Allt að 400 íbúðir reistar á landhelgisgæslulóðinni
Áætlað er að reisa allt að fjögur hundruð íbúðir á landhelgisgæslulóðina við Seljaveg þar sem gamla sóttvarnarhúsið stendur. Um verður að ræða hagkvæmar íbúðir fyrir ungt og efnaminna fólk.
Þetta er hluti af húsnæðissáttmála stjórnvalda sem var kynntur árið 2017 í stjórnartíð Þorsteins Víglundssonar, fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra og Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra. Viðræður á milli ríkis og Reykjavíkurborgar standa enn yfir en húsið og lóðin eiga eftir að fara í gegnum verðmat en sátt hefur náðst um forsendur kaupanna.
Landhelgisgæslan eignaðist húsið sem stendur á reitnum 1954. Stjórnstöð hennar var þar um árabil og af því dregur reiturinn heiti sitt í dag. Húsið var upphaflega byggt á árunum 1903 til 1906 sem sóttvarnarhús í Reykjavík samkvæmt lögum frá 1902 þar sem kveðið var á um að byggja sóttvarnarhús í kaupstöðum landsins. Húsið var reist neðst í túni Miðsels til að vera nokkuð fyrir utan byggðina í Reykjavík enda ætlunin að vista þar fólk sem var í sóttkví. Árið 1935 voru 25 sjúkrarúm í húsinu en það var aflagt sem slíkt 1954.