Við erum í félagsstörfum af fullum krafti

Ingibjörg Jónasdóttir og Guðmundur Gíslason. Myndin var tekin á Norrænum vinadögum Soroptimista á Akureyri í júní í sumar.

Hjónin Ingibjörg Jónasdóttir og Guðmundur Gíslason búa efst í Breiðholtinu. Eftir að hefðbundnum starfstíma þeirra lauk hafa þau verið mjög virk í félagsstarfi. Ingibjörg er meðal annars Landssambandsforseti Soroptimistasambands Íslands og hefur starfað með Soroptimistaklúbbi Bakka og Selja í nær 10 ár. Guðmundur er formaður sóknarnefndar Seljakirkju auk annarra félagsstarfa. Þau náðu saman á góðum aldri. Guðmundur var ekkjumaður og Ingibjörg búið ein um árabil og sinnt uppeldi barna sinna. Kunningsskapur frá sameiginlegum vinnustað sem var gamli Búnaðarbankinn leiddi þau saman þar sem Ingibjörg starfaði sem fræðslustjóri bankans en Guðmundur sem framkvæmdastjóri erlendra viðskipta og fyrirtækjasviðs. Breiðholtsblaðið hitti þau í Seljakirkju á dögunum þar sem séra Ólafur Jóhann Borgþórsson sóknarprestur eftirlét þeim skrifstofu sína til skrafs. Guðmundur er greinilega heimavanur í kirkjunni og von bráðar kom Steinunn Baldvinsdóttir kirkjuvörður færandi hendi með kaffi fyrir mannskapinn.

Guðmundur segir að sér hafi verið tjáð þegar hann var að byggja í Seljahverfinu að hann gæti aldrei orðið frumbýlingur þar sem hann hafi ekki sótt um lóð og byrjað að grafa. “Það er nokkuð til í þessu vegna þess að ég keypti tæplega fokhelt hús þegar bygging hverfisins var komin nokkuð vel á veg. Að því leyti er ég ekki frumbýlingur en hélt áfram með bygginguna. Ég kom hingað 1980  og bjó hér með konu minni Erlu Sigurjónsdóttur og tveimur dætrum, en missti hana snemma á árinu 2001. Þegar við Ingibjörg ákváðum að rugla saman reitum flutti hún hingað upp eftir og höfum nú búið hér saman í um 15 ár.” Ingibjörg segir að þau hafi þekkst úr bankanum. “Guðmundur var giftur maður og ég var að ala upp börnin mín þrjú. En auðvitað þekktumst við eftir að hafa unnið saman í rúmlega tíu ár. Börnin mín voru að hleypa heimdraganum og Guðmundur orðinn einn, þá gerðist þetta bara. ”

Næsti afleggjari við Kerlingarfjöll

Guðmundur er ættaður úr Landeyjum og Vogum á Vatnsleysuströnd, en er alinn upp að mestu í Reykjavík. Hann ólst upp á Hverfisgötunni, síðar í Vogahverfinu en hóf sinn búskap í Hvassaleitinu þar sem tengdaforeldrar hans byggðu. Hann keypti íbúð á Reynimel í Vesturbænum og bjó þar með fjölskyldu sinni í nokkur ár áður en hann flutti í Seljahverfið. Ingibjörg er aftur á móti gróinn Vesturbæingur af Grímstaðaholtinu dóttir Jónasar B. Jónssonar sem lengi var fræðslustjóri í Reykjavík og skátahöfðingi og Guðrúnar Ö. Stephensen. Ingibjörg er þriðja í röð fjögurra systkina; Jóns Torfa prófessors, Ögmundar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og Björns bókaútgefanda sem er yngstur. “Við fegnum afskaplega gott uppeldi. Móðir okkar var heimavinnandi eftir að við fæddumst og sinnti okkur afar vel. Heimilislífið var mjög opið og gestkvæmt og allar skoðanir virtar. Eftir að Guðmundur fékk mig til að flytja hingað upp eftir var ég spurð einhverju sinni að því hvort þetta væri ekki næsti afleggjari áður en komið væri að Kerlingarfjöllum. Breiðholtið var og er í augum Vesturbæinga upp til fjalla og heiða og ekki svo langt á milli. En Guðmund-ur hafði lagt sál sína í húsið á þessum tíma og hugðumst við því breyta húsinu og byggja við það. Húsið er á einni hæð og þarna byggðum við nokkurs konar sólhýsi sem er framlenging á sjálfu íbúðarhúsinu. Fyrir Guðmund var hugsunin um að fara úr Seljahverfinu, eins og fyrir roskinn bónda að yfirgefa jörðina sína. Þótt fólkið mitt kæmi í heimsókn, entist móðursystur minni ekki aldur til þess, þótt hún yrði 100 ára gömul, því hún átti ekki heimangengt síðustu árin, og þótti mér það miður. Þetta var Sigríður Ö. Stephensen móðursystir mín, systir Þorsteins Ö. Stephensen leikara, en hún var mikil garðyrkjukona og langaði alltaf að sjá garðinn okkar.”

