“Nú erum við komnir í Kópavog”

– sagði þegar hann gekk út í garðinn við hús sitt í Seljahverfinu. Þegar það var byggt vissi enginn að það væri í Kópavogi.

Daði Ágústsson.

Daði Ágústsson rafmagnsverkfræðingur er einn af frumbyggjum Breiðholtsins. Hann byggði sér hús við Stuðlasel ásamt konu sinni Halldóru E. Kristjánsdóttur sérkennara og eru þau búni að búa þar frá 4. ágúst 1977 er þau fluttu inn daginn eftir verslunarmannahelgina. “Við fluttum inn í hálfgert hús og bílstjórinn sem flutti búslóðina fann ekki húsið og sneri við. Þegar ég mætti honum á leiðinni til baka og spurði hann hvað væri að svaraði hann því til að hann hafi ekki fundið húsið. Ég benti honum á það en hann sagðist ekki hafa trúað að einhver væri að flytja inn í hús án eldhúss og hurða.” Þetta var ekki óalgengt á þessum tíma en það er fleira óalgengt í sögu Daða. Húsið stóð óvart í landi Kópavogs. Þar sem landamerki höfðu verið mæld vitlaust hafði Reykjavíkurborg skipulagt byggð inn á landi nágrannasveitarfélagsins og varð til þess að Reykjavík og Kópavogur urðu að hafa makaskipti á landspildum. Daði er Vesturbæingur og ólst upp á Seltjarnarnesi en saga föður hans er með hreinum ólíkindum. Daði spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni og rifjar upp fyrri tíð og síðari.

“Ég ólst upp á Seltjarnarnesi. En ástæðu þess að við settumst að í öðrum hluta höfuðborgarsvæðisins má rekja til þess hversu dýrt húsnæði var á Nesinu. Við hefðum gjarnan viljað búa þar en keyptum okkur íbúð í Árbænum sem þá var í byggingu. Við bjuggum þar í sjö ár en alltaf var ætlunin að fá byggingalóð. Við seldum íbúðina og kaupendurnir voru Eggert Gunnarsson dýralæknir og Bergþóra Jónsdóttir. Þau keyptu íbúðina óséða. Sonur þeirra Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er því alinn upp í gömlu íbúðinni okkar.”  

Þurfti að fá þrjú nei til að eiga möguleika á lóð í Reykjavík

“Þá voru lóðamál í Reykjavík þannig að maður varð að fá þrjú nei við umsókn um lóð til þess að eiga möguleika á úthlutun,” heldur Daði áfram. “Ég sótti því eitt sinn um lóð í Fossvogi þótt ég ætlaði mér ekki að byggja þar eða setjast að heldur eingöngu til að fá neiið. Ég varð að safna neium. Svo kom að því að við fengum lóð hér í Stuðlaseli 6 og gátum hafist handa. Þegar við komum hingað fyrst stóðu saltfiskströnur á blettinum sem okkur hafði verið úthlutað. Við fengum trönurnar ekki fjarlægðar. Fyrirtækið sem átti þær hafði orðið gjaldþrota og þær voru meira og minna fallnar. Á endanum fegnum við leyfi til þess að brenna þetta með leyfi slökkviliðsins. Búið var að gera götur og úthluta lóðum en þetta spýtnarusl var enn inn á þeim. Síðan kom í ljós að lóðin var í landi Kópavogs. Þrátt fyrir alla mælitækni og verkfræði höfðu verið gerða rangar mælingar og hluti Seljahverfisins var byggt inn í Kópavog. Þetta átti eftir að verða til þess að bæjarfélögin urðu að gera makaskipti á landi og fékk Kópavogur land þar sem Breiddin er. Hefðu þessi mistök ekki verið gerð væri BYKO svæðið ásamt ýmsu öðru staðsett í Breiðholti. Ég veit ekki hvort það var út af þessu – að borgaryfirvöldum hafi þótt Kópavogur hafa betur í þessu máli að ákveðið var að engin vegtenging utan stofnbrauta væri á milli Breiðholtsins og Kópavogs. Allt var skipulagt án þeirra. Þótt hús og garðar liggi hér saman þarf að fara um lengri veg eftir stofnbrautum til þess að komast yfir í Kópavoginn. Við hjónin förum stundum í Salarlaugin sem er ágæt sundlaug Kópavogsmegin og erum ekki lengi að rölta yfir en við ætlum í bíl verður að aka í um 25 mínútur um og yfir gatnamót á þremur umferðarljósum.”   

