Olíustöðin í Skerjafirði

Olíustöðin í Skerjafirði. Á myndinni má sjá byggingar sem reistar höfðu verið á lóðum úr landi Skildinganess og einnig olíubryggjuna sem byggð var til að hægt væri að afferma olíuflutningaskip með dælubúnaði.

Athafnasvæði Shell á Íslandi og síðar Skeljungs var um tíma í Skerjafirði. Hópur íslenskra kaupsýslu- og athafnamanna stóð að stofnun Shellfélagsins hf. á Íslandi ásamt Shellsamsteypunni og var félaginu veitt leyfi til starfrækslu olíustöðvar við Skerjafjörð þann 25. júní 1927. Olíustöð Shell í Skerjafirði varð stærsta eldsneytisbirgðastöð landsins á þeim tíma. Tilkoma hennar og starfsemi hafði áhrif á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Starfsemi félagsins markaði þáttaskil í dreifingu eldsneytis til landsins, sem fram að því hafði eingöngu verið flutt til landsins í tunnum. 

Aðdraganda þessarar sögu má þó rekja nokkuð lengra aftur í tímann. Á fyrsta og öðrum áratugi 20. aldar var farið að ræða um að leggja jörðina Skildinganes sem þá tilheyrði Seltjarnarnesi undir Reykjavík. Á þeim tíma höfðu verið gerðar tilraunir til að koma upp höfn í Skerjafirði sem komst aldrei til framkvæmda. Einar Benediktsson skáld og athafnamaður hafði á þessum tíma unnið að undirbúningi að byggingu áburðarverksmiðju í Skildinganesi sem knúin skyldi rafmagni úr Þjórsárvirkjun. Félög voru stofnuð í þeim tilgangi og komust þau yfir verulegan hluta í landi Skildinganess. Þar var einkum um að ræða Fossafélagið Títan. Ekkert varð úr þessum fyrirætlunum og um 1922 keypti Eggert Claessen, lögfræðingur og bankastjóri Íslandsbanka stóran hluta Skildinganesjarðar af Fossafélaginu. 

Skiptar skoðanir um ævintýrafélög – Alþingi hafði efasemdir

Eggert var einn af nánum samstarfsmönnum Einars Benediktssonar. Var lögfræðingur hans í fjölmörgum viðskiptaævintýrum. Í bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um Eggert Claessen  kemur fram að vegna laskaðs orðspor Einars Benediktssonar meðal Íslendinga vegna fyrri misheppnaðra gróðaverkefna hafi nafn hans lítt verið áberandi í tengslum við Fossafélagið. Félagið hafði tryggt sér vatnsréttindi íslenskra stórfljóta með orkuframleiðslu til stóriðju í huga. Að nafninu til áttu þau að heita í meirihlutaeigu íslenskra aðila en voru í raun borin uppi af erlendum bakhjörlum. Málefni félaganna urði mikið hitamál. Ýmsir töldu að félögin gætu með fjárfestingum sínum leitt mikinn auð inn í landið og stuðlað að tækniframförum en aðrir óttuðust að svo stór erlend fjárfesting yrði skaðleg til lengdar. Síðarnefnda viðhorfið varð ofan á í meðförum Alþingis og tilraunir til að koma í gegn frumvörpum sem gert hefðu Fossafélaginu unnt að ráðast í framkvæmdir reyndust árangurslausar. Málið var því andvana fætt.

Séð yfir olíugeyma og annað athafnasvæði Shell í Skerjafirði.

Fyrirætlanir runnu út í sandinn

Eggert Claessen  stofnaði fasteigna- og fjárfestingarfélagið Baug árið 1918. Fleiri voru með honum í fyrirtækinu. Má þar nefna Thor Jensen og Jón Þorláksson, mág Eggerts og síðar borgarstjóra og forsætisráðherra. Félagið keypti hluta af landi Skildinganess á sama tíma og Eggert sá um landakaup fyrir Fossafélagið. Var ætlunin að reisa skipasmíðastöð í tengslum við fyrirhugaða hafnargerð í Skerjafirði. Þegar ljóst varð að áform um stórskipahafnir og iðnrekstur væru að renna út í sandinn fóru eigendur bæði Baugs og Fossafélagsins að leita nýrra leiða sem fólust í að selja landið í Skerjafirðinum til annarra nota. Var þá horft til íbúðabygginga. Eggert Claessen  reið sjálfur á vaðið og byggði sér reisulegt íbúðarhús í Skildinganesi og nefndi Reynisstað. Deilt var um athafnasemi hans í bæjarstjórninni. Talað var um skattaflótta auðmanna úr Reykjavík en Skildinganes tilheyrði þá Seltjarnarnesi þar sem skatta voru lægri en í höfuðstaðnum.

