Við erum of rík til að vera fátæk

— segir Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi —

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi.
Mynd: Rúnar Gunnarsson.

Sanna Magdalena Mörtudóttir hefur setið fyrir Sósíalistaflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur í rúm fimm ár. Hún segir að kröpp kjör þeirra mæðgna í æsku sinni hafi beint sér inn á þá braut. Hún er með bakgrunn í mannfræði og kveðst hafa mikinn áhuga á fjölbreytileika mannlífsins. Að skoða hlutina heildstætt og í félagslegu- og menningarlegu samhengi. “Slíkt hefur nýst mér í fræðilegri umfjöllun jafnt sem við hversdagslegar kringumstæður,” segir Sanna í samtali við Breiðholtsblaðið og Vesturbæjarblaðið.

Hvað kom til að Sanna snéri sér að borgarpólitík og tók sæti í borgarstjórn. Hún segir það eiga rætur í að hún hafi verið að fjalla opinberlega um að hafa alist upp í fátækt. Hvernig hafi verið að alast upp með einstæðri móður sem vann í láglaunastarfi í leikskóla hjá Reykjavíkurborg og vann við þrif í aukastarfi á tímabili. “Við vorum á leigumarkaði sem var erfiður eins og hann er enn í dag og tekjur hennar dugði ekki til annars en brýnustu lífsnauðsynja. Ég fór að skrifa á Facebook um þessa reynslu okkar. Ég var hreinskilin í skrifum mínum og beitti stundum gamansemi eða húmor. Ég var að gera grín að aðstæðum að einhverju leyti en einnig að leggja áherslu á hvað ég var að fjalla um. Við hvaða aðstæður fátækt fólk og ekki síst börn geta lent í. Þessi skrif mín fóru á eitthvert flug og mér var boðið að koma í útvarp til að ræða þessi mál. Mikael Torfason var þá með þætti sem hétu “Fátækt fólk” og ég mætti til hans í viðtal. Í framhaldi af því kynntist ég hópi fólks sem var að ræða um hvort stofna þyrfti vinstri flokk sem væri að vinna eftir sósíalískri hugmyndafræði. Flokk sem væri til vinstri við aðra stjórnmálaflokka þar á meðal Vinstri græn. Ég gekk síðan til liðs við þetta fólk og er ein af stofnfélögum í Sósíalistaflokki Íslands sem var stofnaður fyrsta maí 2017.”

Stefnan í launamálunum hefur ekki virkað 

Sanna segir að í framhaldi af þessu hafi hún verið beðin um að taka sæti á framboðslista fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018. Hún kveðst hafa hugsað sig vel um en komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri það sem hana langaði að gera. Að nýta reynslu sína inn í borgarmálin og í þágu borgarbúa. “Þetta tengist því að Reykjavíkurborg hefur lengi verið láglaunavinnustaður eins og sveitarfélögin eru. Stefna þeirra í launamálum hefur ekki verið að virka nægilega vel. Síðan koma húsnæðismálin þar sem sífelld bið er eftir félagslegu húsnæði. Ég var 26 ára þegar ég var kosin fyrst í borgarstjórnina 2018 og sló þar með 44 ára gamalt met Davíðs Oddssonar sem fram að því var sá aðili sem hafði yngstur verið kjörinn borgarfulltrúi. Nú er ég er á öðru kjörtímabil í borgarstjórn og Sósíalistaflokkurinn er með tvo borgarfulltrúa. Hann hlaut 7,7% atkvæða árið 2022 en 6,37% árið 2018 þegar ég fór fyrst inn.”   

Sveitarfélögin geta gert margt

“Misskiptingin í samfélaginu er ástæða þess að ég fór að skipta mér af stjórnmálum. Margt þarf að uppræta í því efni og þar geta sveitarfélögin komið að verulegu leyti að málum. Þau geta gert margt til þess að laga þetta ástand. Þar bera húsnæðismáli einna hæst og einnig að breyta um launastefnu.” En hvernig var Sönnu tekið þegar hún kom ný inn í borgarmálin með sósíalískan bakgrunn. “Ég get alveg sagt að mér var oft bent á að ég væri að misskilja hlutina. Stundum var að ég held reynt að gera lítið úr mér. Ég væri bara einhver ung kona sem vissi ekkert í minn haus sem auðvitað er ekki rétt. Þau voru að lýsa sínum veruleika og ég mínum.” Sanna segir að hún hafi oft fengið að heyra þegar hún var að gagnrýna að hefð væri fyrir hinu og þessu í borgarmálunum. “Eins og búið væri að ákveða eitthvað fyrirfram og ráðandi öfl ekki tilbúin til að líta út fyrir þann ramma. Mér finnst mikilvægt að spyrja af hverju hlutir eru gerðir svona og hvort réttara væri að gera þá með öðrum hætti. Mér finnst mikilvægt að mál séu í sífelldri endurskoðun en festist ekki í hefðum sem stundum er erfitt og jafnvel ómögulegt að breyta.” 

