Enn er mikið óunnið

– segir Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands –

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands er löngu þjóðþekktur fyrir störf sín að náttúruverndarmálum. Árni hélt til náms til Gautaborgar að loknum framhaldsskóla. Í Gautaborg bauðst Árna starf hjá náttúruverndarsamtökunum Green Peace sem þá voru með höfuðstöðvar sínar í Svíþjóð í Gautaborg. Árni starfaði hjá samtökunum um tíma en hann bjó í 17 ár í Svíþjóð. Eftir heimkomu tók hann að vinna að náttúruverndarmálum. Hann hafði aflað sér þekkingar á þessu sviði og áhugann skorti ekki. Hann segir enn mikið verk óunnið í umhverfismálum. Ekki síst að því sem snýr að hafinu auk loftslagsmálanna. Árni ræðir við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

Þegar tíðindamaður hafði tyllt sér með Árna við glugga á Kaffi Vest á dögunum kom í hugann að flest viðtöl sem tekin hafa verið við hann hafa snúist um áhugamál hans og starf að náttúruvernd. En hvaðan kemur þessi ötuli náttúrverndarsinni. Er hann úr Vesturbænum. “Nei ég er ekki Vesturbæingur þótt ég hafi búið þar um árabil. Ég á ættir norðan úr landi. Móðurætt mín er að mestu úr Eyjafirði. Reyndar er einnig vestfirskt blóð að vinna í mér vegna þess að móðuramma mín var úr Æðey en fluttist kornung með foreldrum sínum til Eyjafjarðar. Langamma mín var Eyfirðingur. Frá Kjarna á Galmaströnd vestan fjarðarins. Hún hafði dvalið um tíma í Kaupmannahöfn en var síðan fengin til að dvelja um tíma fyrir vestan. Þar náði hún sér í vestfirskan mann Rósinkar Guðmundsson. Rósinkar er eitt af þessum sérstöku nöfnum úr þeim landshluta. Amma bjó á Kjarna ásamt eiginmanni sínum Árna Ólafssyni sem ég heiti eftir. Hann var Hörgdælingur. Fæddur á Stóra Dunhaga en af Skriðuætt í Hörgárdal. Höskuldur faðir séra Þórhalls Höskuldssonar sem var prestur á Möðruvöllum í Hörgárdal og síðar á Akureyri og Árni afi minn voru tvímenningar. Árni á ekki langt að sækja áhuga á náttúruvernd. Faðir hans Finnur Torfi Hjörleifsson, kennari blaðamaður og síðar lögfræðingur stofnaði náttúruverndarsamtök á Vestfjörðum og var einn þeirra sem beitti sér fyrir friðlýsingu Hornstranda. Finnur Torfi er ættaður frá Flateyri. Hann hefur alla tíð verið mikill náttúruverndarsinni. Hann beitti sér í þessum málum og stundaði meðal annars landvörslu á sumrin í Skaftafelli, á Þingvöllum og að Fjallabaki á árunum 1977, 1978, 1982, og 1985.

Fór að vinna hjá Green Peace

Árni er fæddur á Akureyri. “Ég átti heima á Akureyri þar til að ég hafði lokið menntaskóla í MA. Þá flutti ég til Gautaborgar. Fór til náms og 1987 bauðst mér vinna hjá Green Peace. Ég fór að vinna þar. Eiginlega fyrir slysni. Þar kynntist ég náttúruvernd og umhverfismálum og má eflaust rekja það sem eftir hefur gengið í mínum málum til þessara ára. Þarna tengdist ég inn í það sem varð að ævistarfi.” Árni segir starfið hjá Green Peace hafa verið gríðarlega lærdómsríkt. Þarna var ég að vinna í fullu starfi með fleira fólki. Slíkt var tæpast til hér á landi í þessum málaflokk. Hér voru men að vinna að þessu einir.” Eftir að Árni kom heim 1997 fór hann að vinna fyrir nýstofnuð Náttúruverndarsamtök Íslands. “Ég var fljótlega kominn í fullt starf þótt launin væru ekki í samræmi við það til að byrja með. En ég hef unnið þar alla götu síðan.”

