Gaman að alast upp í Fellunum

– segir Margrét Árdís Ósvaldsdóttir forstöðumaður Seljahlíða

Margrét Árdís Ósvaldsdóttir.

Margrét Árdís Ósvaldsdóttir forstöðumaður Seljahlíðar spjallar við Breiðholtsblaðið. Margrét er Vesturbæingur en fjölskyldan flutti í Efra Breiðholti þegar hún var 11 ára. Margrét lítur til baka en fjallar einnig um Seljahlíð og málefni eldri borgara sem henni eru hugleikin.

“Foreldrar mínir hófu búskap í Vesturbænum, þaðan lá leiðin í vesturbæ Kópavogs og svo byggðu þau raðhús við Vesturbergið. Þá fluttum við í Efra Breiðholt og þar hófust kynni mín af þessari byggð og fólki sem bjó þar og býr. Ég byrjaði í Fellaskóla þegar ég var 11 ára. Þá var Hólabrekkuskóli ekki kominn, en við fórum þangað í áttunda bekk sem er saman og níundi bekkur í dag. Öll mín mótunarár voru hér efra og fyrsti kennarinn minn í Fellaskóla var Jón Mar sem féll frá að ég held fyrr á þessu ári.” Margrét segir að þarna hafi strax myndast hópur með góð tengsl sem hafi haldist alla tíð. “Við höfum haldið miklið saman þessir krakkar sem vorum saman í Fellaskóla og síðan yfir í Hólabrekkuskóla. Við vorum nokkuð margar stelpur sem stofnuðum saumaklúbb í janúar 1978. Þessi klúbbur heldur enn. Margar af þessum stelpum hafa komi sér vel í lífinu. Til dæmis Hadda Gísla sem er öflug í ferðaþjónustunni Það voru líka strákar í árganginum okkar. Athafnamenn og skáld. Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri og Sjón skáld og rithöfundur voru báðir þarna og fleiri mætti telja. Þetta voru fjölmennir árgangar. Margt fólk var að flytja í Efra Breiðholt á þessum árum. Nemendafjöldinn var meira en tvöfaldur á við það sem er í dag. Það voru yfir eitt þúsund nemendur í Fellaskóla þegar flest var. Einnig var mikið fjör þegar við fórum yfir í Hólabrekkuskóla. Hann var miklu minni og fámennari skóli. Í Hólabrekkuskóla störfuðu líka skemmtilegir kennarar með fullri virðingu fyrir kennurum í Fellaskóla. Í upphafi Fellaskóla störfuðu tveir Finnborgar þar. Finnbogi Jóhannsson var skólastjóri og hinn var yfirkennari. Sigurjón Fjeldsted var síðan skólastjóri í Hólabrekkuskóla. Þar voru Sverrir Gauti Diegó og Rafn Jónsson sem síðar varð flugstjóri. Ég get ekki annað sagt en að gaman hafi verið að alast upp í Fellunum.”

Skemmtilegur saumaklúbbur

Talið berst að saumaklúbbnum. Var eitthvað saumað þar. “Já, það eru oftast einhverjar með eitthvað í höndunum þegar við hittumst. Aðallega prjóna en eitthvað er minna um saumnálar þótt þær sjáist stöku sinnum. Það koma alltaf nokkrar peysur en við prjónuðum líka mikið á börnin á meðan þau voru að vaxa úr grasi. Ég hald að alltaf sé einhver með prjóna.” Svo hélduð þið upp á stórafmæli. “Já við ákváðum þegar við urðum 60 ára að bjóða vinum og vandamönnum, hver og ein okkar bauð sínu nánasta fólki og vinum og svo öllum sem eitthvert samband var enn við úr skólunum tveimur. Við leigðum Gamla bíó og réðum okkur plötusnúð, hinn víðfræga Valla sport. Þetta varð heilmikil samkoma á síðasta vetrardag þar sem mikið var dansað og mikið fjör. Við vorum að bjóða gömlum skólafélögum um Fellaskóla og Hólabrekkuskóla og ýmsum vinum og vandamönnum að auki. Þetta er skemmtilegur saumaklúbbur.”

Saumaklúbbssystur á afmælishátíð í Gamlabíói þegar þær urðu 60 ára.

Fellhellir var nýmæli

Við æfðum diskódans og sýndum. Diskóið var allsráðandi á uppvaxtarárum okkar. Við vorum allar í þessu. Dönsuðum hjá Heiðari Ástvalds en hann var með dansskóla í Drafnarfellinu. Þaðan var svo farið beint í Fellahelli þar sem nýjasti dansinn var æfður.” Margrét segir Fellahelli hafa verið nýmæli. “Félagsmiðstöðvarnar voru að byrja að koma. Fram til þess að Fellahellir var settur á stofn var Tónabær til staðar. Fyrsta félagsmiðstöðin sem komið var á fót en síðan var farið að opna fleiri út í hverfunum. Fellahellir var mikið stundaður. Margir voru þar nær öll kvöld vikunnar. Oft var farið þangað beint eftir skóla og sumir áttu nánast heima þar. Krakkarnir voru þó ekki eingöngu að skemmta sér með dansi. Þarna var margskonar klúbbastarfsemi og margir fengu sína félagslegu skírn þar.”

