Vesturgata – móðir gamla Vesturbæjarins

– síðari grein

Vesturgötu 53b er fyrst getið í íbúaskrá 1902. Þar var bæði íbúða- og atvinnuhúsnæði. Myndin er af húsinu og af Eyþóri Magnúsi Bæringssyni kaupmanni sem bjó þar frá 1953 til 1969 ásamt fjölskyldu sinni. Húsið var rifið 1987. Myndin er eftir Kolbrúnu Hlöðversdóttur veflistamann.

Hér birtist síðari hluti greinar um Vesturgötuna og gamla Vesturbæinn. Frá Vesturgötunni þróaðist byggð einkum til suðurs en einnig til norðurs í átt að gamla hafnarsvæðinu. Við Vesturgötu má enn sjá byggingar frá þeim tíma er byggðin var að rísa en aðrar hafa þokað fyrir yngri mannvirkjum. Við Vesturgötuna lifir saga þróun allt frá Hlíðarhúsabæjunum sem stóðu vestan við byggingar sem kenndar eru við Naustið veitingastað til margra ára til nútímans. Þróun sem er ríkur þáttur í sögu höfuðborgarinnar.

Við Vesturgötu 5a stóð reisulegt timburhús. P.L. Henderson kaupmaður lét byggja húsið árið 1862. Hann hafði þá keypt Höltersbæjarlóð og fékk leyfi til að reisa stórhýsi á lóðinni. Þetta var Glasgow-verslunin, eign firmans Henderson, Anderson & Co og var J. Jonassen verslunarstjóri. Glasgow-verslunin varð gjaldþrota árið 1862 og var allur búðarvarningur seldur á uppboði. Egill Egilsson kaupmaður eignaðist Glasgow árið 1872. Í húsinu var stór salur, sem rúmaði 200 manns í sæti og voru þar haldnar samkomur. Enska konsúlatið var í húsinu sem vegna stærðar, rýmis og ef til vill myndugleika var notað fyrir ýmiskonar félagsstarfsemi og samkomuhöld. Þar átti Sjómannaklúbburinn sér samastað. Á þessum tíma var mikið um drykkjuskap í Reykjavík og voru bæði fyrirmenn og einkum skólapiltar iðnir í samneyti við Bakkus. Almenningur – sjómenn og verkafólk munu hafa haft minni afskipti af þeim lifnaðarháttum. Þorlákur Ó. Johnsson fluttist til Reykjavíkur árið 1875. Hann hafði kynnst klúbbum fyrir sjómenn og verkamenn erlendis og kom nú það snjallræði í huga að fá fyrirmenn í lið með sér að stofna slíkan klúbb sem griðastað fyrir stétt sjómanna í Reykjavík sem fór stöðugt fjölgandi. Hann stóð einnig fyrir fyrstu málverkasýningunni á Íslandi árið 1879 og sýndi þar eftirprentanir af myndum eftir erlenda málara. Þar var einnig haldin fyrsta málverkasýning íslensks málara. Þórarins B. Þorlákssonar. Húsið brann til kaldra kola 18. apríl 1903 ásamt Vigfúsarkoti, býli er stóð vestan við Glaskow. Einar Benediktsson skáld keypti eignina 1896 og tveim árum síðar lét hann reisa annað hús á norðausturhluta lóðarinnar. Við Vesturgötu 5. Á síðari árum er það þekktast fyrir vinnustofu Kolbrúnar Björgólfsdóttir Koggu leir- og myndlistarmanns.

Einar Benediktsson skáld byggði húsið 1898. Vinnustofa og keramik gallerí Kolbrúnar Björgólfsdóttur Koggu leir- og myndlistarmanns hefur verið á jarðhæð hússins í áratugi.

Steinsteypuklassík

Tvö hús við Vesturgata 59 og Vesturgötu 65 voru byggð á tíma svokallaðrar steinsteypuklassíkur. Hún reis hæst á þriðja áratugi 20. aldar þegar ýmis klassísk einkenni og áhrif voru áberandi í gerð hérlendra steinsteypuhúsa. Þessi hús endurspegla ekki síður þær áherslur sem þá ríktu í skipulagsmálum bæjarins. Húsin númer 69 til 75 við Vesturgötu mynda stóra samstæðu fjölbýlishúsa á norðausturhorni reitsins. Vestasta húsið í samstæðunni er Vesturgata 75 og var upphaflega byggt sem verksmiðjuhúsnæði á árunum 1952 til 1956 Á árunum 1985 til 1986 var því breytt í fjölbýlishús um leið og húsin á númer 69 til 73 voru byggð. Um leið var útliti þess breytt til samræmis við útlit og gerð hinna húsanna sem eru dæmigerð fyrir fjölbýlishús frá 9. áratug 20. aldar.

Skipstjóra og sjómannagata

Vesturgata var kunn sem skipstjóra- og sjómannagata vegna þess hversu margir skipstjórar og sjómenn bjuggu þar. Þegar fram liðu stundir tóku iðnaðarmenn að festa sér ból við götuna. Má þar nefna Þorstein Jónsson járnsmið sem var við Vesturgötu 33 og Otta Guðmundsson skipasmið sem bjó á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs. Einnig má geta Guðmundar Gíslasonar skipasmiðs, Einars Jónssonar skósmíðameistara og Péturs Jónassonar blikksmíðameistara. Vesturgata endaði við Ánanaust. Þar voru fjögur seli byggð úr jörðinni Seli. Þau hétu, Litla Sel. Ívars Sel, Mið Sel og Stóra Sel. Á lóðinni númer 61 við Vesturgötu standa tvö samföst hús, Jórunnarsel og Litlasel. Jórunnarsel stendur innar á lóðinni, var byggt árið 1881 af Magnúsi Pálssyni tómthúsmanni. Litlasel er steinbær byggður 1889 af Guðmundi Kristni Ólafssyni skipstjóra. Við blokkarinnar við Vesturgötu 50b og 52 stendur steinbærinn Götuhús. Pétur Þórðarson skipstjóri byggði bæinn 1894. Árið 1905 byggði hann við húsið til vesturs og hóf þar verslunarrekstur.