Hálendið var einskismanns land

Árni segir stofnun náttúru­verndarsamtakanna fara saman við lög um svæðaskipulag fyrir miðhálendi Íslands. “Fyrir lögin frá 1998 var hálendið einskismanns land þar sem men gátu gert nánast hvað sem þeim sýndist. Jafnvel byggt sér kofa þar sem þá langaði til. Virkjanir voru byggðar samkvæmt sérlögum. Kárahnjúkavirkjun er síðasta virkjunin sem byggð var á þeim lagagrunni.” Árni segir að á þeim tíma hafi menn ekki séð að vindorka væri orðin mikið ódýrari en vatnsaflið. Þarna hefði mátt byggja vindorkuverið með sambærilegri framleiðslugetu á raforku og Kárahnjúkavirkjun framleiðir. “Hugsunarhátturinn hefur breyst. Norðurlandaþjóðirnar Danir, Svíar og Norðmenn framleiða mikinn hluta þeirrar vindorku sem er framleidd í Evrópu. Norðmenn hafa séð möguleika í að nýta vatnsorkuna á móti. Nýta hana þegar ekki blæs en skapa vindorkuna þess á milli.”    

Hofsjökull á miðhálendi Íslands.

Laxárdeilan var frægust 

Árni segir að stór bylgja hafi risið í umhverfismálum eftir RÍÓ ráðstefnuna 1992 sem verið hafa fyrsta aðþjóðlega ráðstefnan um umhverfismál. „Af einhverjum ástæðum náði hún aldrei almennilega hingað. Það þýðir þó ekki að áður hafi verið hugað að þessum málum hér á landi. Ákveðin bylgja varð til upp úr 1970. Þá var farið að ræða um nauðsyn friðlýsinga. Frægasta deilan í þá veru er Laxárdeilan svonefnda þegar deilt var um virkjunarkosti í Laxá í Aðaldal. Í Laxárdeilunni var „aktivisma“ beitt í fyrsta skipti í náttúruverndarmálum hér á landi. Þegar bændur í Þingeyjarsýslu sprengdu stíflu í Laxá. Hermóður Guðmundsson bóndi í Árnesi var í fararbroddi bændasveitarinnar. Sigurður Gizurarson þá ungur lögfræðingur var lögmaður bænda. Ef ég man rétt stóð Valur Arnþórsson sem þá var kaupfélagsstjóri á Akureyri að því að miðla málum. Akureyringar áttu nokkuð undir þar sem ljóst var að stefndi að raforkuskorti í bæjarfélaginu. Niðurstaðan varð að Laxárvirkjun var stækkuð um sex megavött í stað 18 sem upphaflegar áætlanir stóðu til. Stóra stíflan sem átti að byggja var aldrei byggð. Segja má að þarna sé fyrsti sigur náttúruverndar hér á landi. Eftir þessa atburði voru sett lög um Laxá og Mývatn sem voru mjög víðtæk ef miðað er við lagasetningu frá þeim tíma.”

Friðlýsing Hornstranda besta fjárfestingin

Árni segir að málin hafi smám sama þokast áfram. Hann nefnir friðlýsingu Þjórsárvera og Hornstranda sem dæmi um friðlýsingar sem samstaða hafi verið um. „Ég tel að friðlýsing Hornstranda hafi verið sú besta fjárfesting sem hægt var að fara í á þessu svæði. Fólk var flutt burt. Heilsársbúseta heyrði til liðinni tíð. Sagan segir að þegar Hornstrendingar hafi flutt til Ísafjarðar þegar þeir fengu síma og Ísfirðingar tekið að flytja í meira mæli suður. Þá hafi bærinn beyst. Kratisminn hafi tekið að víkja fyrir íhaldssinnuðum sjónarmiðum. Sveitamennirnir af Ströndum hafi verið íhaldssinnaðri en hefðbundnir bæjarbúar á Ísafirði. En maður selur þetta á sama verði og maður kaupir. Friðlandið á Hornströndum er hins vegar gott dæmi um friðlýsingu sem gerð var án átaka. Menn sáu kostina við hana.”