Daði við vinnu upp á þaki á byggingartímanum við Stuðlasel. Dóttir hans situr hjá honum. 

Horfðum á sauðburðinn í Fífuhvammi út um stofugluggann 

Margt hefur verið öðruvísi umhorfs þegar þið komið hingað en er í dag. “Þetta var allt öðruvísi. Eins og að vera kominn út í sveit,” segir Daði. “Við gátum horft á Bessastaði og Garðskagavitann. Fífuhvammur er hér beint á móti og í 22 ár horfðum við á sauðburðinn þar út um stofugluggann. Ábúandinn þar var úr Vesturbænum. Bjó á Jófríðarstöðum en það býli var við Kaplaskjólsveginn þar sem KR svæði er nú. Þegar Jófríðarstaðir voru lagðir undir byggingar og hann þurfti að fara þá keypti hann Fífuhvamm í Kópavogi. Fífuhvammurinn þótti hallæriskot sem fékkst fyrir lítinn pening en tveimur áratugum síðar seldi hann landið fyrir þrjá milljarða. Eiginkona hans er gömul skólasystir mín af Seltjarnarnesi og býr enn í Fífuhvammi. Við erum því nágranna hér efra.” 

Annar af stofnendum Rafhönnunar

Heimkominn frá námi starfaði Daði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur til ársins 1972 að hann snéri sér að rekstri fyrirtækis sem hann hafði stofnað þremur árum áður. Þar með sagði hann skilið við opinbera geirann og hélt út í óvissuna. Halldóra eiginkona hans sagði að þau gætu lifað af launum sínum sem sérkennari ef brekkan reynist erfið í rekstrinum. Daði stofnaði fyrirtækið Rafhönnun ásamt Jóni Otta Sigurðssyni sem báðir störfuðu hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og hefur tengst nafni hans í gegnum tíðina. Rafhönnun er nú hluti af verkfræðistofunni Mannviti eftir að fjórar stofur voru sameinaðar undir einn hatt. En hvað koma til að þeir Daði ákváðu að stofna félag með það í fyrirrúmi að starfa sjálfstætt. “Rafhönnun var stofnuð með formlegum hætti 9. september 1969. Við undirrituðum stofnsamninginn heima hjá mér á eldhúsborðinu á Skólabraut 1 á Seltjarnarnesi því þetta var áður en við fluttum í Árbæinn. Við Jón Otti höfðum báðir verið að taka að okkur verkefni við hönnun rafkerfa fyrir einbýlishús og fjölbýli. Við unnum þetta einkum á kvöldin og um helgar utan vinnutíma hjá Rafmagnsveitunni. En þarna vaknaði draumurinn um fyrirtæki sem staðið gæti á eigin fótum.”

Sölumiðstöðin fyrsti stóri viðskiptavinurinn

“Segja má að þetta hafi verið barningur í byrjun. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna var fyrsti stórri viðskiptavinur okkar þegar ákveðið var að ég yrði ráðgjafi við lýsingu í frystihúsum um allt land. Og fleiri verkefni bættust við. Eftir að Rafmagnseftirlit Reykjavíkur hafði kannað raflagnir í öllum frystihúsum var Rafhönnun falið að semja rafmagnsreglugerð fyrir frystihús og leiðbeiningar um lagnir fyrir rafverktaka sem gefið var út í fagurblárri bók. Við unnum mikið fyrir frystihúsin en auðvitað tengdust önnur verkefni starfi okkar. Í gegnum árin fjölgaði verkefnum og fyrirtækið óx. Fyrirtækið starfaði síðan sjálfstætt þar til að á árunum 2007 og 2008 voru þrjár verkfræðistofur sameinaðar. Tvær þeirra Verkfræðistofa Guðmundar og Hönnun voru stofnaðar 1963 og Rafhönnun sem við stofnuðum 1969.”   

