Ný byggð fyrirhuguð við Suðurfell

— nágrannar hafa áhyggjur af náttúrunni —

Á kortinu má sjá fyrirhugaða íbúðabyggð við Suðurfell.

Reykjavíkurborg hefur birt lýsingu á deiliskipulagi fyrir þróunarsvæði við Suðurfell. Þróunarreiturinn afmarkast af Suðurfelli til vesturs og er í beinu framhaldi af núverandi byggð, Keilufelli til norðurs, Elliðaárdal til austurs og Arnarnesvegi til suðurs. Í nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir lágreistri íbúðarbyggð einnar til tveggja hæða byggingum með 50 til 75 íbúðum.

Í lýsingu á deiliskipulagi kemur fram að byggð skuli aðlagast vel að landi og mynda sólrík og skjólgóð útisvæði fyrir íbúa. Opin svæði og göng og ​hjólastígar mynda góða tengingu milli eldri byggðar handan Suðurfells og hinnar nýju byggðar og einnig við útivistarsvæði Elliðaárdals. Stefnt er að útboði á lóðaúthlutun samhliða gerð deiliskipulags og aðaluppdrátta og því gert ráð fyrir að skipulagshópur og uppbyggingaraðili sem verður fyrir valinu fái tækifæri til að byggja upp hverfið frá fyrstu drögum og fullmóta byggðina af hugsjón með áherslu á vandaðan arkitektúr, umhverfi og samfélag að leiðarljósi.

Skiptar skoðanir

Þegar hefur komið fram að skoðanir eru skiptar um þessa fyrirhuguðu framkvæmd. Einkum mun andstaða við uppbygginguna stafa af því að þarna er verið að taka nýtt land undir byggingar og fólk kýs að líta á þetta sem grænt svæði með tengingu við Eliðaárdalinn. Skipulagslýsing var nýlega auglýst í Skipulagsgáttinni og óskað eftir ábendingum og umsögnum. Í einni umsögninni segir: „Þetta græna svæði þekki ég vel og hef notað mikið frá 2009. Þarna er fólk á göngu, hlaupum og á hjólum, börn að leik og síðast en ekki síst fjölbreytt fuglalíf. Þessi áætlun sverfur enn frekar að villtum grænum svæðum innan borgarinnar og ef það er velferð og hamingja fólks sem við viljum huga að þá eru grænu svæðin með fuglasöng hvað mikilvægust. Ég hef reyndar líka áhyggjur af því að um leið og farið er að seilast inn á þetta ósnortna svæði þá lækki þröskuldurinn fyrir enn frekari röskun á svæðinu umhverfis Elliðaár.“ Ýmis önnur sjónarmið hafa komið í ljós og beinast flest að umhyggju fyrir náttúrunni.

Svæðið austur af Fellahverfi þar sem fyrirhuguð byggð á að rísa.

You may also like...