Tillaga að deiliskipulagi fyrir borgargarð í Elliðaárdal

Úr Elliðaárdal.

Náttúra og lífríki, útivist og upplifun og menning og arfleið eru leiðarljós í tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal sem nú hefur verið auglýst. Skipulagið byggir á grunni eldra deiliskipulags sem var samþykkt árið 1994 og verður fellt úr gildi þegar nýja skipulagið hefur öðlast staðfestingu. Í tillögunni eru afmörkuð og skilgreind hverfisverndarsvæði í dalnum, gerð grein fyrir helstu göngu- og hjólastígum ásamt nýjum þverunum yfir Elliðaárnar og skilgreind helstu útivistar- og áningarstaðir.  

Í frétt frá Reykjavíkurborg kemur fram að viðfangsefni og markmið deiliskipulagsvinnunnar sé að skilgreina aðalleiðir notendahópa um svæðið.

Bæta tengingar göngu- og hjólreiða; meta stígakerfi og mögulega þörf á nýjum stígum og brúm yfir árnar. Meta og endurskoða afmörkun hverfisverndarsvæðis og skilgreina í skipulagi. Vinna ítarlega náttúrufarsúttekt, þar með talið kortleggja jarðminjar, lykilvistgerðir, gróðurlendi og búsvæði dýra, einkum fugla. Meta verndargildi náttúruminja og leggja fram tillögur að verndarsvæðum.

Vinna heildstæða fornleifaskýrslu og húsakönnun fyrir dalinn samhliða skipulagsvinnunni. Skilgreina rjóður og áningarstaði. Vinna með Orkuveitunni að ákvörðun um hreinsun ofanvatns úr götum áður en því er hleypt í árnar.

Taka saman upplýsingar um veiðistaði og aðgengi að þeim.

Samfelldir hjólastígar

Varðandi hverfisvernd koma nokkrir kostir til greina, helst er stungið upp á að hverfisvernd taki til svæða með hærra verndargildi, í þeim valkosti eru svæðin ármegin við stígana mörkin á verndarsvæðinu og allt svæði á milli stíganna.

Gert er ráð fyrir samfelldum hjólastíg upp allan dalinn að sunnan- og vestanverðu og að gerðar verði nýjar göngu- og hjólabrýr á völdum stöðum til að greiða leiðir þvert yfir dalinn.

You may also like...