Margmethafi og ólympíufari

Guðmundur var ekki aðeins félagsmála- og bankamaður því hann var þekktur sundmaður fyrr á árum og er í hópi íslenskra ólympíufara. Þann 12. apríl 1962 mátti lesa í fréttum að sundkappinn Guðmundur Gíslason hafi bæði sett Íslands- og Norðurlandamet í 400 metra fjórsundi karla á afmælissundmóti Sundhallar-innar í Reykjavík. Hann setti fjölmörg Íslandsmet á ferlinum (alls 152) og einnig mörg Norðurlandamet. Hann var tvívegis valinn íþróttamaður ársins, fyrst fyrir Norðurlandamet og síðan fyrir að vera besti maður lands-liðsins sem vann Dani í landskeppni. Hann tók einnig þátt í fernum Ólympíuleikum. Í fyrsta sinn í Róm 1960 en þá hafði hann sett 33 Íslandsmet í skriðsundi og baksundi. Í Róm keppti hann í 100 metra skriðsundi en komst ekki í úrslit. Ári síðar 1961 kom hann sér í metabækurnar með því að eiga þátt í þremur Íslandsmetum sama kvöldið. Hann setti sjálfur tvö og það þriðja var boðsundsmet. Hann var inntur eftir þessum kafla lífsins. “Ég byrjaði að æfa sund af fullum krafti um fermingaraldurinn og náði að setja fyrsta Íslandsmetið 1957 þegar ég var 16 ára. Æfingaaðstaðan var allt önnur þá en í dag. Sundhöll Reykjavíkur var stórfín til almennra æfinga en fyrir stórmót erlendis þurftum við að fara til Hveragerðis, eins og allt sundfólk fyrir mína tíð, vegna þess að þar var eina laugin sem var 50 metrar að lengd sem var lágmarksstærð fyrir keppni. Oft gerðist það að þegar við komum austur var laugin of heit, oft 33 til 35 gráður, og gátum við því ekki æft. Á þessum árum var erfitt að hafa stjórn á hitanum, lítið var um kalt vatn í Hveragerði og nýttist okkur, sem vorum að æfa, því laugin misjafnlega. En þetta var engu að síður skemmtilegur tími í lífinu. Nú einum 40 árum síðar, þegar komnar eru þrjár stórkostlegar 50 metra laugar á Reykjavíkursvæðinu, eru haldin ótal stórmót erlendis, svo sem Heimsmeistaramót og allskyns bikarmeist-aramót, þar sem keppt er í 25 metra laugum! Sundið gaf mér og flestum mínum bestu vinum margt. Tækifæri, til að kynnast íþróttafólki alls staðar að, tækifæri á ferðalögum á ýmis mót erlendis, þar á meðal á Ólympíuleika, Evrópumeistaramót ofl. Ég var síðar, í apríl 2005, fengin til að vera með í stofnun “Samtaka íslenskara Ólympíufara”. Kristján Arason handboltamaður var fyrsti formaður þeirra samtaka en ég tók síðan við af honum og var formaður í sjö ár.” 

Guðmundur hefur alltaf stundað hlaup. Myndir er af hlaupahópnum og var tekin neðst í kirkjutröppunum á Akureyri.

Gjaldkeri en sá aldrei peninga í bankanum

Guðmundur segir að félagsleg afskipti sín hafi byrjað í sundinu. “Ég hef verið í félagsmálum síðan; ef enginn var til að sinna þeim, varð maður að gera það sjálfur. Ég hafði þó aldrei áhuga á formennsku í félögum þótt ég hafi aðeins lent í því. Ég er nú ritari Rangæingafélagsins í Reykjavík, en oftast var ég gjaldkeri, líklega mest vegna þess að ég var bankamaður. En sannleikurinn er sá að ég sá aldrei peninga í bankanum. Ég starfaði alltaf við erlend viðskipti og stjórnun og því fóru aðrir pappírar en peningaseðlar um mínar hendur. Ég starfaði  í bönkum í 45 ár, en sá aldrei peningaseðla í vinnunni og sama má segja um Ingibjörgu, hún var í fræðslustörfunum og kom aldrei nálægt peningum.”

