Ársreikningur bæjarins samþykktur

– minni- og meirihluti körpuðu að vana –

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar var samþykktur á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 26. maí sl. Nokkuð var karpað um niðurstöður hans á milli meiri- og minnihluta bæjarstjórnar sem ekki er nýtt af nálinni. 

Í bókum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar segir m.a. að ársreikningur Seltjarnarnesbæjar sýnir að taprekstur A sjóðs Seltjarnarnesbæjar er kominn yfir einn milljarð á síðastliðnum sex árum en A sjóður er sá hluti rekstursins sem fjármagnaður er af sköttum íbúa. Þetta þýðir að bærinn er að veita þjónustu sem kostar hundruðum milljóna meira en bærinn er að fá í tekjur. Rekstur Seltjarnarnesbæjar er þar af leiðandi ósjálfbær ef ekki verður gripið til þess að skera niður þjónustu eða auka tekjur. Í umræðu um ársreikning bæjarins lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram einfaldar spurningar sem hljóðuðu svo: Hvernig ætla bæjarfulltrúar meirihlutans að snúa við hallarekstri bæjarins? Liggur fyrir áætlun um hvernig eigi að auka tekjur eða draga úr kostnaði?

Engin langtímalán tekin

Í bókum meirihluta bæjarstjórnar segir m.a. að ársreikningur Seltjarnarnes fyrir árið 2020 endurspegli þá erfiðu stöðu sem sveitarfélög hafa búið við í heimsfaraldri en einnig sterka stöðu bæjarins og hversu sterkur rekstur bæjarins er. Fyrir liggi að myndin varð allt önnur fyrir síðasta ár vegna áhrifa Covid-19 á reksturinn. Tekjur lækkuðu og kostnaður jókst. Þess verður þó að geta að Seltjarnarnesbær er betur í stakk búinn að mæta þessum frávikum þar sem rekstur og efnahagur bæjarins er sterkur. Engin langtímalán voru tekin á árinu 2020 og skuldahlutfall bæjarins lágt. Lántökur bæjarins hafa einvörðungu verið vegna verkefna sem samstaða í bæjarstjórn hefur staðið um m.a. byggingu hjúkrunarheimilis og stækkun íþróttamiðstöðvar svo stærstu liðirnir sem taldir upp. Seltjarnarnesbær er rekið af ábyrgð og festu með áherslu á velferðarmál og grunnþjónustu. 

Í bókun fulltrúa Neslista segir m.a að staða fjármála bæjarins verði ekki leyst með ómálefnalegum athugasemdum gagnvart fulltrúum minnihlutans í fjölmiðlum og Nesfréttum. Eingöngu fagleg og heiðarleg skoðun á öllum fjármálum, rekstri og þjónustu bæjarins mun skila ásættanlegri niðurstöðu.

You may also like...