Vesturgata 26 til 28. Þar stóðu Hlíðarhúsabæirnir forðum.

Félagshús á lóð Selsbæjarins

Jónas Ólafsson byggði Félagshús á lóð Selsbæjarins árið 1882. Allt var þar þiljað að innan og herbergin voru með striga og pappa á veggjum og loftum sem var málaður. Uppi voru tvö þiljuð íbúðarherbergi, einn ofn og eldavél. Þegar búið var að byggja kvistinn á götuhlið hússins árið 1920 fengust þrjú herbergi í risi. Þremur árum síðar var byggður geymsluskúr á lóðinni og þar var jafnframt þvottahús. Þar fengu nágrannar og fleiri að þvo þvotta sína og var því oft margt um manninn og glatt á hjalla. Segir þetta nokkuð um samgang fólks og samskipti á þessum tíma. Á horni Vesturgötu og Framnesvegar við Vesturgötu 53B stóð timburhús. Lengi vel gult en var síðar málað rautt. Þess er fyrst getið í bæjarskrá Reykjavíkur frá 1902 og Ólafur Sigurðsson skósmiður sagður búa þar. Um var að ræða einlyft timburhús á háum kjallara með risi og viðbyggingum til beggja enda. Í húsinu voru tvær og stundum fleiri íbúðir ef viðbyggingin til vesturs er talin með. Austari viðbyggingin var aldrei bústaður en þar var ýmis starfsemi í gegnum tíðina Lengi var þar þurrkhús og um tíma var járnsmíðaverkstæði í kjallara miðhússins. Þar voru meðal annars smíðuð brennijárn til þess að hornamerkja sauðfé. Á síðustu árum hússins var útbyggingin og kjallarinn nýtt fyrir heildverslun og síðast útgáfufyrirtæki. Eyþór Magnús Bæringsson kaupmaður festi kaup á húsinu 1953 og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni til 1969. Eftir það var húsið leigt út þar til að var rifið í febrúar 1987.

Kvennahús við Vesturgötu 3. Þar er nú kaffihúsið Stofan þar sem Fríða frænka var á sínum tíma.

Kvennahús á Vesturgötu 3

Um miðjan 9. áratuginn tók sig saman fjöldi kvenna og keypti húsin að Vesturgötu 3. Markmiðið með kaupunum var að forða húsunum frá niðurrifi og koma þar á fót aðstöðu fyrir konur til menningar- og félagsstarfsemi auk húsnæðis fyrir kvennafyrirtæki. Markmiðið var einnig að styðja við bakið á framtakssömum konum hvort sem er á lista- eða athafnasviðinu og vera vettvangur þar sem almenningur getur notið hugmyndaflugs og framkvæmdagleði annarra. Húsið var nefnt Hlaðvarpinn. Þar hafa meðal annars verið til húsa um lengri eða skemmri tíma, Kaffileikhúsið sem var stofnað 1994. Antikverslunin Fríða frænka. Stígamót, upplýsinga- og ráðgjafarmiðstöð um afleiðingar af kynferðisofbeldi. Vera, tímarit. Bríet – félag ungra femínista og fleira.

Íbúða- og atvinnusvæði

Vesturgata og næsta nágrenni voru mannmörg þegar komið var frá um miðja síðustu öld enda bjó fólk miklu þrengra en í dag. Annað var einkennandi fyrir umhverfið að það var ekki aðeins íbúðabyggð, heldur líka atvinnusvæði. Þarna var Vélsmiðjan Héðinn á Seljaveginum með marga menn í vinnu og svo Hraðfrystistöðin í Reykjavík fyrir neðan Mýrargötu á móts við Seljaveginn og Daníelsslippur fyrir neðan Mýrargötu á móts við Bakkastíginn. Allt þetta skapaði umferð fólks. Blokk var byggð við Vesturgötu 52 eftir 1960. Þar hafði áður staðið Péturshús sem Pétur Ólafur Gíslason í Ánanaustum hafði byggt árið 1874 og var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var úr steini hér á landi. Blokkir voru ekki orðnar algengar í þessum hluta Vesturbæjarins og hafa ekki orðið. Götumynd Vesturgötunnar hefur haldið sér ótrúlega vel í gegnum liðna áratugi. Tenging hennar við höfnina og atvinnusvæðin er bundin föstum böndum. Segja má að Vesturgata sé móðir gamla Vesturbæjarins.

Heimildir:

Árni Óla. Úr sögu Hlíðarhúsa. Mb. 9 maí 1948.

Ágúst Jósefsson. Sérkennilegt fólk í Reykjavík á fyrri tíð. Sunnudagsblaðið 27. september 1959.

Húsakönnun í Reykjavík. Guðný Gerður Gunnarsdóttir.

Timarit.is. Ýmis fréttaskrif.

You may also like...