Nýtt íbúðahverfi rís á Seltjarnarnesi

— byggt á niðurstöðum lýðfræðilegrar greiningar–

 — áhersla lögð á íbúðir fyrir yngra fólk og fjölbreytt mannlíf–

Bygggarðahverfið á Seltjarnarnesi eins og það mun líta út fullbyggt. Ráðagerði er vestast á myndinni en einnig má sjá áhaldahús bæjarins. Lengra til austurs sést til hjúkrunarheimilisins.

Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar hefur samþykkt til auglýsingar nýtt deiliskipulag á Bygggarðareit á vestanverðu Seltjarnarnesi. Um nýtt íbúðahverfi er að ræða þar sem iðnaðarbyggð hefur staðið um lengri tíma. Svæðið sem byggja á er að mestu í eigu Landeyjar sem lét vinna nýtt deiliskipulag sem bæjarstjórn hefur nú samþykkt að auglýsa. Páll Gunnlaugsson og Þorsteinn Helgason arkitektar hjá ASK arkitektum hafa haft veg og vanda af skipulagi hins nýja Bygggarðahverfis. Nesfréttir settust niður með þeim félögum hjá ASK einn morgun á dögunum.

Forsvarsmenn Landeyar ákváðu að láta fara fram lýðfræðilega greiningu á stöðu Seltjarnarnesbæjar áður en ráðist var í gerð deiliskipulagsins. Í niðurstöðu greiningarinnar kemur m.a. fram að fjöldi eldri borgara er hlutfallslega meiri á Seltjarnarnesi en í nágrannasveitarfélögunum. Ástæðan er einkum sú að húsnæði vantar fyrir ákveðna aldurshópa – einum yngra fólk. Það vantar íbúðir undir 150 fermetrum en þegar komið er yfir þau mörg tekur Seltjarnarnes hins vegar forskot. Stórar eignir eru hlutfallslega flestar á Nesinu þegar litið er til höfuðborgarsvæðisins. Á þetta hafa forráðamenn Landeyjar viljað leggja áherslu. Bæjaryfirvöld hafa sambærilega sýn og því var farið í að endurskoða deiliskipulagið í stað þess að hefja framkvæmdir á grunni gildandi deiliskipulags sem gerði ráð fyrir stærri íbúðum og meira sérbýli. Markmiðið með breyttu deiliskipulagi eru meðal annars að leggja áherslu á blandaða byggð og byggja minni íbúðir fyrir ungt fólk. Einnig verður horft til þess að ný byggð bjóði upp á heilsusamlegan lífsmáta.

Séð yfir byggingasvæðið við Bygggarða og í átt að Gróttu. Á myndinni sjást þau iðnaðarhús sem þar enn standa.

Engir bílakjallarar eða lyftur spara byggingarkostnað 

Páll og Þorsteinn segja að þótt markmiðið sé að byggja minni og hagkvæmari íbúðir í Bygggörðum sé lóðin dýr. Hún hafi safnað á sig kostnaði í gegnum tíðina sem reikna verði inn í verð íbúðanna. En hvað má þá gera til þess að lækka byggingarkostnaðinn? „Við reynum að byggja minni íbúðir. Við reynum að vera innan þeirra marka að það þurfi lyftur í húsin vegna þess að þær hleypa byggingarkostnaðinum talsvert upp. Við erum  með færri bílakjallara og bílastæði eru að mestu á landi. Bílakjallari getur kostað allt að sjö til átta milljónir á hverja íbúð og við að sleppa þeim sparast umtalsverðar fjárhæðir. Þegar við kynntum skipulagið á íbúafundi var gert við ráð fyrir 1,4 stæði á íbúð. Þetta þótti heldur lítið og við fórum upp í 1,8 stæði á íbúð en í núgildandi deiliskipulagi er miðað við 1,9 stæði á íbúð. Flest stæðin verða ekki merkt íbúðum heldur verður um samnýtt almenningsstæði að ræða. Einu bílastæðin sem verða einkastæði eru stæði á lóðum við einbýlishús og í kjöllurum fjölbýlishúsa við Norðurströnd.“

Tölvugerð mynd af göngustíg í Bygggarðahverfinu eins og það mun koma til með að líta út.

Tenging við friðuðu svæðin og bæjarkjarnann

Samkvæmt nýja deiliskipulaginu er íbúðum skipt í nokkra flokka. Í fyrsta lagi er um hefðbundin fjölbýlishús að ræða sem rísa munu á jaðrinum við Norðurströnd. Þá verði byggð 10 til 11 einbýlishús með innbyggðri bílageymslu. Síðan verða byggð lítil raðhús á tveimur hæðum sem ekki verða með bílageymslu og að lokum smærra fjölbýli á tveimur til þremur hæðum. Hærra verður ekki farið meðal annars til þess að ekki þurfi að vera með lyftur í húsnæðinu. Þeir Páll og Þorsteinn segja mikla áherslu á að búa til umhverfi sem myndi ákveðna heild. Hafi eitthvað ákveðið að bjóða. Tengslin við náttúruna séu mikilvæg og nálægðin við friðuðu svæðin. Þá hafi líka verið lögð áhersla að búa til barnvænt umhverfi. Leiksvæði eru hönnuð þannig að þau sjáist úr eldhúsglugganum. Þannig sé brugðist við þörfum yngstu krakkanna og foreldra þeirra. Páll og Þorsteinn segja að þótt Bygggarðarnir séu umferðargata þá fari nær eingöngu um hana umferð sem tengist byggðinni sjálfir en ekki utanaðkomandi. Þá megi benda á góð tengsl við stígakerfi á Nesinu sem liggi út í náttúruna og einnig við meginstíg upp á Valhúsarhæð. Sá göngustígur tengir byggðina beint við skólana og sé auðveld leið fyrir börnin til skóla og íþróttamiðstöðvar  gangandi eða á reiðhjólum.

Línurit sem sýnir aldursdreifingu á Seltjarnarnesi, í vesturbæ Reykjavíkur og á höfuðborgarsvæðinu sem heild. Þar sést hversu aldursdreifingin á Seltjarnarnesi er ólík aldursdreifingu í vesturbæ Reykjavíkur.

Ekki náðst samstaða um öll gömlu iðnaðarhúsin

Hinn nýi byggingarreitur nær vestur að Ráðagerði. Austan Bygggarða hafa flest gömlu iðnaðarhúsin nú þegar verið rifin. Enn standa nokkur iðnaðarhús vestan Bygggarða. Reynt hefur verið að ná samstöðu með lóðarhöfum þar en ekki náðst samningar um kaup. Framkvæmdum á þessum hluta Bygggarðareitsins eru því ekki á teikniborðinu eins og er. Á sumum þessara lóða standa hús sem hafa leigusamning til allmargra ára.  Hverfið verður því byggt upp í áföngum og hafist handa austan Bygggarða.

Skipulag af nýja Bygggarðasvæðinu.

You may also like...