Byggja á nýjan 300 barna leikskóla á núverandi skólalóð

Bráðabirgðarhúsnæði leikskólans sem tekið var í notkun í haust.

Baldur Pálsson, fræðslustjóra á Seltjarnarnesi.

Gert er ráð fyrir að byggður verði allt að 300 barna leikskóli á Seltjarnarnesi. Skólinn verður á núverandi skólalóð – stundum nefndri Ráðhúslóð vestan Suðurstrandar og neðan Hrólfsskálamels. Vinna stendur yfir við að útbúa keppnislýsingu fyrir hönnunarsamkeppni, sem væntanlega verður auglýst síðar í haust. Leikskóli Seltjarnarness hefur átt í húsnæðisvandræðum þar sem börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað verulega á síðustu árum og mánuðum. Nesfréttir settust niður með Baldri Pálssyni fræðslustjóra á Seltjarnarnesi og fræddist um leikskólamálin.

Baldur segir að erfiðleikar hafi verið við að koma öllum börnunum fyrir í leikskóla í haust. Fyrst og fremst vegna þess hve erfiðlega hafi gengið að ráða nægjanlega margt starfsfólk að leikskólanum. Einnig varð nokkur töf á afhendingu á nýju bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemina. Tekist hafi að leysa þennan vanda og sé búið að finna öllum börnum pláss sem verið hafi á biðlistum fyrir þetta skólaár. Engin börn séu því á biðlista frá því í vor, en börn fólks sem nýflutt séu á Nesið eftir að inntöku barna fyrir árið 2018 til 2019 lauk, geti þurft að bíða eftir plássi. Hann segir að húsnæðisvandi leikskólans hafi verið leystur til bráðabirgða með smáhýsum sem keypt hafi verið frá Tékklandi og sett saman á skólalóðinni. 

Nýja starfsstöðin hefur hlotið nafnið Fagrabrekka og stendur hún við hlið Mánabrekku.

Tókst að leysa vanda leikskólans

“Afhending húsanna dróst nokkuð á liðnu sumri og skapaði það áhyggjur af skólastarfinu í haust. Drátturinn stafaði af því að undirverktakar sem sá um afhendingu íhluta gátu ekki afhent þá til framleiðanda á tilskyldum tíma vegna anna, en þensla er á byggingamarkaði víða í Evrópu rétt eins og er hér á landi. Húsin komu hins vegar í fullkláruðum einingum, með uppsettum ofnum og ljósum í loftum þannig að nánast þurfti ekkert annað að gera en festa þau saman í eina heild og tengja við lagnir. Einnig leystist úr starfsmannamálunum en reyndar ekki fyrr en á sama tíma og húsnæðið var tilbúið. Vel skiljanlegt er því að foreldrar sem biðu í nokkurri óvissu með skólapláss fyrir börn sín væru farnir að hafa áhyggjur. Þessi vandi hefur ekki eingöngu verið til staðar á Seltjarnarnesi heldur víðar og má í því sambandi minnast vanda við að manna leikskóla víðar á höfuðborgarsvæðinu í haust. Fyrirfram hafði verið unnin heilmikil undirbúningsvinna, bæði fyrir nýju leikskóladeildirnar og útisvæði við þær, svo að uppsetning og frágangur tækja sem skemmstan tíma. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar, starfsfólk Leikskóla Seltjarnarness og allir aðrir sem lögðu sitt af mörkum til að þetta tókst á svo skömmum tíma eiga mikið hrós skilið fyrir sitt framlag.”

 Engin ástæða til að hafa áhyggjur af vellíðan

Nýja starfsstöðin hefur hlotið nafnið Fagrabrekka og stendur hún við hlið Mánabrekku. Húsnæði Fögrubrekku er alls um 270 fermetrar og samanstendur það af leikskóladeildunum Strönd og Tjörn, ásamt tengibyggingu með anddyri og starfsmannaaðstöðu. Skrifstofuhúsnæði í lausum einingum sem staðið hefur við hlið Mánabrekku er einnig tengt við nýja húsnæðið. Leikrými hvorrar deildar er rúmlega 80 fermetrar og aðliggjandi fataherbergi, skiptiaðstaða og snyrtingar eru tæplega 30 fermetrar fyrir hvora um sig. Baldur segir að þótt um bráðabirgðahúsnæði sé að ræða sé engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af velferð eða vellíðan barnanna, því húsnæðið sé af góðum gæðum og fullbúið til starfseminnar. Útisvæði deildanna er sérlega hugsað fyrir yngsta aldurshópinn og vel úr garði gert. Deildirnar starfa samkvæmt námskrá Leikskóla Seltjarnarness þar sem meðal annars er lögð áhersla á tónlist, sköpun og útiveru.

