Bæjarfélagið verður rekið með halla

– útsvar verður ekki hækkað –

Útsvar verður ekki hækkað á Seltjarnarnesi. Útsvarið verður áfram 13,70 prósentustig sem er það lægst á landinu. Hallarekstur hefur verið á bæjarsjóði undanfarin fimm ár og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Á fundi bæjarstjórnar á dögunum var lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs og var þar gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 136 milljónir króna. 

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir að fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar sé sterk og skuldir langt undir viðmiðunarmörkum, samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Hún segir að skuldir bæjarfélagsins hafa aukist óverulega vegna byggingar hjúkrunarheimilis og stækkunar íþróttamiðstöðvar. Í forsendum fjárhagsáætlunarinnar er gert ráð fyrir að þjónusta við bæjarbúa verði áfram eins og best verður á kosið, að ekki verði dregið úr grunnþjónustu vegna samdráttar tekna og að álögur á íbúa verði haldið eins lágum og kostur er. Jafnframt verði gætt ítrasta aðhalds í rekstri bæjarins.

Tekjur ekki ofáætlaðar

Ásgerður segir að sú fjárhagsáætlun sem lögð hefur verið fram geri ekki ráð fyrir kyrrstöðu, niðurskurði eða þjónustuskerðingum við íbúa bæjarins. Hún geri ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu og því ljóst að ekkert má út af bregða. Ásgerður segir að þegar tillagan er rýnd og borin saman við rekstur liðinna ára komi í ljós að tekjur séu ekki ofáætlaðar og fjárútlát miðast við þá grunnþjónustu sem á að standa vörð um. „Bæjarfélagið er rekið með fyrsta flokks þjónustu. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár staðið í miklum framkvæmdum og eru framkvæmdir m.a. eins og bygging nýs sambýlis framundan á næsta ári. Tekið skal fram að rekstrarreikningur ársins 2019 var jákvæður. Með tilkomu bóluefnis og viðspyrnu þjóðfélagsins með aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna covid trúi ég því að rekstur næsta árs verði okkur hagfelldur,“ segir Ásgerður.

You may also like...