Ég lít á mig sem Breiðhylting

– viðtal við Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóra SA –

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Halldór Benjamín Þorbergsson hagfræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Halldór er borinn og barnfæddur Breiðhyltingur. “Foreldrar mínir byggðu í Seljahverfinu á áttunda áratug liðinnar aldar og búa þar enn. Voru ein af mörgum frumbýlingum þar. Þau voru nokkur ár að ljúka við húsbygginguna eins og var títt á þeim tíma. Fólk byggði húsin sjálft. Var með iðnaðarmenn í vinnu og greip til hendi eftir því sem efni og aðstæður stóðu til. Við erum því alger Breiðholtsfjölskylda.”

“Ég fór hefðbundna leið,” heldur Halldór Benjamín áfram. “Var í leikskóla í Seljahverfinu og síðan í Ölduselsskóla en þá fór ég í Menntaskólann í Reykjavík, þótt margir af minni kynslóð veldu sér aðrar leiðir einkum FB sem er í Breiðholti.” Halldór Benjamín segir minnisstætt frá grunnskólaárum sínum í Ölduselsskóla hversu skólinn var fjölmennur. “Margt barnafólk var að byggja eða búa um sig í Seljahverfinu. Flestir þekktust og tengslin á milli nemenda voru sterk. Ég man enn heimasíma og afmælisdaga margra skólasystkina minna. Samheldnin var mikil og samkennd á milli nemenda og kennara. Þegar ég var krakki var umhverfið við Ölduselsskóla ekki jafnglæsilegt og það er í dag. Malbikaðir fótbolta- og körfuboltavellir stóðu samt fyrir sínu og þar vorum við öllum stundum. Á þeim tíma hafði hverfið samt tekið stórstígum framförum, en eldri systur mínar hafa sagt mér ævintýralegar sögur frá fyrstu árum hverfisins, sem ég man ekki jafnvel eftir.”

ÍR svæðið var lítill skúr og malarvöllur 

Halldór Benjamín bendir á að í dag sé einn besta leikvöllur borgarinnar við Ölduselsskóla. Sama megi segja um ÍR svæðið. “Í fyrstu var þar einn lítill skúr og malarvöllur. Nú er hafin mikil uppbygging þar sem á eftir að skila sér til Breiðhyltinga og annarra. Það finnst mér algerlega til fyrirmyndar enda er íþróttastarf að mínu viti frábær leið fyrir krakka til að öðlast félagslegan þroska og fá útrás. Ég man að maður kom heim með flakandi sár á leggjum og kálfum eftir að verið í fótbolta á ÍR malarvellinum. Sömu sögu er að segja af dalnum. Andapollurinn var eitt drullusvað en í dag er þetta orðin útivistarperla. Eitt sem ég verð að minnast á og hrósa er skipulagið í Seljahverfi um hversu lítið þarf að fara yfir umferðargötur til að komst leiðar sinnar. Við krakkarnir gátum gengið og jafnvel hjólað í skólann án þess að þurfa að hafa áhyggjur af umferð. Í því felast mikil lífsgæði. Það var líka mikið sport þegar kennslulaugin kom við Ölduselsskóla. Ég held það væri frábær hugmynd að opna hana í nokkrar vikur á sumrin til að krakkar gætu farið í sund og buslað þar. Það er talsverð leið fyrir þau að fara úr Seljahverfinu upp í Breiðholtslaugina sem er við Austurberg.” Halldór Benjamín segir að þótt þessi tími bygginga og umbrota í hverfinu sé liðinn sé enn mikilla umbóta enn að vænta. “Þar á ég við uppbygginguna á ÍR svæðinu og sérstaklega byggingu knatthúss sem ég veit að verður mikil lyftistöng fyrir íþróttir í Breiðholti og jafnvel víðar. Innra skipulag Breiðholtsins er þannig að það á erindi víða þar sem verið er að skipuleggja byggð. Kjarninn byggður í miðjunni sem almennt svæði fyrir fjölskyldufólk. Ég þekki engin sambærileg dæmi í borginni. Þetta er vel heppnað og Breiðholtið er eitt besta hverfi Reykjavíkur í mínum huga.”

Öflugt félagslíf í Ölduselsskóla 

Halldór Benjamín minnist eins úr uppvextinum sem hann segir hafa verið eins og falið leyndarmál. “Á þessum árum var mikil vitundarvalning í frímerkjasöfnun. Öflugur frímerkjaklúbbur starfaði í Seljakirkju. Við vorum nokkrir vinir sem tókum þetta mjög alvarlega. Mig minnir að það hafi verið 1991 og 1992. Félagsstarfið var skemmtilegt. Þó náðum við talsverðum árangri. Við vorum á bilinu 10 til 20 krakkar sem vorum mest í þessu. Vorum farin að sýna á norrænum Nordia frímerkjasýningunum. Mér er einnig minnisstætt hversu öflugt félagslíf var í kringum Ölduselsskóla. Mikil áhersla var lögð á gott félagslíf nemenda. Oft var efnt til viðburða tvisvar í viku. Skólinn var ekki aðeins heimili á daginn heldur einnig oft á kvöldin. Daníel Gunnarsson var skólastjóri á þessum árum og Helgi Grímsson, sem nú er yfir skólamálum í Reykjavík stýrði félagsstarfinu. Helgi kom mjög ungur að skólanum sem var gott fyrir félagsstarfið. Ég byrjaði skólagönguna í Seljaborg sem er við hliðina á Ölduselsskóla. Ekki er langt síðan ég hitti einn af gömlu leikskólakennurum mínum. Maður þekkir þetta fólk enn þann dag í dag. Ég á bara góðar minningar úr báðum skólum.”