Saga föður míns er með ólíkindum

En Daði á sér aðra sögu og nokkuð merkilega. Er það saga föður hans sem braust frá ómegð til að verða rafvirkjameistari í Reykjavík þrítugur að aldri. Hann á því ekki langt að sækja rafmagnsáhugann. Hann var beðinn um að rifja þessa sögu upp en hann hafði gert samantekt um æfi foreldra sinna. Hann segir sögu föður síns með ólíkindum í eyrum nútímafólks. Foreldrar hans afi og amma Daða voru Sæmundur Þórðarson steinsmiður og múrarameistari fæddur 1874 að Fellsmúla í Landsveit og Guðlaug Jóhannesdóttir frá Eivakoti á Eyrarbakka fædd 1892. Sæmundur og Guðlaug slitu samvistum þegar Ágúst Óskar var fjögurra ára gamall en þá bjuggu þau í Reykjavík. En gefum nú Daða orðið. “Afi minn og amma áttu heima á Njálsgötu 13 og þar var faðir minn til fjögurra ára aldurs. Þá gerast atburðir í lífi fjölskyldunnar sem nútímafólki kunna að finnast ótrúlegir. Þau höfðu gift sig 1903 og var Sæmundur afi þá titlaður tómthúsmaður þótt hann hafi lært steinsmíði og múrverk. Á þessum tíma var oft lítið að gera fyrir byggingamenn, einkum að vetrinum. Þótt afi hafi komið að ýmsum byggingum varð hann gjaldþrota. Hann fór á vertíð til Vestmannaeyja veturinn 1915. Eitthvað hefur vertíðarmennskan brugðist því að á meðan hann var í Vestmannaeyjum ráðstafaði Guðlaug börnum þeirra, þar á meðal Ágústi Óskari föður mínum á sveit sína. Þau voru flutt hreppaflutningum austur á Eyrarbakka á vordögum 1915 þar sem þau voru boðin upp eins og algengt var á þeirri tíð þegar foreldrar gátu ekki séð fyrir börnum sínum. Lægstbjóðandi eða sá sem taldi sig þurfa minnstar greiðslur fyrir að taka börnin að sér fékk þau síðan til varðveislu fram að fermingaraldri þar sem þau voru gjarnan notuð til ýmissa verka á sveitabæjum. Þetta var ótrúleg harka gagnvart börnum en faðir minn hefur trúlega verið heppinn miðað við aðstæður vegna þess að hann fór til Þórðar Gíslasonar og Guðrúnar Gunnarsdóttur sem bjuggu að Hæringsstaðahjáleigu í Stokkseyrarhreppi sem talið var ágætis heimili. Systur hans tvær dvöldu á bæjum í nágrenninu en þrátt fyrir að Hæringsstaðahjáleiguheimilið væri talið gott mátti hann ekki hafa samskipti við þær hver sem ástæða þess hefur verið.”

Gamli fiskihjallar voru á lóðinni þegar Daði hóf að byggja. Síðar kom í ljós að lóðin var staðsett í Kópavogi.

Sjómannslíf og strok 

Daði segir að faðir sinn hafi yfirgefið æskuheimili sitt að fermingu lokinni. Hann mun hafa verið komin til sjós 16 ára gamall. Fyrst á vertíð á Þórkötlustöðum í Grindavík, síðar á síldveiðar en lengst af sjómannsferlinum var hann á kaupskipum. Daði kveðst hafa skoðað sjóferðabók hans og geta lesið sér nokkuð til um ferðir föður síns. “Hann var á skipum Eimskipafélags Íslands og um tíma var hann á norsku skipi sem sigldi milli hafna á Miðjarðarhafi. Honum líkað vistin illa en gat ekki afskráð sig því afskráning varð að fara fram í heimahöfn skipsins. Hann strauk því af skipinu í Marseille í Frakklandi þar sem hann dvaldi um tíma og svaf undir berum himni. Hann var handtekinn, gefin kostur á að fara í útlendingaherdeildina en var á endanum sendur með gripalest til Danmerkur því ekki voru til peningar fyrir fargjaldi á farþegarými.”

Þrítugur rafvirkjameistari

Hann varð rafvirki. “Eftir heimkomuna fór faðir minn að læra rafvirkjun hjá Johan Rönning. Það var á fjórða áratugnum og starfaði hann meðal annars hjá síldarverksmiðjunum á Djúpuvík, á Siglufirði og síðast á Raufarhöfn. Hann tók burtfararpróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1936 þá 25 ára gamall, sveinspróf í rafvirkjun 1937 og fékk síðan meistarabréf í rafvirkjun og löggildingu sem rafvirkjameistari í desember 1942. Ef litið er til sögu hans og uppeldis verður vart annað sagt en að um glæsilegan árangur hafi verið að ræða.” Daði segir föður sinn hafa komið að mörgum stórum verkefnum í Reykjavík. “Hann stofnaði fyrirtækið Raflögn 1943 en stofnsamningur þess hefur ekki fundist og því ekki vitað hverjir voru með honum eða sátu í stjórn þess. Raflögn vann meðal annars við Hafnarhúsið í Reykjavík og aðrar byggingar fyrir Reykjavíkurhöfn auk margra annarra verkefna sem of langt væri upp að telja. Þess má þó geta að hann sérhæfði sig í uppsetningu á lyftum sem farnar voru að ryðja sér til rúms í stærri byggingum á þessum tíma.”

