Hugsjónir rætast og þá mun aftur morgna

— segir Magnús Erlendsson í spjalli við Nesfréttir —

Magnús Erlendsson heima í stofu við Sævargarðana.

Magnús Erlendsson fyrrum bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Magnús er á nítugasta og þriðja aldursári. Er vel ern og býr í húsi sínu við Sævargarða. Magnús er Reykvíkingur að ætt og uppruna. Fæddur á Njálsgötu 10 klukkan tíu árdegis þann 10. maí 1930. Hann segir 10. maí merkisdag fyrir margra hluta sakir. Þar vísar hann meðal annars til þess að Bretar gengu hér á land og hersettu landið 10. maí 1944. Magnús tengist Bretlandi. Hann sótti þangað nám sem ungur maður á þeim tíma sem fátíðara var en í dag að menn færu til náms erlendis. Hann fékk áhuga á Winston Churchill, stjórnmálamanninum sem stýrði Bretlandi á tíma annarrar heimsstyrjaldarinnar sem jafnan hefur verið kölluð hin síðari og er enn þann dag í dag einn þekktasti stjórnmálamaður heimsveldisins breska. Magnús á fjölda bóka um Churchill og tímabil hans í breskum stjórnmálum og átti um tíma í bréfasambandi við yngstu dóttur hans Mary Soames. Hann nefnir börn hans Randolp, Sara, Margot, Diana og Mary. Kann sögu þeirra sem sum er þyrnum stráð einkum vegna alkóhólisma og of langt yrði að rekja hér.  

Eftir að Magnús kom frá námi í London hóf hann störf hjá heildverslun Björgvins Schram og starfaði þar til þess að hann setti eigið verslunarfyrirtæki á stofn. Hann gekk í hjónaband með eiginkonu sinni Ingibjörgu Bergsveinsdóttur á jónsmessu 1953. Ingibjörg lést fyrir tveimur árum. Hún lét að sér kveða ekkert síður en eiginmaður hennar. Var einn af stofnendum og síðar heiðursfélagi Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness. Í eftirmælum um hana er tekið fram að hún hafi búið að fjölþættri reynslu eftir að hafa rekið fyrirtæki, ritstýrt blaði, starfað að sveitarstjórnarmálum og alið upp börn. Magnús sýnir komumanni mynd af þeim hjónum tekna á afmælisdegi hans fyrir all nokkrum árum og lætur hugann síðan reika til baka. Til upphafsáranna og rifjar upp upphaf kvæðis Jónasar Hallgrímssonar Ferðalok þar sem segir.

„Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg.

En anda, sem unnast,

fær aldregi

eilífð að skilið.“

Að vitna í þessar ljóðlínur segir meira en mörg orð um sögu þeirra hjóna.

Áttum við að flytja á þennan rokrass

Talinu víkur að Seltjarnarnesi. Hvernig á því hafi staðið að hjón með sterkan bakgrunn í Reykjavík hafa ákveðið að flytja út á Seltjarnarnes. „Við bjuggum fyrstu árin við Rauðalæk. Fjölskyldan stækkaði og þegar þriðja barnið var á leiðinni fórum við að huga að stærra húsnæði. Ég hafði samband við fasteignasala sem ég kannaðist við og hann hélt að auðvelt yrði finna íbúð fyrir okkur. Það fór þó á annan veg. Eftir umtalsverða leit kom í ljós að við gætum fest kaup á fjögurra herbergja íbúð með suðursvölum á Seltjarnarnesi. Okkur leist ekkert á það í upphafi. Áttum við að flytja út á þennan rokrass sem heitir Seltjarnarnes. Þetta lenti með því að við festum kaup á þessari íbúð og á árinu 1963 vorum við orðnir Seltirningar. Á þeim tíma voru ekki margar leiðir til og frá Seltjarnarnesi. Eingöngu var um Nesveginn að ræða. Þá var enginn ökuleið um Eiðisgrandann. Þá voru öskuhaugar Reykjavíkurborgar þar sem aðalökuleiðin er nú.“

