Beðið eftir áhugasömum rekstraraðila

–  Hjúkrunarheimilið tilbúið um áramótin  –

Framkvæmdir við hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi eru á lokastigi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um rekstarafyrirkomulag þess en óskað hefur verið eftir því að Sjúkratryggingar Íslands auglýsi eftir rekstraraðila og er niðurstöðu þess beðið. Nesfréttir höfðu samband við Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra um hvaða staða sé á málinu. 

Ásgerður segir að hjúkrunarheimilið verði tilbúið um áramótin eins og ráðgert hafi verið. “Verkefnið hefur gengið mjög vel og nú er verið að klára síðustu verkin innandyra og frágangur á lóð er í fullum gangi. Byggingin fellur mjög vel að umhverfinu. Þessi möguleiki að geta gengið upp á þakið til að njóta útsýnisins er einstakur og verður án efa mikið notaður. Þegar heimilið er tilbúið verður boðið upp á að skoða heimilið en það verður auglýst alveg sérstaklega.” Ásgerður segir að nokkrir aðilar hafi lýst yfir áhuga að reka hjúkrunarheimilið þar á meðal Sóltún, Grund og Hrafnista. Það verði síðan rekstraraðilanna að skipuleggja starfsmannamálin en heimilið gerir ráð fyrir fjörutíu íbúum.”

Færni- og heilsufarsnefndir ákveða

Hvenær gæti komið að því að fyrstu vistmennirnir muni flytja á hjúkrunarheimilið. Ásgerður bendir á að eins og oft hafi komið fram í allri umræðu um hjúkrunarheimili á landinu þá er biðlistinn því miður langur. “Varðandi varanlega búsetu einstaklinga á hjúkrunar- og dvalarheimilum þá þarf ávallt að fara fram einstaklingsbundið færni og heilsumat á þörfum viðkomandi. Umsóknir um búsetu á hjúkrunarheimili þurfa að berast færni- og heilsumatsnefndum en á vef Landlæknis er hægt að fá allar nánari upplýsingar. Seltirningar geta að sjálfsögðu óskað eftir því að fara á nýja hjúkrunarheimilið sem hér er að opna en nefndin sér alfarið um að úthlutun miðað við færni og heilsumat hvers og eins, eins og fyrr segir.”

Beðið eftir áhugasömum rekstraraðila

Ásgerður segir að Seltjarnarnesbær hafi óskað eftir því við Heilbrigðisráðuneytið að Sjúkratryggingar Íslands auglýsi eftir rekstraraðila og beðið sé eftir þeirri niðurstöðu. “Sem dæmi þá auglýstu Sjúkratryggingar Íslands nýverið eftir rekstraraðila fyrir nýja heimilið við Sólvang í Hafnarfirði og sýndu nokkrir aðilar því verkefni mikinn áhuga. Sóltún hefur nú tekið við rekstrinum á því hjúkrunarheimili.”

You may also like...