Um 400 nýjar íbúðir í þremur kjörnum

Þjónustukjarninn við Arnarbakka má muna fífil sinn fegurri. Eftir að Reykjavíkurborg festi kaup á húsnæði þar hefur húsnæði verið leigt út til bráðabirgða fyrir ýmsa starfsemi. Nú er ætlunin að ráðast í endurbyggingu ásamt íbúðabyggingum. 

Í drögum að hverfisskipulagi Breiðholts er gert er ráð fyrir að byggja megi allt að 400 íbúðir í þremur kjörnum í Breiðholti. Í sömu kjörnum er einnig gert ráð fyrir að efla verslun og aðra þjónustu við íbúa byggðanna.

Fyrsti reiturinn sem um ræðir er við Arnarbakka. Þar er horft til þess að stækka núverandi hverfiskjarna og skilgreina reit undir íbúðabyggð. Auk atvinnuhúsnæðis er þar gert ráð fyrir allt að 150 íbúðum og er sérstaklega tekið fram að þar á meðal verði nemendaíbúðir.

Næsti reitur er Eddufell-Völvufell í Efra Breiðholti. Er þar bæði horft til þess að stækka verslunar- og þjónustusvæði, en einnig íbúðabyggð upp á 150 íbúðir. Í núverandi aðalskipulagi hefur þar verið gert ráð fyrir allt að 50 íbúðum þannig að þetta væri fjölgun upp á 100 íbúðir.

Þriðji reiturinn er Rangársel í Breiðholti. Þar er líkt og á hinum reitunum á undan gert ráð fyrir stækkun verslunar- og þjónustusvæðis, en auk þess að auka við mögulegt byggingarmagn íbúðabyggðar. Í dag er í aðalskipulagi heimild fyrir 10 íbúðum, en samkvæmt tillögunni gæti fjöldinn farið upp í 100 íbúðir.

Í auglýsingu vegna tillögunnar segir að markmið breytingarinnar sé að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis í borginni í samræmi við meginmarkmið húsnæðisstefnu aðalskipulagsins og að stuðla að auknu framboði íbúða á viðráðanlegu verði. Þá eigi þetta einnig að stuðla að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar og sterkari hverfisheildir.

You may also like...