Mikil gleði með kalda kerið í sundlauginni

Kuldi er ekki fyrir alla en þessar hressu konur setja hann ekki fyrir sig.

Kalda kerið í sundlauginni var tekið í notkun fyrir skemmstu.  Mikil gleði og ánægja er meðal gesta sundlaugarinnar með þessa nýju viðbót í okkar frábæru sundlaug. 

Að sögn Hauks Geirmundssonar forstöðumanns sundlaugarinnar er snilldin við kerið, mjög auðvelt aðgengi og kemur því til móts við þá sem eiga erfitt með að  komast í tunnuna góðu sem þó verður áfram fyrir þá sem kjósa hana frekar. Kerið er 90 cm djúpt þar sem það er dýpst og viðmiðunin var að geta farið með allan líkamann í kaf ef kropið er. Margir kjósa þó að ganga í gegnum pottinn og fá vatnið aðeins á neðri hluta líkamans. Hitastigið er stillanlegt en aðeins hefur verið notast við kalda vatnið hingað til sem er u.þ.b. 4° til  8°. Enginn klór er notaður því vatnið endurnýjast á klukkutíma fresti þannig að það er alltaf hreint og tært. Að sögn Hauks hefur aðsókn sundlaugarinnar aukist lítillega á undanförnum árum en segir að fólk af Seltjarnarnesi megi vera duglegra að sækja þessa frábæru aðstöðu sem boðið er uppá og vill sérstaklega hvetja þá sem eru orðnir 67 ára og eldri að vera duglegri að koma í laugina því þeir fá gjaldfrjálsan aðgang að þessari paradís. Hann segir algengt að eldri borgarar þori ekki að koma í laugina af því að þeir kunna ekki að synda. Það er svo mikill miskilningur því það er alveg hægt að koma í sund án þess að synda. Það er hægt að slappa af í pottum, kerjum, eimbaði og laugum, allt með mismunandi hitastigi og spjalla við aðra sundlaugargesti. Þetta er tilvalinn vettvangur til að finna góðan félagsskap í fallegu umhverfi. Hvað vilja menn meira? Síðan er boðið uppá frítt kaffi til kl. 11 á morgnana eftir sundið.

You may also like...