Tækifæri að hafa alist upp á Nesinu

Einar S. Gottskálksson ásamt Guðrúnu Einarsdóttur móður sinni.

Einar S. Gottskálksson fram­kvæmda­stjóri er Seltirningur. Hann flutti ungur með foreldrum sínum Gott­skálk Þ. Eggertssyni og Guð­rúnu Einarsdóttur sem þá höfðu reist sér hús á Nesinu. Einar bjó í foreldrahúsum fram um tvítugsaldur en flutti yfir bæjar­mörkin til Reykjavíkur þegar hann stofnaði heimili. Hann hefur þó aldrei farið langt. Búið í Vesturbænum og býr nú á Tún­götu 20 í húsi sem áður var í eigu Gísla Sigurbjörnssonar forstjóra Grundar. Einar stofnaði fyrirtækið Harðviðarval 1978 ásamt föður sínum og festi árið 2009  kaup á grónu fyrirtæki sem heitir Egill Árnason hf. ásamt fjölskyldu sinni. Einar segir að uppeldið á Seltjarnarnesi hafi mótað sig að mörgu leyti þar sem hann kynntist þeim tíma þegar Nesið var að byggjast upp. „Ég náði í skottið á gamla tímanum á meðan Seltjarnarnes var einn hálfgerð sveit.“ Einar spjallar við Nesfréttir að þessu sinni.  

„Ég var fimm ára þegar við fluttum á Seltjarnarnes. Foreldrar mínir höfðu verið að byggja sér hús við Unnarbraut á Nesinu á árunum 1959 til 1960 sem þá var tilbúið til þess að flytja inn. Seltjarnarnes var nokkuð ólíkt því sem nú er á þessum tíma. Byggðin var líkari sveit en bæjarsamfélagi. Við gátum keypt egg á næstu bæjum og eigendur jarða og býla voru að selja lóðir úr landareignum sínum fyrir húsbyggingar. Nálægðin við Náttúruna var mikil. Móinn með miklu fuglalífi var allt um kring og svo fjaran. Hún var mikill leikvangur okkar krakkanna á Nesinu á þessum tíma. Þar var alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera. Segja má að fjaran og fuglalífið hafi sett ákveðið mark á okkur og svo sveitin. Ég á eingöngu góðar minningar frá æskuárunum.

Sigurgeir bæjarstjóri, Albert í Gróttu og Meyvant á Eiði

„Skólagangan hófst á Nesinu,“ heldur Einar áfram. Ég hóf hana í Mýrarhúsaskóla. Þá var búið að byggja fyrsta hluta skólahússins. Ég er af fyrsta árganginum sem byrjaði í nýja húsinu en íþróttakennsla fór enn fram í gamla skólanum sem var nýttur þannig um tíma eftir að kennsla í bóklegum fögum hafði verið færð í nýja skólahúsið. Ég fór gangandi af Unnarbrautinni og upp í skóla. Stundum varð ég samferða skólafélögum og þarna á bernskuárunum kynntist ég mörgum  æskuvinum mínum. Þetta var eins og þorp eða bæjarfélag úti á landi. Allir þekktu alla. Fólk var náið og hjálpsemi var ríkjandi. Sigurgeir Sigurðsson var bæjarstjóri. Hann var Skagfirðingur. Stýrði bæjarfélaginu af röggsemi og ég held að alltaf hafi verið stutt í sveitamanninn í honum. Flestir voru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum fyrir þetta litla bæjarfélag. Allt þetta umhverfi var notalegt. Suðurnesið var hreint ævintýri fyrir okkur krakkana. Fuglalífið var fjölbreytt og þar voru líka gamlir öskuhaugar sem gaman var að róta í. Og svo var Grótta og vitinn. Ég man ekki mikið eftir Albert í Gróttu en þó aðeins. Næstum gat flotið yfir Eiðið. Þar voru líka gamlir öskuhaugar. Ég man líka eftir Meyvant Sigurðssyni Eiði. Merkilegur maður og var þekktur í bæjarfélaginu og í Reykjavík. Hann náði háum aldri og var líka barnabarn Vatnsenda Rósu. Hann hafði sérstaka stöðu í hugum margra.“

Ellefu ára að vinna

„Svo fórum við strákarnir að vinna. Við fórum að vinna mikið fyrr en tíðkast í dag. Þetta þótti sjálfsagt. Ísbjörninn var í grenndinni. Guðmundur Guðmundsson frá Móum bjó stutt frá okkur á Unnarbrautinni. Við áttum heima á Unnarbraut 20 og hann á Unnarbraut 14. Hann starfaði þá sem yfirverkstjóri hjá Ísbirninum. Hann tók okkur litlu strákana í vinnu. Ég var ellefu ára þegar ég byrjaði að vinna hjá honum. Vinnan fólst í því að taka þorska upp með krók og setja þá í bala. Svo tóku stærri menn en við þeim og gerðu að eins og það var kallað. Fólk skrapp heim í hádeginu. Mömmur okkar litlu strákanna voru heima og trúlega flestar eiginkonur hinna eldri. Þetta var áður en almenn útivinna eiginkvenna hófst. Ég man að Guðmundur leyfði okkur stundum að sitja í bílnum hjá sér þegar við fórum heim í hádeginu. Þarna voru líka fyrstu aurarnir sem maður fékk í vasann. Að fá peninga í umslagi var nýtt fyrir okkur litlu strákana. Þarna voru fyrstu skrefin lögð. Þetta gerði okkur ekkert annað en gott. Maður er þakklátur þessum ágætu mönnum að gefa litla fólkinu gaum og tækifæri og leyfa okkur að vera samferða.“

