Malasískt stórfyrirtæki vill byggja hótel á Miðbakka
Dótturfélag fyrirtækjasamsteypu að nafni Berjaya Corporation vill festa kaup á húseigninni við Geirsgötu 11 á Miðbakka gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Söluverð er samkvæmt heimildum allt að 14 milljónir dala eða 1.670 milljónir íslenskra króna. Um er að ræða gamla vöruskemmu er lengi hýsti vöruafgreiðslu Skipaútgerðar ríkisins meðan hún var og hét. Frá því að starfsemi hennar var lögð niður var Fiskverkun Jóns Ásbjörnssonar þar til húsa um tíma en á síðari árum hefur húsnæðið lítið verið notað og þá einkum fyrir geymslustarfsemi. Húsið er í dag í eigu Útgerðarfélag Reykjavíkur, áður Brim og félagsins Fiskitanga sem eru að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar útgerðarmanns og forstjóra HB Granda.
Á undanförnum árum hafa forsvarsmenn Brim nú Útgerðarfélags Reykjavíkur og norrænu arkitektastofunnar PkdM arkitekta lagt fram og kynnt hugmyndir um niðurrif hússins og uppbyggingu á lóðinni en þær hugmyndir hafa ekki náð fram að ganga. Stjórn Faxaflóahafna ákvað á liðnu hausti að bíða með framkvæmdir og uppbyggingu á Miðbakka þar til framkvæmdum við Austurhöfin ljúki og ljóst með hvaða hætti skipulag umferðar um Austurbakka verður. Bent var á að nú þegar sé mikið álag á þessu svæði vegna byggingarframkvæmda og því rétt að bíða og sjá hvaða áhrif sú uppbygging hefur áður en ráðist er í frekari uppbyggingu á Miðbakka. Fyrr á árinu hafði umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar tekið neikvætt í tillögu lóðarhafa um uppbyggingu á Miðbakka en samkvæmt þeirri tillögu átti bygginga-magn að vera 27.760 fermetrar sem ráðið taldi of mikið.
Hugmyndir forráðamanna Berjaya Land Berhad sem er dótturfélags Berjaya Corporation eru að með kaupum á Geirsgötu 11 gefist félaginu tækifæri til þess að hefja fjárfestingar á sviði fasteignaþróunar þar sem augum er sérstaklega beint að hótelstarfsemi en félagið rekur hótel víða í suðausturhluta Asíu og einnig í Lundúnum. Aðaleigandi Berjaya Corporation er malasíski milljarðamæringuninn Vincent Tan og gegnir hann stjórnarformennsku í samsteypunni í dag. Vincent Tan er samkvæmt viðskiptatímaritinu Forbes 15. auðugasti Malasíubúinn.