Hringdi bjöllunni hjá Sigurgeir

„Eftir skamman tíma á Seltjarnarnesi hugkvæmdist mér að ganga í Sjálfstæðisfélagið á Nesinu,“ segir Magnús sem var ákvörðun er átti eftir að setja mikinn svip á líf hans. „Ég vissi hvar hreppsnefndarmaður sjálfstæðismanna bjó. Ég rölti yfir til hans og hringdi dyrabjöllunni hjá honum. Þegar hann kom til dyra bar ég upp erindið sem var að skrá mig í félagið. Þessi maður var Sigurgeir Sigurðsson sem síðar var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í áratugi.“ Þarna upphófst samstarfs Magnúsar og Sigurgeirs og vinátta sem stóð á meðan báðir lifðu. „Ég man þegar Sigurgeir var ráðinn sveitarstjóri eins og það hét þá. Auk okkar Sigurgeirs voru Snæbjörn Ásgeirsson og Karl Bergmann Guðmundsson í bæjarstjórninni. Þegar rætt var um hver ætti að vera sveitarstjóri færðust bæði Snæbjörn og Karl undan því. Snæbjörn kvaðst vera með eigið fyrirtæki og Karl kvaðst starfa í Landsbankanum. Sigurgeir sagðist hins vegar bara vera sölumaður hjá KR Kristjánssyni. Hann gæti svo sem reynt að vera sveitarstjóri. Sigurgeir flutti ásamt Sigríði Gyðu eiginkonu sinni á Seltjarnarnes árið 1957 og var kjörinn í hreppsnefndina árið 1962. Þremur árum síðar var hann orðinn sveitarstjóri og í framhaldi bæjarstjóri frá árinu 1974. Sigurgeir er með lengstan starfsferil sem sveitar- og bæjarstjóri en hann sat í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi í samtals 40 ár þar til að hann lét af embætti árið 2002.“

Vorum ekki alltaf sammála

Magnús viðurkennir að þeir Sigurgeir hafi ekki verið sammála um hvert einasta mál sem kom upp og stundum deilt en það hafi aldrei haft áhrif á vináttu þeirra. „Sigurgeir hringdi í mig tveimur dögum áður en hann dó,“ segir Magnús og minnist félaga síns með eftirsjá og virðingu. ” Og hann bætir síðan við. ”Við íhaldsmenn höfum haldið meirihluta í bæjarmálum hér í 62 ár. Ég held að það sé einsdæmi. Að hvergi hafi sama stjórn­málaaflið haldið hreinum meirihluta í sveitarstjórnarmálum svo lengi. Ég hafði alltaf þá stefnu að við værum með lægstu opinberu gjöldin á íbúana og hefðum nóg af opnum svæðum. Við þetta hefur verið staðið í sex áratugi.” Magnús er harður á að aldrei verði byggt á vestursvæðunum á Seltjarnarnesi. ”Nú eru verið að byggja yfir allt að 500 manns úti við Gróttu. Þegar það verður fullklárað verður aldrei byggt meira á Seltjarnarnesi. Þá verður Seltjarnarnes fullbyggt með um eða liðlega fimm þúsund íbúum,” segir Magnús og leggur áherslu á orðin. 

Jón G. Tómasson að telja stjörnur

”Gamall vinur minn Jón G. Tómasson var sveitarstjóri áður en Sigurgeir tók við. Hann sagði einhverju sinn við mig að stundum hafi verið lítið að gera að á sveitarskrifstofunni sem var í gamla Mýrarhúsaskóla. Hann hafi tekið upp á því að horfa út um gluggann og farið að telja stjörnur. Ég veit ekki hvort hann sagði þetta í gríni. Jón var lengi formaður stjórnar SPRON. Þegar sparisjóðurinn opnaði útibú á Seltjarnarnesi kom í minn hluta að bjóða sparisjóðsfólkið velkomið. Þá sagðist ég vona að þau væri ekki komin til þess að telja stjörnur. Þau ætti að telja peninga. Eftir að ég hafði verið nokkur ár í hreppsnefndinni barst okkur til eyrna að Reykjavíkurborg vildi innlima Seltjarnarnes. Ég brá við og ræddi meðal annars við ágæta menn. Matthías Á. Mathiesen og Ólaf G. Einarsson. Þetta varð ekki að veruleika og kaupstaðarréttindin voru fengin 1974. Þegar við fluttum á Seltjarnarnes voru um 1700 íbúar þar. Á meðan Nesið var hreppur var hreppstjóri hér. Guðmundur Illugason gegndi því embætti og sumir gárungar uppnefndu hann. Drógu uppnefnið af föðurnafninu og kölluðu hann Íllason. Lárus Salómonsson var lögreglumaður og einnig Ingimundur Helgason.”

Skrifaði fyrir Bessa og Gunnar

Magnús kveðst oft hafa fengið það hlutverk að vera veislustjóri. „Einhverju sinni kom mér til hugar að yrkja þekktan kviðling Þórbergs Þórðarsonar um Seltjarnarnesið upp á nýtt til að fara með á samkomu. Upphaf visnagjörðar Þórbergs er svona.

Seltjarnarnesið er lítið og lágt.

Lifa þar fáir og hugsa smátt.

Aldrei líta þeir sumar né sól.

Sál þeirra er blind eins og klerkur á stól.

Hjá mér hljómaði þetta svona.

Seltjarnarnesið er fagur og frítt.

Frábært af fólki er hefur ey skítt.

Sólin þar geislar með miklum glans.

Vinstri menn hafa þar engan sjans.

Allir þar búa á eignarlóð.

Afkoma manna er feiknar góð.

Á kvöldin heyrast þar kynja hljóð.

Krökkum þar fjölgar af miklum móð.

