Um 450 umsóknir um 63 íbúðir í Árskógum
Um 450 umsóknir hafa borist um 63 íbúðar sem nú eru í byggingu á vegum Félags eldri borgara fyrir fólk 60 ára og eldra við Árskóga í Breiðholti. Íbúðirnar í húsinu verða eingöngu seldar félögum í Félagi eldri borgara og mun félagið hafa eftirlit með endursölu þeirra til að tryggja að allar kvaðir séu virtar.
Íbúðirnar eru hannaðar í samræmi við markmið húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar um fjölbreyttar húsagerðir, blöndun íbúðagerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða fyrir alla félagshópa – í þessu tilfelli eldri borgara. Fjölbýlishúsið verður 6.650 fermetrar að stærð með 3.850 fermetra kjallara og bílageymslu. Framkvæmdum hefur miðað vel að undanförnu og gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði afhentar á næsta ári. Ljóst var strax í upphafi að mikill áhugi væri fyrir þessum íbúðum og gert hafi verið ráð fyrir fjögurra hæða húsum. Deiliskipulagi var síðan breytt til að hægt væri að byggja fimm hæða hús. Allar íbúðirnar eru með sama sniði eða í sama stíl. Ákvörðun var tekin um að vera ekki með smáíbúðir inn á milli annarra stærri til þess að fjölga búsetumöguleikum heldur halda þeim stærðum sem þegar var búið að ákveða.
Þarf að ná 100 íbúða markinu
Á árinu 2008 eða fyrir tíu árum var samþykkt að byggðar yrðu 100 íbúðir í Suður Mjódd fyrir eldri borgara þar sem ljóst var að mikil þörf væri fyrir húsnæði fyrir þennan aldurshóp. Þegar er bygging húsnæðis fyrir 68 íbúðir komin vel á veg, en félagið mun leita eftir því hvort hægt verði að fjölga íbúðum á þessu svæði eða í næsta nágrenni og ná þannig 100 íbúða markinu eins og gert hafi verið ráð fyrir með skipulaginu frá 2008. Þótt húsnæðisskortur sé fyrir hendi þá hefur staðsetning íbúðanna við Árskóga einnig áhrif – einkum þegar tekið er tillit til þjónustu og samgangna. Árskógarnir eru í næsta nágrenni við Mjóddina þar sem fjölda verslana er að finna, einnig banka og heilsugæslustöðva og ógleymdri Þjónustumiðstöð Breiðholts og aðstöðu Strætó. Mjög góðir göngustígar eru á milli Árskóganna og Mjóddarinnar og auðvelt fyrir eldra fólk sem aðra að komast á milli án þess að þurfa að nota vélknúin ökutæki.