Fermdur í  Neskirkju

„Ég var fermdur í Neskirkju. Þá var ekki búið að byggja kirkju á Seltjarnarnesi. Heitið Neskirkja var þá komið í Vesturbærinn í Reykjavík þótt að ætti betur heim á Seltjarnarnesi. Ef til hefur það orðið óafvitandi. Menn hafa trúlega ekki gert ráð fyrir að Seltjarnes yrði sjálfstætt prestakall og myndi eignast sína eigin kirkju. Þá voru séra Frank M. Halldórsson og Jón Thorarensen prestar við unga kirkju í Vesturbænum.“

Harðviðarval og Egill Árnason

Svo fórstu af Nesinu. „Já, ég fór af Nesinu um tvítugt þegar ég var komin með heimili við höfðum eignast okkar fyrstu íbúð. En það hafði myndast tenging við Seltjarnarnesið sem var og er gríðarlega sterk. Ég held að hún hafi orðið til hjá flestum eða öllum sem voru að alast þar upp á þessum árum. Aðstæðurnar voru góðar. Þarna mynduðust tengsl við æskuvinina sem hafa haldist alveg til dagsins í dag.“ Skólagöngunni á Nesinu lauk með grunnskólanum. Hvert lá leiðin þá. „Þaðan lá leiðin í Lindagötuskólann. Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi eins og gerist stundum á þessum árum. Svo fór ég í Verslunarskólann. Ég lauk verslunarprófi 1974. Strax eftir að ég lauk prófi fór ég að vinna með föður mínum Gottskálk Þ. Eggertssyni sem þá rak fyrirtæki sem starfaði við innflutning á timbri ásamt öðrum manni. Fjórum árum síðar 1978 stofnuðum við feðgarnir fyrirtækið Harðviðarval. Okkur gekk strax vel og fyrirtækið óx og dafnaði og þar vann ég með föður mínum í 30 ár. Í hruninu 2008 festum ég og mín fjölskylda kaup á grónu fyrirtæki sem heitir Egill Árnason. Faðir minn var þá kominn á aldur eins og sagt er og hættur að vinna. Ég hef verið að reka þessi fyrirtæki með fjölskyldunni síðan. Ég á tvo syni og eina dóttur og þau eru öll að vinna með okkur í þessum fyrirtækjum. Egill Árnason var stofnað árið 1934 af manni með sama nafni. Mér hefur verið sagt að þar hafi farið góður maður.

Saga að baki starfi mínu fyrir Dómkirkjuna

Einar hefur sinnt starfi fyrir Dómkirkjuna um árabil. Hvernig kom það til. Hann segir sögu að baki því. „Föðuramma mín Ragnhildur Gottskálksdóttir í Tjarnargötunni var lækningamiðill. Hún hjálpaði mörgum með sínum krafti. Mér er minnisstætt varðandi hana að á heimili hennar var stríður straumur af fólki. Síminn stoppaði stundum ekki. Eggert Ólafsson afi minn starfaði sem lýsismatsmaður. Var eini konunglegi lýsismatsmaðurinn hér á landi. Hann hafi ærinn starfa en tók líka að sér að aðstoða ömmu. Hann svaraði í símann og tók niður skilaboð og beðnir um fyrirbænir frá allskonar fólki. Hann áttaði sig á hvað þetta starf hennar var mörgum mikilvægt. Þetta mótaði vissulega viðhorf mín til trúarinnar. En lífið heldur áfram og árið 2005 fer ég að leggja komur mínar í Dómkirkjuna. Ég hef verið í sóknarnefnd Dómkirkjunnar síðan 2006. Lengst hef ég starfað með Marinó Þorsteinssyni vini mínum í sóknarnefnd sem var búinn að vera formaður hátt í tvo áratugi. Við Marinó höfum átt mikið og farsælt samstarf. Mér finnst hafa verið mjög gefandi að hafa fengið tækifæri til að vinna með öllu því góða fólki sem þar hefur verið við störf. Ágætlega hefur farið á með fólki og okkur hefur tekist að láta það jákvæða og góða vera í fyrirrúmi. Láta kærleikann njóta sín. Ég tók við sem formaður í september á  þessu ári eftir að hafa verið varaformaður í nokkuð mörg ár.“ Við höfum setið í Sigríðarstofu í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar sem er í Iðnaðarmannahúsinu við Lækjargötu. Fast á Tjarnar­bakkanum. Hugur Einars hvarflar aftur til Seltjarnarness. „Þar lagði maður grunnin að lífi sínu. Ég lít á það sem tækifæri að hafa alist þar upp.“

You may also like...