tvo kynningarfundi. Sá fyrri var með íbúum og fór hann að miklu leyti í kynningar og að svara fyrirspurnum. Sá síðari var boðaður af Prýðifélaginu Skildi í Skerjafirði og þar komu fram meiri efasemdir um þessa byggð og hvort yfirleitt eigi að ráðast í hana. Þar virtist samankominn hópur af fólki sem er andstætt þéttingu byggðar og einnig því að hróflað verði við flugvellinum. Ég veit ekki hversu stór hópur þetta er. Kannski 50 til 60 manns en eðlilega geta verið skiptar skoðanir um verkefni af þessu tagi – einkum í næsta nágrenni.”

Nýr Skerjafjörður eins og ASK arkitektar sjá hann fyrir sér af sjó.

You may also like...