Mikið tónlistarlíf hjá ungu fólki

– segir Ingibjörg Elsa Turchi –

Ingibjörg Elsa Turchi.
Mynd: Gígja Skjaldardóttir.

Þeir sem fylgjast með tónleikum Stuðmanna hafa tekið eftir ungri konu sem stendur með þeim á sviðinu og leikur á rafmagnsbassa. Hún tók við sem bassaleikari þessarar þekktu hljómsveitar í gegnum áratugi Tómasi Tómassyni sem féll frá fyrir rúmum tveimur árum. Ekki er fyrir hvern sem er að fylla skarð Tómasar eins af fremri tónlistarmönnum landsins og heldur ekki algengt að konur spili á bassa. Þessi kona er ekki ný á tónlistarsviðinu. Hún hefur lifað og hrærst í hljóðfæraleik og tónlist frá barnsaldri og hefur einnig sinnt tónsmíðum hin síðari ár. Hún hóf að læra hljóðfæraleik sex ára að aldri. Stundaði síðan nám í tónlistarskóla FÍH samhliða háskólanámi í forngrísku og latínu. Hún kenndi forngrísku í MR í eitt ár eftir útskrift og starfaði aðeins við þýðingar en svo kallaði tónlistin meira á hana. En hver er þessi kona sem spilar á bassa, er með háskólapróf í forngrísku og latínu og stendur nú á sviðinu með einni helstu eðalhljómsveit sem starfað hefur hér á landi Stuðmönnum. Hún heitir Ingibjörg Elsa Turchi. Býr á Ránargötunni og spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

“Ég hef verið að spila með ýmsum tónlistarmönnum að undanförnu,” segir Ingibjörg þegar hún hefur sest með tíðindamanni á Cafe Rósenberg á Vesturgötu 3.

“Gaman er að spila mikið en stundum verður að forgangsraða því sem maður tekur að sér. Um þessar mundir er ég að spila í mörgum mismunandi verkefnum auk tónsmíða. Þar má meðal annarra nefna auk Stuðmanna, Benna Hemm Hemm, Soffíu Björgu og Teit Magnússon. Svo gaf ég út plötu á vegum SMIT Records árið 2017 og er plata númer tvö væntanleg í júní.” Ingibjörg var stofnmeðlimur og bassaleikari í Rökkurró og Boogie Trouble og hefur einnig spilað með Bubba Morthens og Emilíönu Torrini. Þetta er eins og hver önnur vinna. Getur verið erfið en mér finnst þetta það skemmtilegasta sem ég geri.” Ingibjörg kveðst búin að að starfa nær eingöngu að tónlistartengdum verkefnum í nokkur ár og séu þau jafn fjölbreytt og þau eru mörg. “Allt frá því að spila með eigin hljómsveitum, í öðrum verkefnum sem sessionleikari, í gjörningi hjá Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni og að sjá um námskeið hjá Stelpur rokka. Stelpur rokka er með því mest gefandi sem ég hef gert á ævinni.”

Verðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns

Á síðasta ári hlaut Ingibjörg verðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns. Það var í tíunda skiptið sem úthlutað var úr sjóðnum sem var stofnaður af ættingjum, vinum og samstarfsmönnum gítarleikarans Kristjáns Eldjárns eftir að hann lést árið 2002, tæplega þrítugur að aldri eftir erfið veikindi. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Páll Ragnar Pálsson, Sunna Gunnlaugsdóttir, Daníel Bjarnason og Skúli Sverrisson. 

Ítali í aðra ættina

En hvaðan kemur þessi kona sem semur tónlist, leikur á hljóðfæri og hefur kennt forn-grísku í menntaskóla. “Ég er Ítali í föðurættina og þaðan kemur ættarnafn mitt. Faðir minn Paolo Turchi kom hingað til lands til þess að læra íslensku. Hann kynntist móður minni Sigríði Einarsdóttur Laxness og hefur búið hér á landi síðan. Ég er alin upp í Þingholtunum. Við bjuggum í Miðstræti 4, Þingholtsstræti 30 og Bergstaðastræti 15 en fluttum síðan á Sólvallagötu 80. Nú bý ég neðst á Ránargötunni. Ég held að aldrei hafi komið til tals að við flyttum til Ítalíu til þess að búa þar en við fórum þangað oft á sumrin. Eins hef ég haft mjög gaman af að fara til Grikklands einkum eftir að ég lærði grísku.”

Byrjaði sex ára á blokkflautu

Kom tónlistin fljótt til þín. “Hún kom fljótt. Ég byrjaði að læra í forskóla þegar ég var sex ára gömul. Byrjaði á blokkflautu eins og margir gera. Ég hélt áfram að spila á hana en fór einnig að læra á önnur hljóðfæri. Ég lærði á píanó og gítar og meira að segja á harmonikku. En mér fannst gaman og það er auðveldara þegar maður hefur lært á píanó. Ég hef ekki spilað mikið á hana í seinni tíð. Ég var alltaf að spila og þegar ég var komin á fornmálabrautina í MR kynntist ég krökkunum í hljómsveitinni Rökkurró. Ég fór að spila með þeim. Við unnum nokkrar plötur  og fórum í tónleikaferðalög saman.” En hvenær kom bassinn til sögunnar. “Ég var ca. 20 ára þegar ég fór að spila á bassa. Mér fannst hann strax skemmtilegt hljóðfæri. Ég hef aðallega spilað á rafbassa en aðeins gripið í þann stóra – kontrabassann, ekki mikið þó. Þetta fór saman hjá mér. Að nema forngrísku og latínu og stunda tónlistarnám í FÍH.”

