Lögð áhersla á góðar minningar úr sumarstarfinu
Skemmtilegt samstarf er milli félagsmiðstöðvarinnar Hellisins og Vinnuskólans. Félagsmiðstöðin Hellirinn sinnir frítímastarfi fyrir fötluð börn á aldrinum 10 til 16 ára. Á sumrin eru haldin fjölbreytt sumarnámskeið sem eru aldursskipt annars vegar fyrir 5. til 7. bekk og hins vegar fyrir 8. til 10. bekk. Í sumarstarfinu er lögð áhersla á að búa til góðar minningar, auka sjálfstæði þátttakenda ásamt því að hreyfing skiptir miklu máli í sumarstarfinu.
Í yngri hópnum er leitast við að vera í samstarfi við hinar félagsmiðstöðvarnar í Breiðholti og er farið í ferðir með Tíutólf námskeiðum þeirra ásamt því að þátttakendur fara í styttri ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið. Eldri hópurinn tekur hins vegar þátt í samstarfsverkefni milli Vinnuskóla Reykjavíkur og Hellisins þar sem unglingarnir hafa starfsstöð í Hellinum og vinna þar í stað hefðbundins vinnuskólahóps.
Í vinnuskóla Hellisins er leitast við að fræða unglingana um fyrstu skrefin á vinnumarkaðinum ásamt því að þau sinna raunhæfum verkefnum helming vinnutímans til dæmis garðvinnu í kringum félagsmiðstöðina, þrifum innan félagsmiðstöðvarinnar, elda, baka og fá hagnýtar fræðslur s.s. Jafningjafræðsluna og græna fræðslu Vinnuskólans. Hinn helming vinnutímans fara þau í heimsóknir í fyrirtæki þar sem þau fá að heyra um starfsemina ásamt því að fara í skemmtiferðir bæði innanbæjar sem og styttri ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið. Einnig var góð stemming frá sumarfrístundinni Álfheimum í Hólabrekkuskóla því margt var brallað í sumarblíðunni. Hvalasafnið var heimsótt, prófað að klifra í klifurturninum í Gufunesbæ, virkjagerð og buslað í Elliðarárdalnum.