Seljakirkja 30 ára

Hátíðarstund í Seljakirkju. Eins og sjá má er kirkjusalurinn rúmgóður en alls stendur kirkjubyggingin saman af fjórum sölum sem eykur notagildi byggingarinnar til muna.

Seljakirkja er 30 ára. Þótt bygging hennar hafi hafist síðar en annarra kirkna í Breiðholti er Seljakirkja sú sem fyrst var tekin í notkun. Hún var vígð þriðja sunnudag í aðventu árið 1987. Nú á aðventunni verður þessara tímamóta minnst með margvíslegum hætti, boðið verður upp á helgihald með góðum gestum á afmælisdaginn sem er sunnudagur.  Af viðburðum sem þegar eru búnir má nefna fyrsta sunnudag í aðventu 3. desember heimsótti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands Seljasókn og flutti ávarp. Næsta sunnudag þann 10. desember verður sérstök hátíðarstemning í barnaguðsþjónustunni þar sem Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts mun leika jólalög. Á sjálfan afmælisdaginn sunnudaginn 17. desember næst komandi verður boðið til sérstakrar afmælishátíðar. Fjölbreytt hátíðadagskrá verður fyrir unga sem aldna og alla þar á milli. Agnes M. Sigurðardóttir biskup mun prédika við guðsþjónustu og efnt verður til veglegs afmæliskaffis að messu lokinni.

En hver var aðdragandinn að stofnun Seljasóknar og byggingu Seljkirkju. Í grein eftir séra Valgeir Ástráðsson sem var sóknarprestur þar frá byrjun þar til að hann lét af embætti fyrir aldurs sakir er sú saga rakin með skýrum og nákvæmum hætti. Í grein Valgeirs kemur fram að á árinu 1980 hafi íbúafjöldinn í Seljahverfi verið orðinn á áttunda þúsund og stefndi hratt í það sem síðar varð þar á tíunda þúsund íbúa. Á þeim tíma var í Seljahverfi lægstur meðalaldur á landinu og einnig fjölmennustu grunnskólarnir. Það ár losnaði prestsembætti við eina af kirkjunum í borginni. Kirkjustjórnin ákvað þá að stofnuð yrði kirkjusókn í Seljahverfi og henni lagður til starfsmaður sem yrði sóknarprestur í Seljaprestakalli.

Aðstöðuleysi í upphafi – byggja kirkju og rífa

Í upphafi einkenndist safnaðarstarfið af aðstöðuleysi. Fyrsta árið voru almennar guðsþjónustur haldnar á efri hæð verslunarhússins á Seljabraut 54 sem voru einu salarkynnin í hverfinu, sem hugsanleg voru til slíkrar notkunar. Söfnuðurinn fékk að nota sunnudagana fram að kvöldi og eitt kvöld í miðri viku. Það þýddi að fyrir hverja athöfn varð að raða upp stólum, “byggja kirkju” og rífa hana síðan aftur niður. Þetta hefði alls ekki verið hægt, nema vegna þess að áhuginn var mikill og fórnfýsin rík, segir Valgeir. Einnig mikill velvilji skólastjóranna í hverfinu fyrir hendi. Þau Áslaug Friðriksdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla og Hjalti Jónasson, skólastjóri Seljaskóla voru ávallt tilbúin til þess að opna dyr skólanna þrátt fyrir að skólarnir voru á þeim tíma báðir hálfbyggðir og ofsetnir.

Kirkjan var hugsuð innan frá – notagildið var efst í huga

Fljótt varð þó ljóst að byggja yrði kirkju. Metnaður safnaðarins var mikill og fljótlega var skipuð kirkjubygginarnefnd. Í erindisbréfi nefndarinnar var lögð á það áhersla ný kirkja miðaðist fyrst og fremst við að veita þjónustu við íbúa sóknarinnar yngri og eldri. Þar skyldi vera rými fyrir hvers konar kristilegt starf. Nefndinni var falið að ráða arkitekt til starfa og vinna síðan með honum að hönnun byggingarinnar til þess að sem flest sjónarmið og notagildi kæmust til skila. Sverrir Norðfjörð arkitekt var ráðinn til starfa. Vann hann með kirkjubyggingarnefnd að hönnun kirkjubyggingarinnar. Valgeir segir að Seljakirkja hafi frá byrjun verið hugsuð innan frá. Notagildið hafi verið efst í huga og því sé hún frábær starfsmiðstöð. Eins  og íbúar þekkja er kirkjumiðstöðin fjögur hús með tengibyggingu því tilgangur byggingarlagssins var að reisa mætti húsin í áföngum og þegar allt væri upp komið væri hægt að nota marga sali samtímis án þess að eitt truflaði annað.

Guðshús og fjölnotahús í senn

Ekki þarf að taka fram að hin nýja kirkjubygging gjörbylti allri starfsaðstöðu safnaðarins. Önnur salarkynni í kirkjumiðstöðinni gerðu það að verkum að fleiri tækifæri gáfust til eflingar á safnaðarstarfi. Árið eftir vígslu var keypt gott pípuorgel í kirkjuna. Það orgel hafði áður verið í kirkjunni á Hólum í Hjaltadal. Strax að lokinni vígslu settu nemendur Seljaskóla sér það mark, undir forystu Hjalta Jónassonar, skólastjóra, að safna nægjanlegu fé til að kaupa kirkjuklukkur fyrir Seljakirkju. Það gekk á undraverðan hátt. 22. mars 1991 afhentu nemendur Seljaskóla þrjár stórar kirkjuklukkur, sem gjöf til Seljakirkju. Það er glæsilegasta og mesta gjöf, sem vitað er að unglingar hafi gefið kirkjunni sinni hér á landi. Það er dýrmætt. Mest er þó um vert um þann hug sem að baki bjó og sýnir tengsl kirkju og hverfis. Seljakirkja hefur staðist tímans tönn með ágætum. Hún er bæði guðshús en einnig fjölnotahús sem hýsir fjölbreytt safnaðarstarf og félagslíf í Seljasókn.

You may also like...