Nesstofa við Seltjörn

– glæsilegt verk Þorsteins Gunnarssonar komið út –

Glæsilegt og vandað ritverk.

Glæsilegt og vandað ritverk sem telur á fjórða hundrað síður Nesstofa við Seltjörn eftir Þorstein Gunnarsson arkitekt er komið út í útgáfu Þjóðminjasafns Íslands. Í frétt frá útgáfunni segir að Bókin er mikilvægt innlegg í rannsóknir á dansk – íslenskri byggingarlistasögu og veitir um leið innsýn í aðferðir við endurgerð gamalla húsa. Í bókinni greinir Þorsteinn frá sögu hússins sem var reist á árunum 1760 til 1767 í samstarfi Dana og Íslendinga og endurgerð þess. 

Bygging hússins var liður í því að efla íslenskt samfélag með bættri stjórnsýslu og innviðum, en bústaður fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar ásamt vísi að læknaskóla og ljósmæðranámi var í húsinu. Í Nesstofu hófst opinber lyfsala árið 1772. Nesstofa er teiknuð af Jacobi Fortling hirðarkitekt og er hún hlaðin úr tilhöggnu grjóti. Ríkissjóður keypti Nesstofu í tveimur áföngum á áttunda áratug síðustu aldar en þá hafði húsið verið einkaheimili allt frá árinu 1834 þegar embætti landlæknis og lyfsala fluttust til Reykjavíkur. Nesstofa var öll falin Þjóðminjasafni Íslands 1979 til umsjónar og vinna við endurreisn hússins hófst. Unnið var í tveimur áföngum undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar arkitekts sem nú hefur tekið saman rit þetta um sögu hússins og endurbyggingu þess. Við framkvæmdir var leitað til sérfræðinga hér á landi og í Danmörku og lögð rík áhersla á þátt forvörslu og miðlunar byggingarsögunnar í uppbyggingar vinnunni. Danski Augustinussjóðurinn, sem naut ráðgjafar Povls Riis prófessors í læknavísindum, styrkti af rausn framkvæmdir við seinni áfangann en Seltjarnarnesbær kostaði vinnu við frágang á lóð og umhverfisbætur. Endurreisn Nesstofu lauk árið 2008 og nú kemur saga þessa merka húss út á bók. Glæsilegu og vönduðu ritverki sem telur á fjórða hundrað síður og prýtt er fjölda uppdrátta og ljósmynda. Þorsteinn Gunnarsson lýsir af mikilli nákvæmni vinnu við endurreisn hússins, rannsóknum, hönnun og smíði, og kryfur til mergjar mörg atriði sem ekki lágu ljós fyrir. Að ritverki þessu er mikill fengur, fyrir þá sem láta sig varða menningarsögu, íslenska byggingararfleifð og húsagerðarlist og fræðast vilja um vinnubrögð við varðveislu, viðhald og endurreisn bygginga sem hafa listrænt og sögulegt gildi. Bókin fæst í Safnbúð Þjóðminjasafns Íslands og vefverslun.

You may also like...