Ekkert hótel á BYKO reitnum
Ekki verður byggt hótel á svokölluðum BYKO reit austan Hringbrautar gegnt JL Húsinu. Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að auglýsa tillögu Plúsarkitekta að breytingu á deiliskipulagi reitsins. Eigendaskipti urðu á þessu byggingarlandi og vilja nýir falla frá fyrirhuguðum hugmyndum um hótel en fjölga þess í stað íbúðum. Borgarráð á eftir að samþykkja afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs.
Um er að ræða gamla Steindórs reitinn þar sem verkstæði bifreiðastöðvar Steindórs var á sínum tíma. Síðar var JL Byggingarvörur með verslun í verslun í húsunum en eftir að hún hætti störfum var verslun BYKO þar um árabil og varð síðari nafngift reitsins til vegna þeirrar verslunarstarfsemi. Síðast var það matvöruverslunin Víðir en eftir að hún hætti stöfum hafa húsin staðið auð. Reiturinn afmarkast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu en þar eru nú bílastæði.
Árið 2016 voru kynntar breytingar á deiliskipulagi reitsins sem gerðu ráð fyrir 70 íbúðum á reitnum á tveimur til fjórum hæðum, hóteli á einni til fimm hæðum auk verslana og þjónustu eða allt að 15.700 fermetrum. Andstaða reis einkum við vestanverða Sólvallagötuna þar sem fólk taldi í of mikið ráðist. Í tillögu Plúsarkitekta er óskað eftir því að Reykjavíkurborg veiti heimild fyrir því að fallið verði frá hugmynd að hóteli á reitnum. Þess í stað verði fjöldi íbúa aukinn úr 70 í 84. Byggingafélagið Kaldalón, sem er í eigu Kviku banka og einkafjárfesta festi kaup á reitnum.