Ómagaskráningin afmáð

“Faðir minn gat ekki sætt sig við það hlutskipti að vera skráður ómagi í þjóðskrá. Á þessum árum hafði fólk sem taldist til sveitarómaga ekki kosningarétt og fólk varð sjálft að ganga eftir því að losna við þessa skráningu og jafnvel að borga einhvern kostnað sem sveitarfélög höfðu haft af því til baka vildi það losna við þetta. Það er ekki fyrr en á fullorðinsárum að hann fékk þessu breytt. Hann mátti ekki kjósa vegna þess að hann var skráður ómagi í þjóðskrá. Þá tók hann sig til að hélt austur fyrir fjall og kvaðst geta greitt skuld sína væri hún einhver og krafðist þess að fá ómagatitilinn tekinn út úr þjóðskránni sem var gert.”

Fæddist á eldhúsbekk og fótbrotnaði fjögurra ára 

En þá víkur sögunni að móður Daða. “Hún hét Guðný Karlsdóttir og þau faðir minn voru gefin saman 1. nóvember 1944. Giftingarveislan var haldin á heimili þeirra og var hin glæsilegasta eftir því sem næst verður komist. Móðir mín fæddist á eldhúsbekk á heimili móður sinnar við Óðinsgötu í Reykjavík. Faðirinn viðurkenndi hana ekki sem dóttur og vildi ekkert af henni vita en foreldrar hans sýndu barninu hlýju og kærleika og önnuðust hana hluta úr degi frá tveggja til sex ára aldurs. Amma vann við þvotta og þær mæðgur þurftu oft að flytja á þessum árum. Þær fluttu í Vélstjórahúsið á Framnesvegi 42 þegar mamma var átta ára og bjó hún þar allt til fjölskyldan flutti á Skólabrautina á Seltjarnarnesi 1947. Hún varð fyrir því óhappi að verða fyrir bíl og fótbrotna þegar hún var fjögurra ára. Þar var á ferð maður sem kallaður var Snæra Magni og var hann að sækja landa til Sigurðar Berentz sem var þekktur bruggari og okurlánari í Reykjavík á þeim tíma. Hann ók burt án þess að hafa nein afskipti af þessu en lögreglan kom og fór með barnið í Svörtu Maríu upp á Landakotsspítala þar sem Matthías Einarsson yfirlæknir, faðir Louisu Matthíasdóttur myndlistarkonu tók við henni og gerði við brotið. Það gerði hann án þess að hafa nein röntgentæki en hann þótti mjög handlaginn við lækningaverk. Hún þurfti að liggja um tíma á spítalanum með fótinn í gifsi en móðir hennar og amma færðu henni að borða á hverjum degi. Á þessum tíma var ekki um neinar tryggingar að ræða og urðu bræður ömmu að bera ábyrgð á greiðslum vegna spítaladvalarinnar.” Daði hefur tekið saman það sem hann kallar stiklur úr lífshlaupi Guðnýjar Vilhelmínu Karlsdóttur eins og móðir hans hét fullu nafni. Má segja að þar sé að finna frásögu af hefðbundnu Reykjavíkurlífi ungrar stúlku á fyrri hluta síðustu aldar að því undanskildu að hún ólst ekki upp með foreldrum sem voru í hjónabandi. “Það var allt annað að skrá sögu mömmu þar sem hún var enn lifandi þegar ég réðst í það og gat fengið hana til segja frá. Þegar ég var að vinna að æviágripi föður míns sem þá var látinn varð ég um margt að treysta á þær heimildir sem hægt var að finna,” segir Daði áður en hann gengur með komumanni út í garðinn fyrir utan hús sitt og eftir nokkur skef segir hann. “Nú erum við komnir í Kópavog.”

You may also like...