Soroptimistaklúbbur Bakka og Selja 

Þó Ingibjörg stýri nú Landssambandi Soroptimista er hún afar stolt af systrum sínum í Bakka og Selja klúbbnum. En hvað eru Soroptimistar. Orðið er okkur aðeins framandi. “Já það er rétt enda komið úr grísku. Soroptimisti er samsett úr orðunum sorores ad optumum sem þýðir eftir orðanna hljóðan systur sem vinna að því besta og því köllum við okkur oft bestu systur.”Soroptimistar eru alþjóðasamtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd þar sem samtakamáttur kvenna er nýttur til að bæta stöðu þeirra. Samtökin vinna að mannréttindamálum og jafnrétti en einnig að framförum og friði. Dæmi um það má nefna áherslu á að vinna gegn öllu sem ógnar konum og stúlkum. Þetta eru stóru málin sem unnið er að á heimsvísu. Eru þetta ekki stór samtök. “Þetta eru mjög fjölmenn samtök sem telja yfir 80 þúsund félagskonur í 127 löndum. Í sambandi við þetta starf má nefna að stúlkur eru um 70% þeirra sem lenda í mannsali og um tveir þriðju hlutar allra sem hafna í þrælkun eru konur. Svo má einnig nefna kynbundið ofbeldi og aðgang að réttarkerfi. 

Soroptimistasamtök Íslands eru hluti af Evrópusambandi Soroptimista og starfa í 19 klúbbum víðsvegar um landið. Við leitumst við að fá konur úr sem flestum starfsstéttum og hafa góða breidd í félagsskapnum. Í dag eru félagar um 600 en fyrsti klúbburinn var stofnaður árið 1959. Hér heima eru verkefnin smærri í sniðum enda eru við fámennar þegar maður ber sig saman við umheiminn. En við tökum einnig þátt í erlendum verkefnum, svo sem vatnsverk-efni sem alþjóðaforsetinn hefur beitt sér fyrir, en að beita sér fyrir að vatn sé aðgengilegt í ýmsum Afríkuríkjum gjörbreytir lífi fólks. Sem Landssambandsforseti kynnist ég vel öllu því góða starfi sem klúbbarnir eru að vinna að um allt land, bæði við að efla konur og styrkja samfélagið í heimabyggð. Hér í Breiðholtinu í Soroptimistaklúbbi  Bakka og Selja höfum við tekið þátt í margvíslegum verkefnum í gegnum tíðina. Eitt stærsta verkefni okkar hér í byggðinni hefur verið að styðja við fatlaða unga konu til þess að auðvelda henni að ferðast og afla sér menntunar. Við höfum einnig verið að styðja við einstaklinga og fjölskyldur í nærumhverfi okkar. Af öðru sem við höfum komið að má nefna að við höfum annast, ásamt kvenfélaginu, kaffiveitingar fyrir aldraða í Seljakirkju á uppstigningardag sem einnig er dagur aldraðra. Félagssystur eru mjög öflugar og eru til dæmis með kökubasar í Mjóddinni í lok nóvembermánaðar nú að öðru sinni. Nú erum við að safna til styrktar íbúðarbyggingar Kvennaathvarfsins, með styrkri stjórn Kristínar Norðfjörð verkefnastjóra klúbbsins okkar.” 

Hópmynd sem Guðmundur tók fyrir vorferð Soroptimista fyrir nokkrum árum. 
Myndin er tekin við Seljakirkju.

Lundur í Heiðmörk

“En við höfum líka verið að hugsa svolítið um okkur sjálfar,” heldur Ingibjörg áfram. “Við hreyfum okkur saman í gönguhóp á mánudögum, en það stendur öllum systrum til boða að vera með og hugsa þannig um heilsuna. Vigdís Pálsdóttir, formaður sóknarnefndar Breiðholtskirkju, heldur utan um gönguklúbbinn og sendir út dagskrá fram í tímann. Síðan höfum við samband og breytum staðsetningu eftir göngufæri og veðri, en það hefur varla skeð að tími hafi fallið niður. Þá má geta þess að Vigdís Einarsdóttir sem var ein af stofnendum klúbbsins og síðar heiðursfélagi gerðist verkefnisstjóri umhverfismála árið eftir að Soroptimistasystur fengu úthlutað lundi í Heiðmörk og hefur því klúbburinn tengst lundinum vel og oft tekið hann í fóstur, en klúbbarnir skiptast á umsjón hans.  Okkur þykir afskaplega vænt um þennan litla gróðurlund og höfum farið margar ferðir þangað til þess að klippa, hreinsa og eiga notalega stund. Sérstaklega er gaman að fylgjast með ilmreynitrjánum sem voru gróðursett í samvinnu við Litháen á 90 ára afmæli alþjóðasambands soroptimista 2011. “

