Breiðholt got talent í ellefta sinn
Hin árlega hæfileikakeppni Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs, Breiðholt got talent, fór fram í Breiðholtsskóla föstudaginn 7. febrúar síðastliðinn. Keppnin, sem nú var haldin í ellefta sinn, hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn helsti viðburður ársins meðal barna og unglinga af frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum í Breiðholti. Mikið er lagt upp úr að umgjörðin sé eins og best verður á kosið, með fullkomnu hljóð- og ljósakerfi.
Keppnin skiptist í tvennt. Um daginn kepptu 6 til 12 ára gömul börn af frístundaheimilunum. Tólf atriði voru skráð til leiks, hvert öðru glæsilegra. Dansatriði voru áberandi í ár, en einnig voru nokkur söngatriði á dagskrá. Öll tólf atriðin hlutu verðlaun í jafnmörgum flokkum, til að mynda bjartasta vonin og kraftmesta atriðið. Sigurvegarinn í ár heitir Sóley Vala og kemur úr Hraun-heimum. Hún sýndi glæsilegan dans við lagið Blessed.
Um kvöldið var komið að unglingum á aldrinum 13-16 úr félagsmiðstöðvunum að láta ljós sitt skína fyrir framan fullan sal. Ellefu atriði voru skráð til leiks og var fjölbreytileikinn í fyrirrúmi. Keppnin virkaði þannig að þrír dómarar völdu þrjú bestu atriðin að þeirra mati og síðan kusu áhorfendur í sal það atriði sem þeim fannst best. Í úrslitum voru Sólbjörg og Rúna með frábært dansatriði, Marta Quental sem spilaði á saxafón með mikilli innlifun og Íris Þöll sem söng I´m still standing eftir Elton John á meðan hún skautaði á sviðinu á hjólaskautum. Eftir æsispennandi kosningar voru úrslitin þannig að Marta Quental lenti í 3. sæti, Íris Þöll tók 2. sætið og þær Rúna og Sólbjörg stóðu uppi sem verðugir sigurvegarar í ár.