Hefðarmennskan virkar ekki

“Hefðarmennskan er ekki að virka í Reykjavík,” segir Sanna. “Hér eru ýmis vandamál sem hefur reynst erfitt að leysa. Þar á ég einkum við þann reynsluheim sem ég kem úr. Hér eru húsnæðisvandræði. Börn þjást af því þau búa ekki í nægilega góðu húsnæði. Jafnvel húsnæði sem ekki er ætlað til búsetu. Hér er fátækt. Hér er fólk sem ekki hefur nóg að borða. Foreldrar halda í við sig í mat vegna barnanna. Börn fara jafnvel svöng að sofa. Þetta er til og þessu þarf að breyta. Ég byggi mína pólitík á minni reynslu og þeirra sem við erum að berjast fyrir. Ég byggi á reynslu fólks sem þekkir til. Fólks sem býr við fáránaga lágar tekjur grípur ekki í sameiginlega sjóði. Öflugar grunnstoðir eiga að vera fyrirbyggjandi. Við erum of rík til að vera fátæk.”

Kunni ekki íslensku sem barn 

Sanna ólst upp í Bretlandi fyrstu ár ævi sinnar en síðan í Breiðholti. “Ef ég byrja á byrjuninni þá er ég fædd á Landspítalanum í Reykjavík 1992. Nokkurra vikna fór móðir mín með mig til London þar sem föðurfjölskylda mín býr en hún er ættuð frá Tansaníu. Þessi dvöl okkar mæðgna í stórborginni varði í sjö ár. Við fórum aldrei til Íslands þennan tíma og ég talaði bara ensku. Við komum heim 19. desember 1999 þegar ég var ég sjö ára. Eftir heimkomuna fór ég í Háteigsskóla. Í nýbúadeildina þar eins og hún hét þá. Þar lærði ég íslensku. Hún var fljót að koma með kennslu og innan um krakka sem töluðu móðurmálið. Ég fór strax að reyna að tala íslensku og fjölskyldan gerði grín að mér um jólin þegar ég sagði “thorcaunt” messa í staðinn fyrir Þorláksmessa. Þegar ég lít til baka þá talaði móðir mín ensku við mig fyrst eftir að við komum. Einn daginn þegar ég kom heim úr skólanum spurði hún mig hvernig dagurinn hafi verið og ég svaraði henni á íslensku. “Vá er þetta komið hjá þér”. Hún varð hissa og eftir þetta fórum við að tala saman á íslensku heima. Einnig hjálpaði til að koma inn í fjölskyldu sem talaði íslensku og hún varð þannig fljótt að móðurmáli. En mér finnst sérstakt þegar ég hugsa til baka að hafa ekki alist upp við eða kunnað íslensku sem barn.” Sanna hefur ekki komið til Tansaníu en langar til að fara þangað og skoða landið þar sem hluti róta hennar liggja. “Ég hef ekki mikið samband við föður minn en er í sambandi við systur hans og systurdætur í Englandi sem er mjög skemmtilegt. Ég hef því miður ekki lært móðurmál föðurfjölskyldunnar sem er Svahílí og er opinbert tungumál í fjórum ríkjum sunnan Sahara. Þar á meðal í Tansaníu. Frænkur mínar eru stundum að senda mér skilaboð á Svahílí og ég þarf að nota Google translate til þess að þýða það. Ég hef þó áhuga á að kynna mér tungumálið og vonandi fæ ég tækifæri til þess.”

Erfitt á leigumarkaði 

Sanna segir að þær mæðgur hafi verið talsvert á flakki í hverfi 105. “Erfitt var að vera á leigumarkað. Móðir mín var alltaf leitandi að íbúð fyrir okkur sem væri ekki mjög dýr sem var erfitt þá eins og nú og hefur alltaf verið. Hún var áskrifandi að leigulistanum og eitt sinn fórum við í blaðaviðtal þar sem við ræddum þennan vanda. Á eftir fór fólk að hafa samband við okkur og bjóða fram húsnæði en það var ekki alltaf eitthvað sem hentaði. Ef ég man rétt var okkur boðin ósamþykkt íbúð sem hefði ekki gengið upp. Eftir þrjú á biðlista eftir félagslegri íbúð fáum við íbúð við Vesturberg í Efra Breiðholti. Þetta var á miðju skólaári og ég lauk því við fimmta bekkinn í Háteigsskóla. Ég tók strætó niður eftir og aftur heim á daginn. Af því ég var hávaxin héldu vagnstjórarnir stundum að ég væri eldri en ég var og væri að svindla mér í strætó. Haustið eftir tók Fellaskóli við. Ég byrjaði í sjötta bekk og útskrifaðist þaðan. Fellaskóli er mjög góður skóli. Mér leið vel þar. Þorsteinn Hjartarson var þá skólastjóri og Kristín Jóhannesdóttir sem síðar varð skólastjóri um tíma var yfirkennari eða aðstoðarskólastjóri. Ég hef alltaf haft gaman af námi nema ef til vill stærðfræði sem liggur ekkert sérstaklega vel fyrir mér. En ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir félagsvísindum.”

