Árangursríkt samstarf foreldrafélaganna
Foreldrafélög grunnskólanna fimm í Breiðholti, Seljaskóla, Hólabrekkuskóla, Fellaskóla, Breiðholtsskóla og Ölduselsskóla, hafa unnið náið saman í mörg ár og hefur samvinnan meðal annars verið tvisvar tilnefnd til hvatningarverðlauna Heimilis og skóla, 2017 fyrir samstarf foreldrafélaga í Breiðholti og 2019 fyrir segul um skjátíma.
Öryggið í fyrirrúmi – notum endurskinsmerki
Samstarf foreldrafélaga í Breiðholti á sér nokkurra ára sögu og hefur reynst vel, það er aðhald og stuðningur fyrir foreldrafélögin og stjórnendur auk þess sem það á sér praktískar hliðar en foreldrafélögin halda sameiginlega fræðslufyrirlestra, og skipta þannig með sér kostnaði. Reglulega funda stjórnir foreldrafélaganna með skólastjórnendum og á þessum fundum gerast góðir hlutir. Seinasta sameiginlega verkefni foreldrafélaganna var að fá gefins endurskinsmerki frá Sjóvá sem dreift var til krakkanna í grunnskólunum. Endurskinsmerki eru gríðarlega mikilvægt öryggistæki og einföld í notkun og í svartasta skammdeginu breyta þau miklu fyrir öryggi gangandi vegfarenda. Við þökkum Sjóvá kærlega fyrir þessa gjöf.
Lestur yfir hátíðirnar
Við minnum einnig á bókaskiptiverkefnið okkar sem gengur glimrandi vel, Bókabrölt í Breiðholti, en fimm hillum var komið fyrir í hverfinu þar sem fólk getur komið með eða skilið eftir bækur. Markmið verkefnisins er að hvetja til lesturs barna og fullorðinna, sem eru lestrarfyrirmyndir barnanna. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli og er mikið „bókarennerí“ í hillunum. Hillurnar eru staðsettar í ÍR heimilinu, Mjódd, Seljakjör, Hólagarði og Breiðholtslaug.