Þetta gerði lukku og ég held að það hafi orðið til þess að ég náði fyrsta sæti í prófkjöri á eftir.“ Magnús hafði greinilega gaman af að segja frá þessu en færri vita að hann stundaði og hafði gaman af að semja skemmtiefni. Einhverju sinni sendi hann brag til Svavars Gests sem þá stjórnaði vinsælum skemmtiþætti á sunnudagskvöldum í Ríkisútvarpinu. Nokkru síðar var Magnús ásamt fleirum á skemmtun á Hótel Sögu um helgi. Hljómsveit Svavars Gests var að spila. Magnús kvaðst hafa komið að máli við Svavar og spurt hann hvort hann skuldaði sér ekki eitthvað. Svavar hafi kváð við. Hann vissi ekki hver skrifaði pistilinn sem hann fékk sendan. „Ég setti bara Mangi undir en ekki fullt nafn. Svavar borgaði eitthvað fyrir þetta.“ En Magnús gerði talsvert af því að skrifa gamanefni. „Ég skrifaði pistla fyrir Bessa Bjarnason og Gunnar Eyjólfsson þegar þeir voru að skemmta. Þetta fór því víðar en á kvöldskemmtunum á Seltjarnarnesi.“

Söng ítalskan ástarsöng á frummálinu

Magnús hefur alltaf verið söngelskur. Hann átti sæti í útvarpsráði um tíma. Á þeim árum hættu nokkrir í ráðinu sem höfðu átt sæti þar um talsverðan tíma. Mikið kveðjuhóf var haldi í Þingholti í Hótel Holti. Eitthvað var hnippt í mig um hvort ég ætlaði að segja einhver orð. Ég hafi ekki hugsað mér það. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur var í útvarpsráði fyrir Alþýðubandalagið og ákveðið var að hann héldi ræðu í samkvæminu. Á meðan hann var að tala hugsaði ég með mér að ekki væri hægt að láta þennan komma eiga síðasta orðið. Þegar hann hafði lokið máli sínu stóð ég upp og söng ítalskan ástarsöng á frummálinu. Ég var spurður hvar ég hefði lært að syngja. Ég hef aldrei lært að syngja. Hef bara gaman af söng. En þegar ég var við nám í London eignaðist ég hljómplötu með ítalska söngvaranum Benjamino Gili. Ég hlustaði mikið á hana og lærði sum lögin. Þarna kom ég einhverjum á óvart.”

„Þessi hitaveita hefur gefið okkur meira en flest annað,” segir Magnús.

Hitaveitan hefur gefið meira en flest annað

”Seltjarnarnesið var ekki tengt við hitaveitu Reykjavíkur. Var því eitt af köldu sveitarfélögunum. Við sáum enga framtíð í því. Við byrjuðum að láta bora í von um að finna heitt vatn. Fyrstu tilraunir við að bora fyrir heitu vatni á Seltjarnarnesi fóru fram árið 1965. Í fyrstu var borað grunnt en hátt hitastig vatnsins kom mönnum strax á óvart. Einn daginn kom upp gusa af sjóðheitu vatni. Þessi hitaveita hefur gefið okkur meira en flest annað.”

Hugsjónir rætast

Eitt af því sem Magnús lagði áherslu á var að byggja hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi. ”Á mínum fyrsta fundi í bæjarstjórn lagði ég fram tillögu að við Seltirningar færum að hugleiða byggingu hjúkrunarheimilis. Félagar mínir samþykktu þetta en gerðu hálfgert grín að mér. Hvað ert þú farinn að hugsa um elliheimili. Við erum allir svo ungir. Svona langt nær saga Seltjarnar aftur. Og loksins er hún komin. Fyrsta skóflustungan að hjúkrunarheimili var tekin í júní 2014 í framhaldi af því að Seltjarnarnesbær úthlutaði ríkinu lóð að Safnatröð 1. Heimilið var síðan tekið í notkun með formlegum hætti 2. febrúar 2019. Konan mín naut umönnunar þar eftir að heilsa hennar fór að gefa sig. Ég fer þangað á morgnana og dvel fram eftir degi. Þar hitti ég gamla félaga sem ég get spjallað við og borðað með í hádeginu. En ég bý enn heima. Ég segist stundum vera í pössum eins og börnin. Gott að geta gantast aðeins með þetta. En þetta er frábært fyrirkomulag fyrir mig sem er orðin einn. Ég segi stundum að ef ég ætti ekki börnin mín og barnabörnin væri lífið tómlegt. Einn af ókostum þess að verða svona gamall er hvað margir eru farnir á undan manni. Þeim fækkar alltaf sem ég get hringt í. Þegar ég lít yfir farin veg er margs að minnast. Flest er ánægjulegt. En þegar ég dreg þetta saman í eina setningu gæti hún hljóðað svona. Hugsjónir rætast og þá mun aftur morgna.”

Mikið fjölmenni var viðstatt vígsluathöfn hjúkrunarheimilisins sem var eitt af óskabörnum Magnúsar.

You may also like...