Gott að vera í Breiðholti 

“Mér fannst gott að vera í Breiðholti. Hverfið er vel skipulag. Byggðin er opin og auðvelt fyrir krakka að labba um. Í Breiðholtinu þarf ekki að fara yfir stórar umferðargötur til þess að komast í skóla eða á frístundaheimili. Hverfið er mjög gönguvænt.” Sanna segist aldrei hafa verið í skipulegu félagsstarfi. Ég greip í skólagarðana. Ég hafði áhuga á dansi en við höfðum ekki peninga til þess að kosta dansnámskeið eða dansskóla. Ég átti hins vegar alltaf vinahóp í kringum mig og sem krakki vorum við mest úti að leika. Vinkona mín átti heima í Vesturberginu við hliðina á okkur. Ég fór oft yfir til hennar og svo löbbuðum við saman í skólann. Vorum líka stundum á Leiknisvellinum þótt ég væri ekki í fótbolta. Margt skemmtilegt var hægt að gera. Stundum var maður að labba heim til annarra krakka, dingla og spyrja hvort þú væru heima. Ég man líka eftir sjoppunum. Við vinkonurnar vorum að leigja vídeóspólur. Stundum voru tilboð og hægt að leigja eina nýja mynd og aðra gamla og kaupa snakk og gos. Sérstaklega ef við vorum að gista saman þá var þetta toppurinn. Ein eða tvær bíómyndir og snakk og gos. Nú er þetta allt horfið. Netmiðlar teknir við af vídeóinu og verslanamenningin hefur breyst.” Sanna víkur að Miðbergi. Rifjar upp að nokkrar stelpur hafi tekið þátt í hæfileikakeppni í söng. “Við æfðum atriðið okkar og fluttum það í Miðbergi. Þetta var skemmtileg upplifun og sjálfsöryggið jókst til muna. Ég var stundum í Miðbergi einkum þegar ég var yngri. Ég kom í hverfið tíu ára og var byrjuð að kynnast krökkum þótt ég væri enn í Háteigsskóla.”  

Styrkur fólginn í fjölbreytninni 

Sanna snýr sér að fjölmenningunni sem einkennir Breiðholt mörgum byggðum fremur en einnig miðborgina. Hún segir fjölmenningu meira áberandi eftir því sem fólk komi víðar að. “En ef ég lít til baka þá var ég með krökkum í skóla sem voru með brúnt litarhaft. Ýmist af blönduðum uppruna eins og ég er eða börn aðflutts fólks. Annað sem ég upplifði eftir að ég kom í Breiðholt var að þar virtust fleiri börn sem áttu fátækt fólk að sem lifðu efnahagslegan skort en til dæmis í Háteigsskóla. En ég held að ákveðinn styrkur sé fólginn í fjölbreytninni. Að allir séu ekki eins og eigi sér mismunandi bakgrunn.”

Vesturbærinn er skemmtileg byggð

En svo liggur leiðin í Vesturbæinn. “Já, svo tók Vesturbærinn við. Þegar ég hóf nám við Háskóla Íslands bjó ég á stúdentagörðunum sem voru fyrstu kynni mín af Vesturbænum. Eftir það fór ég fljótlega að leita mér að íbúð í Vesturbænum. Þegar ég var komin í borgarstjórn sá ég líka kost í því að vera nálægt vinnustöðvunum í Ráðhúsinu. Ég er með bílpróf en er ekki á bíl og geng því oftast niður í Ráðhús. Þetta hentar mér ágætlega. Nú er ég búin að vera fimm ár í Vesturbænum. Ég segi stundum að ég sé nýlega flutt í Vesturbæinn því mér finnst ég vera svo mikill Breiðhyltingur. Ég tengi svo margt við Breiðholtið. Eitt af því sem mér finnst gott við Vesturbæinn er að búa nálægt sjónum og geta farið í göngutúra við sjávarsíðuna og svo er stutt í flest allt. Vesturbærinn er skemmtileg byggð.”

You may also like...