Unnið að aðgerðaáætlun vegna tillagna Haraldar Líndal
Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkti á fundi þann 20. febrúar sl. að fela bæjarstjóra að vinna aðgerðaráætlun um framgang einstakra tillagna og fylgja eftir ábendingum sem koma fram í skýrslu vegna rekstrarúttektar sem Haraldur Líndal Haraldsson hagfræðingur vann fyrir bæinn. Gert er ráð fyrir að aðgerðaráætlun verði lögð fram í bæjarráði Seltjarnarnesbæjar innan tveggja mánaða og stöðumat eftir sex mánuði.
Um er að ræða ítarlega greiningu á rekstri og fjármálum bæjarfélagsins. Í greiningunni hefur íbúaþróun verið skoðuð og einnig var unnin greining á skuldum, veltu- og handbæru fé frá rekstri. Þá var skoðað hvernig ársreikningur hefur komið út í samanburði við fjárhagsáætlun. Rekstrarafkoma, laun og önnur rekstrarútgjöld hafa verið greind og einnig er þar að finna greiningu á tekjum sveitarfélagsins, samsetningu tekna o.fl. Í úttektinni er farið yfir hvernig fjöldi stöðugilda hefur þróast síðustu ár í samanburði við önnur sveitarfélög af svipaðri stærð.
Leiðrétta þarf rekstur um 200 til 300 milljónir
Megin niðurstaða greiningarinnar er að Seltjarnarnesbær þurfi að leiðrétta rekstur sinn um 200 til 300 milljónir króna. Í skýrslu Haraldar sem kynnt var á opnum íbúafundi miðvikudaginn 26. febrúar sl. eru 66 tillögur ásamt ábendingum um það sem talið er sérstaklega vert að skoða í stjórnsýslu, rekstri og fjármálum bæjarins. Í bókun bæjarstjórnar um úttektina segir: ,,Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar lýsir ánægju með framkomna skýrslu sem staðfestir traustan rekstur bæjarfélagsins þar sem starfsmenn leggja sig fram af metnaði og með fagmennsku að leiðarljósi við að veita bæjarbúum góða þjónustu. Í skýrslunni felast jafnframt tækifæri til að gera enn betur með það að markmiði að fylgja eftir tillögum og ábendingum til að bæta rekstur, fjárhag og þjónustu bæjarins.“