Almenningssalernin við Strætó í Mjódd opnuð á ný

Þarna verður fólk að borga 200 krónur annað hvort með peningum eða korti til að komast á snyrtingu.

– ekki allir sáttir við gjaldtöku –

Nýlega voru almenningssalerni í skiptistöð Strætó í Mjóddinni opnuð að nýju við formlega athöfn en þeirra hafði verið beðið í allnokkrurn tíma. Verkfræðistofan Verkís og einkahlutafélagið Sannir landvættir standa að rekstri og uppbyggingu salernanna. Nýmæli er að nú verða notendur að greiða 200 krónur fyrir salernisferðina og mun þetta vera í fyrsta skipti sem klósettgjald er innheimt hér á landi en það er vel þekkt í mörgum löndum. Ætlunin er að fara af stað með uppbyggingu snyrtiaðstöðu einkum á fjölförnum ferðamannastöðum á næstunni og er skiptistöð Strætó í Breiðholti fyrsti staðurinn þar sem þessi aðstaða er tekin í notkun.

Einkahlutafélagið Sannir landvættir munu sjá um rekstur salernisins. Það er í eigu verkfræðistofunnar Verkís og Bergrisa hugbúnaðar ehf. Með stofnun Sannra landvætta er ætlunin að stuðla að uppbyggingu einkarekinna salerna um allt land í samvinnu við landeigendur, sveitarfélög og ríki. Sannir landvættir bjóða upp á fjármögnun, hönnun og framkvæmd við uppbyggingu ferðamannastaða án kostnaðar eða útgjalda fyrir landeigendur. Íslandsbanki er bakhjarl verkefnisins og mun annast fjármögnun. Í kynningu á fyrirtækinu segir að Sannir landvættir hafi mikla sérfræðiþekkingu og annist alla þætti framkvæmda við ferðamannastaði. Má þar nefna atriði eins og skipulag og hönnun, jarðvinnu, gerð bílastæða, salernisaðstöðu, göngustíga, útsýnispalla, starfsmannaaðstöðu, upplýsingaskilti og öryggisráðstafanir. Jafnframt mun fyrirtækið leggja til búnað og hugbúnað til að hefja gjaldtöku af þjónustu á viðkomandi stöðum.

Ekki allir sáttir

Þótt margir farþegar Strætó muni eflaust fagna því að snyrtiaðstaðan hafi aftur verið opnuð eru ekki allir jafn ánægðir með framtakið. Samtökin Pepp Ísland, samtök fátæks fólks hafa mótmælt gjaldtökunni harðlega og sagt að um græðgisvæðingu sé að ræða sem nú nái til líkamsstarfsemi fólks. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að gjaldheimtan muni lenda á þeim sem síst megi við henni. Börn, ungmenni og tekjulágt fók noti einkum almenningssamgöngur og það eigi að vera sjálfsögð þjónusta við fólk að notendur hafi frían aðgang að snyrtingu þurfi þeir á henni að halda.

Þá hefur Breiðholtsblaðið heimildir fyrir því að Sannir landvættir muni einnig taka við rekstri almenningssalernanna í Mjóddinni.

You may also like...