Vilja grjóthrúguna í burtu

Grjóthrúga við göngustíg á Snoppu var til umræðu á fundi um­hverfis­nefnd­ar Sel­tjarnarnes­bæjar þriðju­daginn 7. mars sl. Á fundinum upp­lýsti starfsmaður nefndar­innar um notkun á efni úr hrúgunni í grunn nýrrar leikskóla­lóðar og í grjótvarnar­garða. Af bókunum má sjá að nefndar­menn vilja hrúguna umsvifa­laust í burtu.

Fulltrúar samfylkingar og óháðra lögði fram svohljóðandi bókun. ,,Fjarlægja ber grjóthrúguna við Kotagranda umsvifalaust. Í fyrsta lagi þá er hrúgan staðsett á hluta lands sem samkvæmt landnotkunarflokkum, með vísan í reglugerð með Skipulagslögum og Aðalskipulag Seltjarnarness, er skilgreint sem opið svæði sem ætlað er undir útivist. Þar með er skýrt að ráðstöfun og takmörkun landsins heimilar ekki efnislosun. Í öðru lagi er um óleyfisframkvæmd að ræða þar sem beiðni um framkvæmdarleyfi fór ekki fyrir skipulags- og umferðarnefnd, enda hefði nefndinni verið óheimilt að gefa út slíkt leyfi, samkvæmt framangreindri reglugerð, þar sem það samrýmist ekki stefnu um landnotkun í samþykktu Aðalskipulagi Seltjarnarness. Því brýtur bærinn með staðsetningu hrúgunnar í besta falli í bága við eigin yfir­lýsingar en í versta falli við lög. Í þriðja lagi er um stórt öryggismál að ræða. Grjóthrúgan er staðsett við göngu og hjólaleið á einu helsta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og ekki afgirt með þeim hætti að af henni geti ekki hlotist skaði, en með því er bærinn einnig að bregðast skyldum sínum við almenning. Í Aðalskipulagi er heimild fyrir því að geyma grjót og annað hreint efni tímabundið innan athafnasvæðis bæjarins án þess að sérstakt leyfi þurfi til. Mælst er til þess að efnið verði fært þangað strax og samhliða verði svæðið á Kotagranda fært til fyrra horfs.“ 

Hannes Tryggvi Hafstein lagði fram svohljóðandi bókun. ,,Undirritaður krefst þess að óflokkuðu grjóti- og jarðvegsúrgangi sem komið var fyrir síðasta haust á hverfisvernduðu svæði við göngustíginn á Kotagranda og Snoppu á vestursvæðum Seltjarnarness verði fjarlægt hið fyrsta. Bæta þarf samskipti og vinnubrögð með formlegum afgreiðslum fagnefnda áður en samþykki er veitt m.a. fyrir losun jarðvegsúrgangs í sveitarfélaginu utan skilgreindra svæða.“

You may also like...