Nær 100 lóðir seldar – Skildinganes fært undir Reykjavík

Árið 1927 hóf Eggert að skipuleggja byggingalóðir á Skildinganeslóðinni fyrir sölu. Þar með hófst myndun þéttbýlis í Skildinganesi. Eggert lét gera heildarskipulag yfir svæðið þar sem hann gerði ráð fyrir nýjum götum og afmarkaði lóðirnar meðfram þeim. Á árunum 1927 til 1934 seldust tæplega hundrað lóðir úr landi Eggerts. Árið 1932 tóku gildi lög sem kváðu á um að jarðirnar Skildinganes og Þormóðsstaðir ásamt öllum lóðum og löndum sem seld höfðu verið undan þeim skyldu innlimuð í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þá höfðu 86 hús verið byggð á svæðinu og íbúum fjölgaði ört. Með hernámi Breta árið 1940 og gerð Reykjavíkurflugvallar í kjölfarið urðu miklar breytingar á byggðinni. Talsvert mörg hús voru rifin eða flutt burt vegna flugvallargerðarinnar og byggðin í raun klofin í tvennt. 

Eggert Claessen reið sjálfur á vaðið og byggði sér reisulegt íbúðarhús í Skildinganesi og nefndi Reynisstað. Þetta er fyrsti hluti hússins en síðar var byggt við það. Eggert Benedikt Guðmundsson barnabarn Eggerts Claessen  hefur búið í húsinu undanfarin ár.

Eldsneytisstöð í Skerjafirði

Einkaleyfi Landsverslunar til verslunar með olíuvörur var numið úr gildi árið 1925 og hætti hún störfum tveimur árum síðar. Sama ár eða 1927 var Olíusalan hf. stofnuð af fjórum íslenskum athafnamönnum. Þeir voru Björgúlfur Ólafsson læknir, Hallgrímur Benediktsson stórkaupmaður, Hallgrímur A. Tuliníus stórkaupmaður og Gísli J. Johnsen konsúll. Fimmti Íslendingurinn bættist í hópinn þegar stofnað var Hf. Shell á Íslandi og var það Magnús Guðmundsson hæstaréttarlögmaður. Samanlagt áttu fimmmenningarnir 51% í félaginu og Shell-samsteypan 49%. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Björgúlfur Ólafsson læknir. Hann hafði verið læknir í nýlenduher Hollendinga í Austur-Indíum árið 1913 og kynntist Shell í gegnum störf sín á erlendum vettvangi. Hann fékk þá hugmynd að efna til þessa samstarfs og varð fyrsti stjórnarformaður félagsins.

Félagið tók við rekstri olíustöðvarinnar í Skerjafirði og allri sölu og dreifingu á olíu og bensíni sem hlutafélagið Shell á Íslandi hafði haft á hendi. Olíustöð Shell í Skerjafirði varð stærsta eldsneytisbirgðastöð landsins. Um 30 metra löng bryggja var byggð út í Skerjafjörðinn þar sem olíuskip gátu lagst að landi svo dæla mætti olíu í geyma á landi.  

Varnaðarorð slökkviliðsstjóra

Á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar gerði Valgarður Thoroddsen þáverandi slökkviliðsstjóri athugasemd um að varnargarðarnir umhverfis geymasvæðið væru ófullnægjandi og að staðsetning stöðvarinnar væri varhugaverð með tilliti til vaxandi byggðar í nágrenninu. Hann benti á að birgðarýmið í olíustöðinni í Skerjafirði væri orðið of lítið og ný og stærri olíuskip sem komin væri til sögunnar ættu í erfiðleikum að sigla þangað. Þarna er upphafið að endalokum olíustöðvar í Skerjafirði. Þá var ráðist í byggingu nýrrar olíustöðvar Skeljungs hf. í Örfirisey sem tekin var í notkun í febrúar 1971.

Fyrrum aðsetur Shell í Skerjafirði. Reykjavíkurborg keypti húseignirnar í lok árs 1996. Þarna hefur verið skiptistöð fyrir Strætó og ORG ættfræðiþjónusta Odds Helgasonar.

Flutt í Örfirisey

Eftir að stöðin í Örfirisey tók við sem aðalolíubirgðastöð félagsins var stöðin í Skerjafirði notuð sem þjónustustöð og birgðastöð fyrir gas um tíma. Árið 1985 var stór gasolíugeymir dregin þaðan í Örfirisey sem var liður í flutningum úr Skerjafirði í Örfirisey. Síðast var flutt olía í Skerjafjarðarstöðina árið 1986 en gasi var hins vegar landað þar fram til ársins 1996 að ný sameiginleg gasstöð olíufélaganna í Straumsvík var tekin í notkun.

Reykjavíkurborg kaupir eignir Skeljungs

Reykjavíkurborg keypti eignir Skeljungs hf. í Skerjafirði, bæði eignarlandið og þær húseignir sem þar stóðu. Með kaupunum vildu borgaryfirvöld tryggja að hægt yrði að uppfylla skilyrði um öryggi Reykjavíkurflugvallar en einnig opna möguleika fyrir borgina til að skipuleggja íbúðabyggð á svæðinu.

Síðustu tvo áratugi hafa gömlu Skeljungshúsin, húsin og svæðið heyrt undir Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar sem hafði þar þjónustumiðstöð um skeið. Strætisvagnar Reykjavíkur og síðar Strætó bs. hafa verið með skiptistöð í Skerjafirði. Þá hefur ORG ættfræðiþjónusta Odds Helgasonar verið með starfsstöð í húsnæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði um árabil.

You may also like...