Safnaðarfundur vill grafreit

– Seltjarnarnesbær eina bæjarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er án grafreits –

Aðalsafnaðarfundur Seltjarnarnessóknar, sem haldinn var í Seltjarnarneskirkju mánudaginn 14. maí sl. áréttar mikilvægi þess að komið verði á fót grafreit á Seltjarnarnesi. Fundurinn hvatti bæjarstjórn og skipulagsyfirvöld til að leiða málið til lykta hið fyrsta í samræmi við þá kvöð sveitarfélaga að láta í té land í þessu skyni. Fundurinn fól sóknarnefnd að vinna áfram ötullega að framgangi málsins.

Í greinargerð með tillögunni um kirkjugarðinn segir að kirkjugarður hafi á sínum tíma verið við kirkju þá er stóð í Nesi við Seltjörn fram til ársins 1799 mjög nærri þeim stað er nú er gerð tillaga um. Sá kirkjugarður hafi verið í notkun og jarðsett þar allt fram á 3. áratug 19. aldar og e.t.v. lengur, eins og fram kemur í Seltirningabók. Í greinargerðinni er minnt á að samkvæmt lögum nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu er lögð kvöð á sveitarfélög um þetta efni. Í 12. grein þeirra laga segir: „Skylt er sveitarfélagi því, er liggur innan sóknar, að láta ókeypis í té hæfilegt kirkjugarðsstæði svo og efni í girðingu, þó þannig að óbreyttar haldist kvaðir þær er þegar eru á jörðum og lóðum þar sem kirkjugarðar standa. “Þá er vakin athygli á þeirri staðreynd að Seltjarnarnes er eina bæjarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki er kirkjugarður og með tíð og tíma hafi þurft að leita æ lengra um leg fyrir látna Seltirninga. Þessu hafi fylgt óþægindi við útfarir og aukin fyrirhöfn við umsjá leiða, sem hvort tveggja sé afar óæskilegt.

Eftir því sem ný svæði koma til notkunar sem kirkjugarðar, færast þeir stöðugt fjær Seltjarnarnesi. Það er því mikilvægt umhverfis-mál að draga úr umferð austur frá Seltjarnarnesi þannig að þeir sem nú þurfa að fara í kirkjugarð í Gufunesi og síðar við Úlfarsfell verði færri með tilkomu nýs kirkjugarðs innanbæjar.

Loks skal því haldið til haga, að með staðsetningu kirkjugarðs á þeim stað, sem lagt er til, fæst fyrir þá sem næst svæðinu búa trygging fyrir því, að ekki verði í fyrirsjáanlegri framtíð skipulögð byggð vestan við Nesbala, svo sem stundum hefur komið til tals — og rýra myndi kosti og verðmæti fasteigna þar. 

You may also like...