Frá Hornströndum. Árni segir friðlýsingu Hornstranda hafa verið bestu fjárfestingu sem hægt var að gera þar.

Andstaða við kjarnorkuvopn og hvalveiðar 

Þegar ég byrjaði að vinna fyrir Green Peace í Svíþjóð var það á öðrum forsendum. Upphaf þeirra samtaka má rekja til andstöðu við tilraunir með kjarnorkuvopn í Norður Kyrrahafi 1975. Það voru hins vegar aðgerðir samtakanna gegn hvalveiðum sem komu þeim á kortið. Árið 1985 var skipi samtakanna sökkt í höfn á Nýja Sjálandi. Um það leyti fengu samtökin alþjóðlega viðurkenningu. Nokkrum árum síðar eða 1978 og 1979 átti að stöðva hvalveiðar hér við Ísland. En vandinn var sá að skip samtakanna hafði ekki roð við hvalveiðibátum Hvals. Þeir voru miklu hraðskreiðari. Þegar þeir voru keyrðir á fullu gátu þeir siglt Green Peacemenn af sér.”

Árni telur þá tæpast fara aftur á sjó til veiða. Markaður fyrir hvalaafurðir sé horfinn og hvalaskoðun komin í stað hvalveiða.

Hvalaskoðun hefur tekið við af hvalveiðum

Árni segir ólíklegt að þeir fara aftur á sjó. Alla vega ekki til hvalveiða. „Eftir að hvalveiðar voru aftur leyfðar hér 2009 hefur reynst erfitt að koma afurðum af veiðunum á markað. Markaður fyrir hvalaafurðir hefur eingöngu verið í Japan og hann hefur hrunið. Japanir eru eina þjóðin í heiminum sem enn stundar hvalveiðar og þær eru niðurgreiddar af japanska ríkinu. Stjórnvöld annarra ríkja hafa hótað aðgerðum hætti Japanir ekki að veiða hvali í suðurhöfum. Annað hefur líka komið til sögunnar hér á landi. Þar á ég við hvalaskoðunin sem orðinn er stór atvinnuvegur hér á landi. Hvalaskoðunin er stóra breytingin sem varð. Menn fóru að horfa á hvalina í stað þess veiða þá og éta.”

Náttúruvernd á sér ekki endapunkt

Náttúruvernd á sé ekki endapunkt. Áfram verður unnið. Beint liggur við að spyrja Árna hver verði næstu skref í þeim málum hér á landi. „Á næstunni er einkum þrennt sem þarf að vinna að. Ætla stjórnvöld að stofna þjóðgarð á hálendi Íslands. Þetta hefur verið baráttumál Náttúruverndarsamtaka Íslands. Ætlunin er að gera þetta með lögum frá alþingi næsta vetur. Forsætisráðherra hefur undirstrikað að það verði gert. Þetta er viðsnúningur frá því sem var. Þessi hugmynd naut ekki mikils stuðnings þegar hún kom fyrst fram en hugsunarháttur margra hefur verið að breytast. Í öðru lagi eru loftslagsmálin að verða stærra viðfangsefni.” Við veittum athygli þar sem við sátum við glugga á Kaffi Vest að fleiri og fleiri rafdrifnir bílar óku til og frá bílastæðinu. Árni bendir á rafbílana.” Eitt af því sem vinna þarf að er áframhaldandi rafvæðing ökutækja. Íslendingar geta bent á ákveðna sérstöðu. Hér er rafmagn ekki framleitt með olíu eða kolum. Vegasamgöngu eru stór þáttur varðandi losun koldíoxíðs. Norðmenn hafa verið duglegir við að rafvæða bílaflotann. Þetta er farið af stað hér eins og við sjáum hér út um gluggann. Annað sem við þurfum að hyggja að er súrnun sjávar. Þetta snýst ekki bara um Ísland heldur er súrnunin ein stærsta ógn sem steðjar að heiminum í dag. Ísland ræður litlu um framvindu mála en við höfum engu að tapa í þeirri baráttu. Hún snýst um að fá stuðning við róttækar aðgerðir á alþjóðavettvangi en við erum eins og flest önnur ríki í þröngri stöðu.” 

