102 Reykjavík orðið að veruleika

Séð yfir Hlíðarendasvæðið sem verður í 102 Reykjavík.

Póstnúmerið 102 Reykjavík hefur formlega tekið gildi. Nýtt póstnúmerahverfi afmarkast af Suðurgötu í vestri, Hringbraut í norðri, Bústaðavegi og Öskjuhlíð í austri og strandlínu í suðri. Innan hins nýja póstnúmers er að finna Háskóla Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Stúdentagarða Háskóla Íslands, háskólagarða HR og Vísindagarðasvæðið, ásamt Reykjavíkurflugvelli. Þar er einnig að finna gömlu og nýju byggðina í Skerjafirði, nýju byggðin á Hlíðarenda og útivistarperluna í Nauthólsvík. Mörk fyrir póstnúmer 105 og 107 haldast óbreytt.

Borgarráð samþykkti 17. janúar á þessu ári að óska þess við póstnúmeranefnd Íslandspósts að Vatnsmýrin fengi póstnúmerið 102. Það var samþykkt í júní. Samþykkt var í borgarráði í sumar að greiða kostnað Íslandspósts vegna breytingarinnar. Alls er um að ræða 2,3 milljóna kostnað. Þegar málið var tekið fyrir í borgarráði bárust alls fimm umsagnir vegna breytinganna. Jákvæðar komu meðal annars frá Knattspyrnufélaginu Val og framkvæmdaaðilum á Hlíðarenda en íbúasamtök í Skerjafirði, Prýðifélagið Skjöldur, mótmæltu þeim harðlega. Þau vildu fá að halda áfram að vera í póstnúmeri 101. Þá lýstu einhverjir íbúar áhyggjum af því að fasteignaverð gæti lækkað í verði við breytinguna.

You may also like...