Barnamenningarhátíð á Nesinu

Fjölmenni var á Eiðistorginu á Barnamenningarhátíðinni.

Það var svo sannarlega líf og fjör á Eiðistorgi og á bókasafninu þegar að Barnamenningarhátíð var haldin hátíðleg í 3ja sinn þriðjudaginn 17. apríl sl. Mikill fjöldi barna, foreldra og annarra aðstandenda tóku þátt í hátíðinni og var mál manna að hún hafi verið afar velheppnuð og skemmtileg. Dagskráin var fjölbreytt, engin aðkeypt atriði heldur voru börn og ungmenni á Seltjarnarnesi í öllum aðalhlutverkum á hátíðinni. Listsköpun þeirra og framkoma vakti mikla lukku og aðdáun allra gesta. 

Eiðistorgið var skreytt veifum sem börn á öllum skólastigum höfðu myndskreytt. Um 230 leikskólabörn komu fylktu liðið í skrúðgöngu í lögreglufylgd undir dúndrandi trommuslætti og með bæjarstjórann í broddi fylkingar. Daníel Ingi Arason og Jenný Guðmundsdóttir nemendur í 9. bekk Valhúsaskóla stóðu sig með mikilli prýði sem kynnar hátíðarinnar. Leikskólabörnin sungu af mikilli innlifun með hljóðfæri, fugla og blóm sem þau höfðu sjálf búið til. Á bókasafninu voru magnaðar myndlistar- og hönnunarsýningar nemenda úr öllum skólunum auk þess sem margir tóku þátt í ratleik og fuglaþraut. Hægt verður að sjá sýningarnar út aprílmánuð. Arna ís og Rauða ljónið buðu góð tilboð fyrir börnin í tilefni dagsins sem fjölmargir nýttu sér. Sannkölluð gleðisprengja Barnamenningarhátíðin árið 2018.

 

You may also like...