Makríllinn að hverfa til norðurs – hvað með þorskinn

Í þriðja lagi er hafið. Það tengist loftslagsbreytingunum en einnig ábyrgð stjórnun fiskveiða. Við erum búin að ná ákveðnu jafnvægi hvað þorskinn varðar en erum enn í miklu ójafnvægi með aðrar tegundir til dæmis kolmunna og makríl. Það er sorglegt að Noregi, Íslandi, Færeyjum og Evrópusambandinu skuli ekki takast að ná vitrænu samkomulagi um nýtingu þessara uppsjávartegunda. Makríllinn synti til okkar. Hann kom eins og happdrættisvinningur á erfiðum tíma eftir hrunið 2008. Rétt eins og síldin var happdrætti okkar fyrr á árum. Núna erum við að sjá þennan lottóvinning sem makríllinn var hverfa lengra til norðurs. Síldin er ekki á leið til suðurs og spurning um hvort þorskurinn muni einnig leita til norðurs. Þarna eru spurningar um þróunina í lífríki sjávar.”

Enn er mikið verk óunnið 

„Við þetta vaknar líka upp önnur spurning,” heldur Árni áfram. „Hvað kostar að sækja afla frá Íslandi allt norður í Barentshaf eða Smuguna. Og verður olíubrennt við þær siglingar. Miklar líkur eru til þess að meira verði spurt um uppruna fiskmetis á mörkuðum. Hvort þess sé aflað með sjálfbærum veiðum og hvort mikil kolefnislosun fari fram samhliða veiðunum. Þetta er stórt mál og samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru þegar farin að skoða þetta. Þau hafa sent Alþingi erindi um að við gerð fjárlaga verið veitt aukin fjárframlög til þess að skoða og fylgjast með hvað sé að gerast í hafinu.” Árni bendir á að eitt sinn höfum við verið standveiðiþjóð sem barðist fyrir 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Svo komst Ísland í þá stöðu að verja hagsmuni úthafsveiðiríkja. Enn er mikið óunnið til að vernda hafið gegn rányrkju. Ný ríki senda togara út á haf til þess að moka fiski upp. Ríki á borð við Rússland, Kína og Suður Kóreu. Talið er hagkvæmt að ná sem mestu upp úr sjónum á sem stystum tíma. En þarna ríkja skammtímasjónarmið en ekki hagsmunir framtíðarinnar. Hér heima eru menn farnir að átta sig á hvað gerðist við Kanada þegar þorskstofninn við Nýfundnaland hrundi. Hann hefur ekki komið aftur. Gæti eitthvað sambærilegt orðið hér við land. Þorskurinn hér við land fékk góða hvíld á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Svo hófust veiðar af miklum krafti. Togaravæðingin var upp úr stríðinu. Rúmum áratug síðar komu skuttogararnir sem voru enn stórvirkara við að ná í fiskinn. Á árunum frá 1976 til 1983 náðu Íslendingar að fylla upp í það skarð sem myndaðist þegar Bretar hurfu af fiskimiðunum. Það tók ekki nema sjö ár. Hálfur sigur var að vinna landhelgina en erfiðasti hjallinn er að vinna okkur sjálf. Enn er mikið verk óunnið.”

You may also like...