Áttum góðan tíma í Bretlandi 

Halldór Benjamín lauk námi í hagfræði frá Háskóla Íslands og er með MBA-gráðu frá Oxford háskóla. Hefur hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu m.a. sem hagfræðingur og síðar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands um tíma og nú framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins svo nokkurs sé getið. Hann hefur einnig sinnt stundakennslu í þjóðar- og rekstrarhagfræði bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og birt fjölda greina og rita um hagfræðileg málefni. En hvað kom til að hann flutti vestur í bæ. Hann segir nokkra sögu að baki því. Konan mín Guðrún Ása Björnsdóttir læknir er úr Vesturbænum. Hún fór utan til náms á undan mér. Ég varð eftir til að ljúka náminu við Háskóla Íslands. Við vorum í fjarbúð um tíma og ferðir á milli Íslands og Bretlands voru nokkuð tíðar. Ég fór á eftir henni og var í Oxford-háskóla þaðan sem ég lauk MBA gráðunni. Við áttum góðan tíma í Bretlandi og þar fæddist elsti sonur okkar. Hins vegar var ekki ætlunin að setjast þar að og því héldum við heim að námstíma loknum.”

Þung spor að kaupa KR búninga

Halldór Benjamín og Guðrún Ása festu fyrst kaup á húsnæði í gamla hverfinu hans í Breiðholtinu. “Mér fannst gaman að koma til baka og kynnast þeim breytingum sem höfðu orðið. Gróðurinn hefur vaxið og skapað veðursæld og búið að taka til hendinni í dalnum. Hallsteinn myndhöggvari er enn í húsinu sínu í Vogaselinu. Okkur er ágætlega til vina. Garðurinn hans með skúlptúrunum er merkilegur. Við fluttum svo vestur á bóginn. Á æskustöðvar konunnar. Ég er uppalinn í ÍR en synir mínir æfa allir í KR. Það voru þung spor fyrir mig að fara og kaupa KR búninga á þá, en ég hef sagt að við séum alltaf í ÍR búningnum innanundir. Alla vega ég!”     

Góð tengsl við Breiðholtið 

Halldór Benjamín segir að þótt hann hafi flutt úr hverfinu hafi hann mikil og góð tengsl þangað. “Foreldrar mínir búa í Seljahverfinu og systur mínar með fjölskyldur sínar og samgangurinn sé mikill. Þótt ég sé búin að vera í nokkur ár vestur í bæ þá held ég tengslum við gamla félaga mína frá grunnskólaárunum. Sterk vinátta sé til staðar þótt tilefnum til að hittast fækki eftir því sem fjölskyldur stækka. Ég er að hitta fólk sem maður hefur ekki hitt í 10 eða jafnvel 20 ár. Margir úr mínum árgangi búa í hverfinu og bera því fagurt vitni. Það sem maður saknar er líf sem var í þjónustukjörnunum í Breiðholtinu. Með þjóðfélagsbreytingum lagðist verslunarstarfsemi að mestu af og annað kom ekki í staðinn. Ekki alls staðar. Sjoppurnar voru ágætur samkomustaður fyrir krakka og unglinga á þeim tíma. Mjóddin reist upp sem kaupstaður fyrir Seljahverfið og raunar allt Breiðholtið. Verslunar- og þjónustuumhverfið breyttist. Að því slepptu var Seljahverfið ákveðinn heimur út af fyrir sig. Byggðin er það fjölmenn að flestir áttu sér vini og höfðu nóg að fást við á heimaslóðum. Ég var um 10 ara aldur þegar ég fór að fara yfir Breiðholtsbrautina yfir í Bakkana á fótboltaæfingar í Breiðholtsskóla. Minna var um ferðir upp í Efra Breiðholt. Í dag er Breiðholtið stöðugt að verða meira og meira miðsvæðis eftir því sem byggðin þenst út. Það er löngu  hætt í mínum huga að vera úthverfi þótt það hafi vissa sér stöðu sem stærsta hverfi borgarinnar. Kópavogur og Breiðholt hafa byggst saman. Það er gaman að sjá hvað búið er að gera á mínum gömlu heimaslóðum. Ég hef góð tengsl við fjölskylduna og lít á mig sem Breiðhylting.”

You may also like...