Reykjavíkurborg dregur sig út úr fimleikahúsi

Iþróttamiðstöð

Reykjavíkurborg hefur dregið sig út úr viðræðum um byggingu fimleikahúss á Seltjarnarnesi en um 75% iðkenda í fimleikadeild Gróttu koma úr Reykjavík. Viðræður voru teknar upp síðastliðið vor og gengu vel. En svo ber við að á fundi Borgarráðs þann 22. október sl. var samþykkt ályktun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina um að í ljósi fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar telji borgarráð ekki unnt að halda verkefninu áfram.

Á sama fundi bókuðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að mikilvægt væri að fram fari þarfagreining á aðstöðu fyrir fimleikaíþróttir í vesturhluta borgarinnar, en engin slík aðstaða er fyrir hendi önnur en hjá Gróttu. Magnús Arnar Guðmundsson, formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness ÍTS, segir þetta mjög mikil vonbrigði. Hann segir að á síðasta fundi ÍTS hafi fjórir af fimm nefndarmönnum bókað vonbrigði sín með niðurstöðu Reykjavíkurborgar og hvatt borgarráð til þess að endurskoða afstöðu sína og flýta þarfagreiningunni sem er augljóslega afar brýn. Að mati Magnúsar Arnar er sameiginleg uppbygging hjá Fimleikadeild Gróttu langbesta lausnin í stöðu fimleika á vestanverðu höfuðborgarsvæðinu. „Aðstaðan hjá fimleikadeild Gróttu er yfirfull vegna þjónustu við Reykvíkinga. Nú þarf Seltjarnarnesbær að hugsa næstu skref gaumgæfilega og jafnvel alveg upp á nýtt. Brýn þörf er á því að bæta aðgengi að íþróttamiðstöðinni auk þess sem fleiri búningsklefa vantar sárlega. Augljóst er að Seltjarnarnesbær getur ekki einn, án þátttöku Reykjavíkurborgar, byggt sjö hundruð milljóna króna viðbyggingu við íþróttamiðstöðina með fimleikaaðstöðu eins og hugmyndir hafa verið uppi um og viðræður gengu út á þrátt fyrir að það myndi einnig leysa búningsaðstöðu og fleira fyrir aðrar deildir Gróttu.“ Magnús Arnar segir að Reykjavíkurborg verði að koma að þessu verkefni til þjónustu við íbúa sína ef núverandi hugmynd eigi að ganga upp.

You may also like...