Karlar í skúrum

Hörður Sturluson forsvarsmaður “karla í skúrum”.

– Áhugavert verkefni fyrir karla að hefjast í Breiðholti –

Karlar í skúrum er nýtt verkefni sem Rauði krossinn er að hleypa af stokkunum í Breiðholti. Ætlunin er að hefja starfsemina í Gerðubergi á fimmtudögum milli kl. 10 og 12 en verið er að leita eftir framtíðar húsnæði þar sem aðstaða verður fyrir fjölbreyttari starfsemi. Kynningarfundur verður haldinn í Gerðubergi næst komandi fimmtudag 22. nóvember kl. 10 fyrir hádegi og eru karlar og þá einkum þeir sem komnir eru að eða á eftirlaunaaldur hvattir til þess að mæta.

En hvað eru karlar í skúrum. “Þetta er samfélagslegt verkefni sem er opið fyrir alla karla 18 ára og eldri en er einkum nýtt fyrir karla sem eru komnir á eftirlaunaaldur og karla sem hafa lausan tíma að deginum. Hugmyndin er að skapa notalegt umhverfi fyrir karla sem vilja koma saman og huga að einhverjum áhugamálum sínum,” segir Hörður Sturluson, forsvarsmaður verkefnisins. Hann segir að um sjálfsprottið verkefni sé að ræða þar sem karlarnir koma sjálfir með hugmyndir að verkefnum bæði sem unnt sá að vinna saman að og einnig þar sem hver og einn geti unnið sem einstaklingar. Engin skylda sé þó að koma með hugmyndir að verkefninu eða fást við sérstök viðfangsefni. Menn geti líka komið saman til að fá sér kaffisopa og ræða menn og málefni. Er þetta séríslenskt fyrirbæri. “Nei, alls ekki,” segir Hörður. “Þetta er nær tveggja áratuga gömul hugmynd sem byrjaði í Ástralíu undir heitinu Men in Sheds” sem við höfum yfirfært á íslensku sem “karlar í skúrum”. Þetta verkefni hefur notið mikilla vinsælda víða og sem dæmi má nefnda að um 420 verkefni eða skúrar eru starfræktir á Írlandi. “Þetta er annar skúrinn sem við erum að stofna hér á lendi en einn hefur starfað í Hafnarfirði um tíma og nú nýta sér um 35 karlar þennan félagsskap og aðstöðu sem um er að ræða,” segir Hörður. En hvað gera karlarnir einkum í skúrunum. Við hvað eru þeir að fast. Hörður segir að þar kenni margra grasa. “Sumir eru að vinna með timbur. Smíða og skera út. Þeir hafa rennibekk til afnota sem er nauðsynlegur fyrir smíðavinuna. Aðrir eru að tálga til dæmis fugla og að smíða púsluspil fyrir leikskólana í nágrenninu sem þeir gefa. Sumir koma einkum til þess að finna sér félagsskap í notalegu umhverfi.” Hörður segir karlana stjórna skúrunum sjálfir og þurfi að leysa ágreiningsmál komi þau upp. Aðeins séu tvær reglur í skúrastarfinu. Önnur að félagsskapurinn sé opinn fyrir alla karlmenn sem orðnir eru 18 ára og hin að ekkert áfengi sé haft um hönd í skúrunum. “Menn eru ekki að koma þangað til þess að þjóra eða yfir höfuð að hafa áfenga drykki um hönd.” Ekki er búið að ákveða opnunardag í Breiðholtinu og segir Hörður það fara nokkuð eftir því hvernig gangi að fá hentugt húsnæði þar sem hægt sé að vinna með verkfærum jafnframt því að spjalla saman en vonandi dragist það ekki lengi.

You may also like...