Um fimmtíu í karlakaffinu

Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra mætti galvaskur í kaffið á dögunum.

Um fimmtíu karlar mættu í karlakaffið í Fella- og Hólakirkju síðasta föstudagsmorgun í september en þann dag í hverjum mánuði er körlum sem komnir eru á góðan aldur boðið til kaffidrykkju í safnaðarheimili kirkjunnar. Ýmsir þjóðþekktir gestir hafa verið fengnir til þess að koma og spjalla við karlana og mætti Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra galvaskur í kaffið á dögunum. Síðasta föstudag í október er síðan von á Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrum utanríkisráðherra til kaffifundar við heldri menn í Breiðholti.

Upphaf kaffifundanna má rekja til þess að konur reyndust almennt áhugasamari til þess að taka þátt í ýmsum félagsstörfum. Margir karlar sem komnir eru á eftirlaunaaldur voru hins vegar viljugir að aka konum sínum til og frá kirkjunni og létu sumir sig hafa að bíða í bílum sínum fyrir utan á meðan konurnar tóku þátt í ýmsu félagsstarfi. Farið var að leita leiða til þess að virkja karlana og fá þá til að koma og þannig var þessi snjalla hugmynd til. Aðsókin jókst fljótlega og sýnir hún í dag að þetta starf nýtur orðið verulegra vinsælda. Von er á fleiri fróðum og gamansömum framsögumönnum á næstunni en karlakaffi fellur niður í desember vegna þess að síðast föstudagur þess mánaðar er mitt á milli jóla og nýjárs.

You may also like...