Fullbúinn leikskóli á haustmánuðum 2024

Hugmynd að nýjum leikskóla á Seltjarnarnesi.

Gert er ráð fyrir að nýr leikskóli á svokölluðum Ráðhúsreit verði fullbúinn á haustmánuðum 2024. Nýtt deiliskipulag er nú á lokametrunum og styttist í að farið verði í lokahönnun á nýjum leikskóla. Þór Sigurgeirsson segir að frambjóðendur á lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi hafi hug á að vinna út frá verðlaunatillögu Andrúms arkitekta í smækkaðri mynd samhliða því sem endurbætur verða gerðar á húsnæði Sólbrekku og Mánabrekku. 

Þór segir að hugmyndin sé að ný leikskólabygging rúmi sex til átta deildir og verði um 1200 fermetrar að stærð. Sólbrekka og Mánabrekka eru um 1300 fermetrar til samanburðar. Samanlagt ættu byggingarnar að rúma um 300 leikskólabörn og aðstaða og aðbúnaður starfsfólks og barnanna verða stórbætt um leið. Hann segir mikilvægt að útfærslan verði unnin í nánu samstarfi við stjórnendur leikskólans og að þeir verði með í ráðum í hönnunarferlinu. Þessu til viðbótar verði Ungbarnaleikskóli Seltjarnarness áfram starfræktur í gamla Mýrarhúsaskóla.

Fyrsta skóflustungan um leið og hönnunarferli er lokið

Í dag eru um 230 leikskólapláss í boði í bænum og börn hafa fengið leikskólavist að hausti frá 14 mánaða aldri. Stefnt er því að með nýrri glæsilegri leikskólabyggingu verði hægt að færa inntökualdurinn niður í 12 mánuði, þegar fæðingarorlofi sleppir, og leikskólinn geti auk þess annað aukinni þörf vegna fjölgunar íbúa með tilkomu Gróttubyggðar. Þór segir að samkvæmt hugmyndum Sjálfstæðismanna muni ný bygging passa inn í aðalskipulag og ættu því ekki að verða neinar tafir á að hægt sé að hefjast handa nú þegar við lokahönnun.

Byggt að vinningstillögunni

Tillagan byggir sem fyrr segir á vinningstillögunni en er mun hagkvæmari auk þess sem kolefnisspor er umtalsvert minna en ef þær byggingar sem eru fyrir yrðu fjarlægðar. Gert er ráð fyrir að nýja leikskólabyggingin verði á tveimur hæðum, verði um 1200 fermetrar að stærð með möguleika á enn frekari stækkun og að áætlaður kostnaður sé liðlega einn milljarður króna. Sjálfstæðismenn stefna á að fyrsta skóflustungan verði tekin um leið og hönnunarferli er lokið og að leikskólinn verði fullbúinn á haustmánuðum 2024. Á fundi bæjarráðs þann 7. apríl var samþykkt að fela bæjarstjóra að hefja undirbúning flutnings Fögrubrekku svo hægt sé að undirbúa byggingu nýs leikskóla á Ráðhúsreitnum.

You may also like...