Ég kem alltaf glöð heim

– segir Álfheiður Björgvinsdóttir stofnandi og stjórnandi –

Barnakórinn við Tjörnina setur sterkan svip á kirkjustarfið í Fríkiirkjunni og tengir ungt fólk kirkjunni. Hér er kórinn við fjölskyldustund í kirkjunni sunnudaginn 13. október sl. Kórinn tekur reglulega þátt í athöfnum kirkjunnar.
Stjórnandi kórsins er Álfheiður Björgvinsdóttir.
Mynd: Brynjólfur Bragason.

Barnaskórinn við Tjörnina er sjö ára. Stofnandi kórsins er Álfheiður Björgvinsdóttir tónlistarkennari og kórstjóri. Hún segir að upphaf kórsstarfsins megi rekja til þess að Gunnar Gunnarsson tónlistarstjóri og organisti Fríkirkjunnar hafi komið að orði við sig fyrir jólin árið 2012. Hann hafi spurt sig um hvort hún gæti útvegað nokkur börn til að syngja á aðventukvöldi kirkjunnar.

Álfheiður Björgvinsdóttir 
tónlistarkennari og kórstjóri.

„Ég sló til að hóaði saman í lítinn hóp sem söng við athöfnina ásamt Sönghópnum við Tjörnina. Á þeim tíma hafði ekki verið barnakór við Fríkirkjuna um tíma en ég hafði átt mér draum um að koma litlum barnakór á fót. Ég hugsaði með með mér. Af hverju ekki núna. Fríkirkjan er dásamlegur staður og mig langaði að bjóða börnum upp á lifandi starf í kirkjunni. Gunnar Gunnarsson tónlistarstjóri og séra Hjörtur Magni Jóhannsson fríkirkjuprestur voru mjög áhugasamir og safnaðarráðið tilbúið til stuðnings. Þetta varð til þess að fyrsta æfing hins nýja kórs var haldin í mars 2013 þar sem tíu hressir krakkar mættu til leiks. Ég ákvað að setja ákveðin skilyrði fyrir kórstarfinu. Þau voru að kórinn væri opinn öllum börnum og öllum að kostnaðarlausu. Fríkirkjan er ekki hverfiskirkja heldur kemur fólk víða að í kirkjuna. Flest börnin í hópnum sem syngja með í ár koma úr gamla Vesturbænum en annars koma þau víða að. Ég er til dæmis með eina stúlku úr Kópavogi.“

Tók við Kársnesskólakórnum af Þórunni

Álfheiður hefur unnið lengi með börnum. Hún starfar sem kennari við Kársnesskóla í Kópavogi þar sem öflugt kórstarf hefur verið í langan tíma. „Ég var sjálf nemandi í Kársnesskóla og söng í Skólakór Kársness hjá Þórunni Björnsdóttur – Tótu sem margir þekkja af starfi hennar með Skólakór Kársnesskóla. Er eiginlega alin upp hjá henni í þessu og tók svo við kórnum þegar hún lét af störfum.“ En hvernig tengist Álfheiður Fríkirkjunni. „Sem barn fór ég af og til í barnamessur með mömmu minni. Þá man ég eftir líflegum jólaskemmtunum og öndunum sem komu alltaf syndandi í átt að kirkjunni þegar bjöllurnar hringdu. Svo byrjaði ég að syngja með sönghópnum í kirkjunni vorið 2011. Þá bjó ég á Baldursgötunni og því stutt að stökkva til og syngja í messum. Einnig var ég í Kvennaskólanum svo Fríkirkjan hefur lengi verið í mínu nærumhverfi. 

Um 35 börn í kórnum

„Við bindum okkur ekki í neina ákveðna tónlist. Ég reyni mikið fremur að hafa þetta fjölbreytt. Ég leitast við að velja lög við hæfi barnanna en einnig að kynna fyrir þeim fjölbreytta barnakóratónlist, sálma og veraldleg lög. Nú eru um 35 börn á aldrinum sex til ellefu ára í kórnum. Á hverjum þriðjudegi mæta þau til æfingar. Þá fyllist kirkjan af kátum krökkum og húsið yðar af lífi. Foreldrar og systkini koma gjarnan og fylgjast með og stundum lítur einn og einn ferðamaður inn.”

Tökum virkan þátt í safnaðarstarfinu

Er kórinn hluti af kirkjustarfinu? „Já – barnakórinn tekur virkan þátt í safnaðarstarfinu og syngur til dæmis í fjölskylduguðsþjónustum einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Kórinn kemur einnig fram við jólahald og páska. Kórinn hefur sýnt leikþætti á jólaskemmtunum og helgihald páskanna er líka mikilvægur þáttur í kórstarfinu. Við fjölskylduguðsþjónusturnar fá börnin tækifæri til að koma fram. Þau kynnast helgihaldinu og því góða fólki sem starfar í kirkjunni. Kórinn hefur vaxið og dafnað síðustu árin. Við erum að ná mjög góðum árangri en það þarf þolinmæði til að byrja slíkt starf frá grunni. Það er líka frábært að vinna með Gunnari tónlistarstjóra. Hann er fjölhæfur tónlistarmaður. Er mikill spunameistari og svo er alltaf hljómsveit sem leikur með honum við kirkjuathafnir. 

Kórinn hefur mikið gildi 

Álfheiður er spurð um gildi barnakórsins fyrir Fríkirkjuna. „Ég tel að hann hafi mikið gildi. Aldrei er betur mætt en þegar við erum með í fjölskyldumessunum. Þá kemur fólk sem tengist börnunum. Nánustu fjölskyldur og stundum fleiri. Einkum skyldmenni. Ég held að kórinn kalli fólk í kirkjuna sem myndi ekki annars koma. Við tengjum þetta við fermingarbörnin og höfum líka prófað að halda krakkamessur. Annars er þetta í stöðugri þróun. Barnakórastarf er að sækja í sig veðrið og hafa nokkrir kórar hafið starfsemi á síðustu árum. Við höldum bara áfram að efla sönginn því söngurinn tengir okkur svo vel saman. Börnin æfa í tveimur hópum, krakkar í 1. til 4. bekk og svo í 5. til 7. bekk. Börnin eru dásamleg, kraftmikil og fjörug. Ég kem alltaf glöð heim“ segir Álfheiður að lokum.

You may also like...