Afmælissýning í Marshallhúsinu til 12. ágúst

– Nýlistasafnið 40 ára –

Djúpþrýstingur nefnist sýning sem nú stendur yfir í Nýlistasafninu í Marshallhúsinu á Grandagarði í tilefni af 40 ára afmæli þess en safnið var stofnað 1978 af hópi 27 listamanna og er í dag eitt elsta sýningarrými sem rekið er af listamönnum. Á 40 ára ferli safnsins hafa yfir 2.500 listamenn komið við sögu þess ýmist með sýningum eða öðrum listviðburðum.  

Í frétt frá Nýlistasafninu kemur fram að listaverkin sem voru valin á sýninguna eiga það sameiginlegt að gefa gestum mörg ólík sjónarhorn á atburði og hugleiðingar nútímans. Tengingar verkanna geti farið inn á hversdagsleg smáatriði, dægurmenningu, ferðamannaiðnaðinn og ástand heimsmála. Verkin varpi fram viðvarandi aðstæðum eða andartökum sem líða hægt eða hratt. Sum verkin eru stækkunargler á meðan önnur eru stjörnukíkir. Þau eru gluggar andspænis gluggum, staðir til að hugleiða, augnablik til að varðveita eða sleppa lausum. 

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Atli Heimir Sveinsson, Andreas Brunner, Auður Lóa Guðnadóttir & Starkaður Sigurðarson, Ásgerður Birna Björnsdóttir, Ásta Ólafsdóttir, Björk Guðnadóttir, Daniel Pflumm, Dieter Roth, Douwe Jan Bakker, Edilson, Eirún Sigurðardóttir, Erika MacPherson, Rachel Zolf, Geoffrey Hendricks, Guðrún Einarsdóttir, High Heel Sisters, Hörður Ágústsson, Jóhanna Kristín Yngvadóttir, Jón Gunnar Árnason, Juliane Foronda, Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Níels Hafstein, Róska, Rúna Þorkelsdóttir, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Guðmundsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir & Veigar Ölnir Gunnarsson. Sýningin stendur fram til 12. ágúst og meðan á henni stendur verður fjölbreytt viðburðadagskrá sem nær yfir sumarið. Þar á meðal listamannaspjall, kokteilstund, gjörningar og viðburðir.

You may also like...