Ákveðið að bíða með framkvæmdir á Miðbakka

– Guðmundur vill byggja allt að 20 þúsund fermetra –

Séð úr Hafnarhúsinu út á Miðbakkanna.

Stjórn Faxaflóahafna hefur ákveðið að bíða með framkvæmdir og uppbyggingu á Miðbakka þar til framkvæmdum við Austurhöfin lýkur en þar er nú mikið álag vegna byggingarframkvæmda. Borgaryfirvöld hafa ekki veitt neinar heimildir til framkvæmda á þessum stað þótt lóðarhafar hafi leitað eftir því.

Við Geirsgötu 11 á Miðbakka er gömul vöruskemma sem byggð var á sínum tíma fyrir starfsemi Ríkisskipa. Skemman hefur verið að mestu ónotuð um tíma og hafa lóðarhafar kynnt á undanförnum árum hugmyndir um að rífa húsið og nýjar byggingar á lóðinni. Skemman er í dag í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra HB Granda sem löngum hefur verið kenndur við útgerðarfélaðið Brim sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur. Guðmundur hefur kynnt hugmyndir PKdM arkitekta um uppbyggingu á lóðinni. Í þeim er gert ráð fyrir allt að 20 þúsund fermetra byggingum upp á eina til sex hæðir en  lóðin Geirsgata 11 er alls 4.805 fermetrar og byggingarmagn í dag er 2.573 fermetrar. 

You may also like...