Heklu hf. hefur ekki enn verið úthlutað lóð í Suður Mjódd
– málið í skipulagsferli en gert ráð fyrir að nýtt skipulag taki gildi fyrir áramót –
Lóð við Álfabakka 4 í Suður Mjódd sem Reykjavíkurborg hefur gefið viljayfirlýsingu um að úthluta til Heklu hf. hefur ekki verið úthlutað til fyrirtækisins. Málið er enn í skipulagsferli en breytt skipulag við nýja lóð var samþykkt í skipulags- og samgönguráði þann 10. október sl. og hefur borgarráð staðfest það. Skipulagið er nú til lokaafgreiðslu hjá skipulagsstofnun og gert ráð fyrir að nýtt skipulag taki gildi fyrir áramót.
Fyrir liggur viljayfirlýsing um samstarf við Heklu hf. frá 3. maí 2017. Viljayfirlýsingin tiltekur að lóð í Suður-Mjódd og lóð Heklu við Laugaveg eru tengd saman sem ein heild. Skipulag á lóð Heklu við Laugaveg er hins vegar enn í vinnslu og eru samningar við Heklu um þann reit ekki í sjónmáli á þessu stigi. Í viljayfirlýsingunni segir að Reykjavíkurborg lýsi vilja sínum til að úthluta Heklu hf. lóð undir starfsemi fyrirtækisins við Álfabakka að stærð um 24 þúsund fermetrar og gert ráð fyrir að byggt verði á lóðinni í áföngum. Reykjavíkurborg áformar samhliða að vinna tillögu að breytingum á deiliskipulagi lóðar Reykjavíkurborgar norðan við lóðina og skipta henni upp í þrjár lóðir.