13 deildir í Delta Kappa Gamma

Ingibjörg hefur einnig tekið þátt í störfum Delta Kappa Gamma. Það eru alþjóðasamtök kvenna í fræðslustörfum og voru stofnuð af 12 konum í borginni Austin í Texas árið 1929. Á Íslandi hófst starfsemi samtakanna með stofnun deildar í Reykjavík 1975. Í dag eru starfandi 13 deildir hér á landi.  Hún hefur tekið þátt í stjórnunarstörfum fyrir þessi samtök líka og síðustu ár verið í nokkrum alþjóðanefndum. Nú er hún Evrópuforseti og situr því í alþjóðastjórn samtakanna. Hún undirbýr nú ráðstefnu í júlí í sumar með góðum hópi kvenna.  “Þegar ég hætti störfum í bankanum fór ég meira að sinna félagsstörfum. Ég hef haft mikla ánægju af starfi Soroptimista þar sem maður getur látið gott af sér leiða og einnig í DKG, þar sem stuðlað er að fræðilegum og persónulegum þroska kvenna í fræðslustörfum og gæðum í menntun og uppeldisstörfum. En ef vel á að vera þá er þetta mikil vinna og stundum getur verið erfitt að fá konur til þess að taka þessi störf að sér. Það þarf tíma og áhuga.  Við hjónin eru sama markinu brennd. Við erum bæði á kafi í félagsmálum og styðjum hvort annað í því sem við erum að gera. Þetta þarf engan veginn að rekast á daglegt líferni eða lífsstíl ef fólk er samstíga.”

Ætlaði ekki að standa með prik út í á

En aftur að Breiðholtinu. Ingibjörg segir þau hafa íhugað að flytjast annað en ekki orðið úr því. “Guðmundur átti sterkar rætur hér og langaði að framkvæma ýtarlegt viðhald í húsinu þegar hann færi á eftirlaun. Þótt ég sé Vesturbæingur númer eitt lét ég mig hafa að flytja upp eftir. Ég sé ekki eftir því. Ég tala stundum um Miðjarðarhafsloftslagið hér miðað við Vesturbæinn. Guðmundur á tvær dætur og önnur þeirra hefur alltaf búið hér efra. Það fer vel um fólk hér.” Þau Ingibjörg og Guðmundur stunda útiveru og sport. “Guðmundur hreyfir sig mikið með gömlum sundfélögum, við förum í gönguferðir og eitthvað í veiði á sumrin, eitthvað sem ég ætlaði mér alls ekki; var oft búin að lýsa því yfir að ég ætlaði ekki að standa með prik út í á. En svo fór ég með og fann að þetta var ekki eins vitlaust og ég hafði haldið. Ég hefði ekki haft hugarflug til að ímynda mér þetta á árum áður.”

Fólk lítur á Breiðholtið og Austur – Kópavog sem tengdar byggðir

“Við höfum stundum minnst á það, nokkrar bekkjarsystur mínar úr Melaskóla sem ég hitti reglulega og búa í Breiðholti, hve vel við kunnum við okkur hér. Þetta fer eftir því hvað fólk ákveður og hvernig það býr um sig. Breiðholtið er aðeins afmarkað og tengist Kópavogi ef til vill ekkert síður en öðrum byggðum Reykjavíkur. Dótturdóttir mín kemur t.d. við hjá okkur eftir æfingar í Gerplu. Við höfum veitt því athygli að þegar fólk vill fara að minnka við sig húsnæði, hjón eru orðin ein og finnst óþarft að búa í stórum húsum með stóra garða sem þarf að hirða, þá leitar það gjarnan yfir í Kópavoginn, í fjölbýlin þar. Þetta er bara handan við hornið þótt það sé annað bæjarfélag. Það segir manni að fólki hefur líkað vel að búa hér og lítur á þetta sem sama svæðið.”


You may also like...