 Fjölgunina má rekja til búsetubreytinga

Gert er ráð fyrir um 230 börnum í Leikskóla Seltjarnarness á skólaárinu, en börnum á leikskólaaldri á Seltjarnarnesi hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu eftir að hafa staðið í stað og jafnvel farið fækkandi um tíma. Baldur segir að fjölgunina megi einkum rekja til búsetubreytinga. Yngra fólk með börn á þessu aldursbili hafi verið að flytja á Nesið. Bæði hafi eldra fólk verið að flytja úr stórum húsum yfir í minni íbúðir og yngra fólk með stærri fjölskyldur flutt í húsin. Þá hafi nokkuð verið byggt á Seltjarnarnesi að undanförnu. Talið berst aðeins að Bygggörðum, þar sem fyrirhugað er að byggja íbúðarhúsnæði á næstunni – húsnæði af þeim stærðargráðum sem höfðað geta til yngra fólks ekki síður en þess sem eldra er. Baldur segir sú fjölgun sem orðið hefur auk fyrirliggjandi áforma um nýbyggingar  hafa ýtt á bæjaryfirvöld að taka ákvörðun um að byggja nýjan leikskóla, flestir viðurkenni að núverandi lausn sé aðeins til bráðabirgða. Aðspurður um hvort ekki hafi komið til greina að byggja annan leikskóla fyrir vestursvæðið í ljósi þess að börnum muni fjölga með byggingu Bygggarðasvæðisins segir Baldur svo ekki hafa verið. “Í fyrsta lagi er sú lóð sem leikskólarnir standa á í dag eini reiturinn sem ætlaður er fyrir slíka starfsemi í skipulagi bæjarins. Það er auk þess óhagkvæmara að reka tvær eða fleiri starfsstöðvar en að vera með allt undir sama þaki í ekki stærra bæjarfélagi.” Í öðru lagi er “Ráðhúslóðin” eða núverandi skólastæði miðsvæðis í bæjarfélaginu með tilliti til búsetu notenda og í næsta nágrenni við nána samstarfsaðila leikskólans, eins og bókasafnið, íþróttamiðstöðina og grunnskólann. Flest grunnskólabörn ganga í skólann og margir foreldrar og forráðamenn fara fótgangandi eða hjólandi með börn sín í leikskólann. Núverandi staðsetning og að öll starfsemi sé á einum stað miðsvæðis ætti því að draga nokkuð úr bílaumferð miðað við þann kost ef starfsemin væri á fleiri stöðum í bæjarfélaginu.”

Af um 80 starfsmönnum eru 13 karlmenn

Baldur segir ánægjulegt að starfsmannamálin hafi leyst farsællega auk þess sem kynjahlutfafall kennara og starfsfólks í leikskólanum hafi verið að jafnast. Fleiri karlmenn hafi verið að koma til starfa en löngum störfuðu nær eingöngu konur við leikskólann. “Þetta er þróun sem við sáum ekki fyrir en hún er í góðum takti við nýja tíma. Af um það bil 80 starfsmönnum leikskólans um þessar mundir eru 13 karlmenn. Við vonum svo sannarlega að hún haldi áfram og við getum horft til jafnari kynjahlutfalla í leikskólanum í framtíðinni.”

Fjölgun í takt við byggðaþróun

Leikskóli Seltjarnarness er rekinn í fjórum starfsstöðvum. Nýja starfsstöðin Fagrabrekka, leikskóladeildin Holt sem starfar í kjallara Seltjarnarneskirkju auk Sólbrekku og Mánabrekku. Með þessari viðbót hefur tekist að sögn Baldurs að koma börnum á leikskólaaldri í pláss, en framundan sé fyrirsjáanleg fjölgun og bygging nýs leikskóla. Sömu sögu megi segja um grunnskólann. Þar megi einnig gera ráð fyrir meiri fjölgun í takt við byggðaþróunina. “Þótt lítið sé um að barnafólk hafi flutt í stóru blokkirnar á Hrólfsskálamelnum, þá hefur fólk flutt þangað úr einbýlishúsum sem þá hafa losnað og yngra fólk með börn komið í staðinn. Við það muni síðan bætast fyrirhuguð byggð í Bygggörðum þar sem gera má ráð fyrir yngra fólki með börn. Þangað gæti leitað fólk um og yfir þrítugt sem er með börn bæði á leik- og grunnskóla aldri. Niðurstaðan er sú að stefnt er að því að koma öllum leikskólabörnum undir eitt þak innan nokkurra ára.”

You may also like...