Fjölsóttur kynningarfundur um skipulag Elliðaárdals

Um 200 manns sóttu kynningarfund um skipulag í Elliðaárdal.

Um 200 manns mættu á kynningarfund skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur um nýtt skipulag fyrir hluta Elliðaárdals sem haldin var í Gerðubergi á dögunum. Á fundinum kynnti Þráinn Hauksson hjá Landslagi ehf deiliskipulag fyrir þróunarreit 73 í dalnum. Hjördís Sigurðardóttir frá Spor í sandinn kynnti ALDIN BioDome gróðurhvelfingu og Kristinn H. Þorsteinsson kynnti fyrirhugaða starfsemi Garðyrkjufélags Íslands á svæðinu. 

Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti stjórnaði fundinum en eftir kynningar voru fyrirspurnir og svör. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs bauð gesti velkomna og sagði að þetta væri hefðbundinn fundur vegna deiliskipulags og markmiðið væri að miðla upplýsingum á skilvirkan hátt. Hún sagði að í gangi væri vinna við heildarskipulag Elliðaárdalsins þar sem allt svæðið yrði skoðað og þar kæmi í ljós hvort tilefni væri til frekari verndunar. Skiptar skoðanir komu fram á fundinum bæði efasemdarraddir og ánægjuraddir um skipulagið.  

Í þeirri skipulagstillögu sem auglýst hefur verið er gert ráð fyrir að fyrirhuguð uppbygging falli vel að landslagi og umhverfi og tryggð verði góð tengsl við nærliggjandi umhverfi með fyrirkomulagi nýrra stíga, gatna og opinna grænna svæða. Þróunarreiturinn sem um ræðir er á þegar röskuðu svæði og voru flestir sammála um að kjörið væri að fá einhverja starfsemi þangað.

You may also like...