Úr Krummahólum í Selin

Hefur Margrét verið í Breiðholti alla tíð síðan. Hún er fljót til svars. Já við Vésteinn Hilmar maðurinn minn byrjuðum búskap okkar í Krummahólunum. Hann er hálfur Króati. Pabbi hans hét Feruccio Marinó Buzeti og kom sem flóttamaður, eignaðist íslenska konu og settist hér að. Við keyptum þar litla íbúð en vorum þar bara í eitt og hálft ár. Þaðan fórum við svo í Jöklasel. Bjuggum þar um tíma en fórum síðan í Kaldasel þar sem við búum í dag. Börnin mín gengu öll í Seljaskóla og sluppu þannig við að erfa ánægjuna frá mömmu sinni úr Fellaskóla og Hólabrekkuskóla. Við vorum komin í Selin þegar næst elsta barnið fæddist. En Seljaskóli reyndist þeim afar vel. Ég á fimm barnabörn og eitt þeirra er komið í Seljaskóla.”

Gat ekki tekið vaktavinnu

Margrét stýrir Seljahlíð og því liggur beint við að inna hana eftir hvenær hún hafi farið að fást við heldri borgara. “Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 1983. Maðurinn minn er vélfræðingur og starfaði þá sem vélstjóri til sjós. Hann var á sjónum þegar þessi tímamót bar að í lífi mínu. Fjarverur hans gerðu það að verkum að ég gat illa unnið á vöktum. Þurfti að geta verið heima á kvöldin og á nóttunni og sinna börnunum með bóndann út á hafi. Ég fór því ekki að starfa á spítala heldur snéri mér að heilsugæslunni þar sem ég starfaði við heimahjúkrun. Þegar við komum í Seljahverfið var nýbúið að opna Seljahlíð. Ég byrjaði að starfa þar á fimm ára afmæli þess. Seljahlíðin opnaði í júní 1986 og varð því 35 ára í fyrra. Tíminn hefur verið fljótur að líða því á síðasta ári átti ég 30 ára starfsafmæli.”

Maðurinn minn hætti svo til sjós og hefur síðastliðin 25 ár rekið eigið fyrirtæki með félögum sínum, ég hélt samt áfram í Seljahlíð.

Einstaklingsíbúðir í Seljahlíð

Er Seljahlíð heimili með öðrum hætti en önnur heimili sem sinna sambærilegri þjónustu. “Allir búa við sama kost í litlum 28 fm íbúðum með sérbaði og eldhúskrók og svo alrými. Flestum finnst þetta ágætt, en öðrum finnst þetta lítið. Eldri heimilin hafa sum verið endurgerð að þessu leyti og ég nefnt gömlu Hrafnistuheimilin og alla vega einhverja hluta af Grund sem dæmi.”

Mikið félagslíf 

Hvað er fólk að gera í Seljahlíð. Ekki er það bara að bíða og láta dagana líða. “Ekki aldeilis”, segir Margrét. Mikið félagslíf sé á meðal íbúanna. “Við erum alla daga að reyna að styrkja kroppinn. Boðið er upp á leikfimi á hverjum degi. Við leggjum upp úr að fólk haldi líkamlegri getu sinni auk margs annars. Nú geta 72 búið í Seljahlíð. Þar eru sjö hjónaíbúðir og síðan einstaklingsíbúðir og 20 rúm fyrir fólk sem þarf sérstaka aðhlynningu og hjúkrun. Fyrir þann rekstur fáum við dagpeninga frá ríkinu sem duga þó alls ekki til að endar nái saman enda um of litla einingu að ræða til að hún geti talist rekstrarhæf. Þarna er þó ekki um fólk sem þjáist af mikilli heilabilun að ræða. Seljahlíð er þannig byggð að ekki sést fyrir endann á göngum og er því ekki heppileg fyrir fólk sem hefur glatað færni til þess að rata. Við erum ekki með neina lokaða deild.” Margrét segir að íbúðirnar í Seljahlíð séu svonefndar þjónustuíbúðir og reknar af Félagsbústöðum sem eignuðust húsin fyrir nokkrum árum.”

Er með margt af aðkomnu starfsfólki

Margrét segir að margt af starfsfólki í Seljahlíð sé aðflutt til landsins líkt og tengdafaðir sinn á sínum tíma. “Í flestum tilfellum höfum við góða reynslu af þessu fólki. Þótt við höfum heyrt raddir um annað þá hefur þetta gengið ljómandi vel. Starfsfólkið kemur bæði að koma frá Asíu, einkum frá Filippseyjum og síðan frá austur Evrópu. Ég verð ekki vör við annað en aðflutt fólk sé duglegt að koma sér inn íslenskuna. Við höfum frá því í fyrravetur verið með íslenskukennslu á vinnutíma sem hefur verið vel sótt og miklar framfarir hjá hópnum. Það er fátt betra í íslenskunámi en að hafa tækifæri til að æfa sig og það að vinna með eldra fólki sem talar oft litla ensku gerir allt auðveldara. Fólk er líka duglegt að sækja sér aðra menntun, eins og „brúarnám“ til bæði félagsliða og sjúkraliða. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta,” segir Margrét Árdís Ósvaldsdóttir forstöðumaður Seljahlíðar.

You may also like...