Vann á Mokka

Ingibjörg vann um tíma á Mokka við Skólavörðustíginn meðfram námi og tónlistinni. “Mokka var aðalvinnustaður minn fyrir utan tónlistina og kennslu í og eftir menntaskóla. Mokka er af ítölskum uppruna og er frábær staður sem hefur sinn karakter og breytist ekkert. Þar ráða engar tískusveiflur ríkjum. Þetta var allt á sama stað. Kaffihúsið veitingarnar og kúnnarnir, Bergstaðastrætið. Mokka, MR og síðan Háskólinn aðeins vestar. Og svo Vesturbæjarlaugin. Þetta er ástæðan fyrir að ég er ekki enn búin að taka bílpróf. Maður hefur bara labbað. En ég verð trúlega að fara að drífa mig í ökunám.”

Jakob hringdi

Svo komu Stuðmenn til sögunnar. Hvernig kom það til. “Jakob Frímann Magnússon hringdi í mig og spurði hvort ég gæti komið og spilað með þeim. Hann vissi að ég var að spila á bassa og þá vantaði einhvern til þess að fylla skarð Tómasar Tómassonar sem þá var nýlátinn. Ég ákvað að sjálfsögðu að slá til. Ég fór að pikka línurnar þeirra upp og er búinn að vera með þeim frá 2018. Þeir eru búnir að vera lengi að. Eiga sér langa sögu. Hafa alltaf sungið á íslensku. Lögin eru algerlega frábær og æðislegt að spila þau.” Ingibjörg kveðst ánægð með samstarfið við Stuðmenn, “Þeir leggja líka mikið upp úr sviðsetningunni. Setja eiginlega upp leiksýningu á sviðinu enda vanir menn að því leyti. Frægasta verk þeirra er kvikmyndin Með allt á hreinu, hún fylgir kynslóðunum hér á landi. 

Einbeitt með bassann.

Stefni að útgáfutónleikum í Kaldalóni

En hvað er Ingibjörg að gera fleira. “Ég hef haft fremur rólegt að undanförnu út af þessu ástandi sem skapaðist í kringum covid veiruna. Viðburðabann og fólk hefur verið að halda sig heima. Ég er mikið að vinna að eigin tónlist þessa dagana og ljúka við tónsmíðanám frá LHÍ. Það á plata að koma út í sumar og ég stefni að útgáfutónleikum í Kaldalóni í Hörpu 2. júlí. Þar ætla ég að vera með mitt fólk. Fólk sem hefur verið að spila með mér að flytja instrumental tónlist. Ég hef líka verið að kenna svolítið og þá í einkatímum.”

Stelpur rokka! er eitt það skemmtilegasta

Ingibjörg hefur verið ein af aðal manneskjunum í Stelpur rokka. En hvað er það. “Stelpur rokka var stofnað 2012. Það hefur tekið nokkurn tíma að breiðast út. Þetta er partur af rokkbúðabandalagi sem verið hefur að breiðast út bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Hér á landi er þetta komið bæði til Akureyrar og austur á land. Við byrjuðum með þetta vestur í bæ en fengum síðan húsnæði í Efra Breiðholti. Í gamla bakarís og verslunar-kjarnanum við Völvufell. Þegar Reykjavíkurborg festi kaup á þessu húsnæði sköpuðust aðstæður til þess að nýta það til ýmissar fræðslu- og menningar-starfsemi. Þarna fengum við góðan samastað og héldum opnunarpartý föstudaginn 17. janúar í vetur. Þá fórum við af stað með fjölbreytta heilsársdagskrá fyrir ungmenni. Starfsemin í Völvufellinu er hugsuð sem hálfgerð félagsmiðstöð þar sem krakkar geta komið, hangið og gripið í hljóðfæri. Staður til að hangsa, hugsa og tengjast. Á vordagskránni voru fjölbreyttar smiðjur, hljómsveitaræfingar, námskeið og félagsmiðstöð. Það var kærkomið að fá inni í Efra Breiðholti. Við viljum leggja sérstaka áherslu á kynningu á starfinu fyrir ungmenni sem hafa færri tækifæri til tómstundastarfs en önnur. Rannsóknir sýna að ungmenni þar eru sá hópur sem nýtir sér frístundakortið minnst. Við viljum líka ná til krakka af blönduðum eða erlendum uppruna. Þau eru ef til vill ekki eins dugleg að koma sér á framfæri. Þar er ég að kenna. Kenni á bassa og gítar og stýri hljómsveitarverkefnum. Hjá Stelpur rokka! starfa sjálfboðaliðar með fjölbreyttan bakgrunn sem tala ýmis tungumál. Það á að geta komið sér vel fyrir krakka með ólíkan bakgrunn. Það hefur verið fullt í flestum námskeiðum okkar. Við ætlum okkur að fara af stað af krafti í sumar þegar hömlum verður létt af samkomuhaldi.”

Tónlistarfólki fjölgar

Mikið er um tónlistarlíf hjá ungu fólki í dag. Ingibjörg segir að tónlistarskólarnir eigi sinn þátt í því. “Margir krakkar fara mjög ung í tónlistarnám. Sum byrja á blokkflautunni eins og ég gerði. Hún er góð undirstaða fyrir litla krakka. Mörg halda áfram og margir krakkar spila á hin ýmsu hljóðfæri. Svo myndast grúppur eða hópar þar sem þau spila saman. Ég held að þetta fari vaxandi með hverju ári.” 

You may also like...