Ég á bara yndislega viðskiptavini

Siddý ásamt eiginmanni sínum Jónasi Friðgeirssyni.

„Ég veit ekki hvort þú trúir því en það líða oft margir dagar án þess að ég fari inn fyrir Eiðistorg,” segir Sigurveig eða Siddý eins og hún er oftast kölluð Runólfsdóttir hárgreiðslumeistari á Hársnyrti­stofunni Permu á Seltjarnarnesi. Siddý er er innfæddur Nesbúi og kveðst aldrei hafa búið annars staðar. Hún er dóttir Valgerðar Þórðardóttur sem lést árið 2001 og Runólfs Ísakssonar frá Bjargi sem lést fyrr á þessu ári. „Það hvarflaði heldur aldrei að mér að verða annað en hárgreiðslu­meist­ari. Annað kom ekki til greina. Þar kemur ætternið og fjölskyldan til auk áhuga. Systir pabba átti þessa stofu. Ég byrjaði að klippa hjá frænku minni þegar ég var 14 ára. Perma er eldri en ég þannig að ég sit á einskonar fjölskylduarfi hér á Eiðistorginu.” Siddý spjallar við Nesfréttir að þessu sinni.

„Ég hef alltaf verði kölluð Siddý. Amma sem ég heiti eftir hét Sigur­veig og var kölluð Veiga. Pabba fannst það ekki nægilega gott gælunafn fyrir lítið barn. Hann  vildi finna annað sem myndi hljóma betur og svo kom gælunafnið Siddý. Það festist við mig og ég álít að sumir þekki mig bara undir því nafni. Ég er alin upp á Bjargi við Nesveg og bjó þar þar til fjölskyldan flutti árið 1968 í hús við Barðaströnd sem pabbi og mamma höfðu byggt. Ég og maðurinn minn Jónas Friðgeirsson keyptum það hús af pabba eftir að mamma dó og búum við þar núna. 

Þegar við fluttum voru strendurnar að byggjast og um­hverfið var enn hálfgerð sveit. Búið var að byggja við fyrstu götur­nar, Barðaströndina og Látra­ströndina en annars voru bara kríumóar í kringum okkur. Maður gat vaknað við kríugarg á morgnana. Býlið Berg var enn stakt hús næstum eins og sveitabær út í túni þótt hann færi fljótlega eftir þetta inn í nýja byggð sem var fljót að beiðast út. Valhúsahæðin var alltaf kölluð Holtið. Aldrei var talað um Valhúsahæð á þessum tíma svo ég muni. Aðeins Holtið. Enn var talsvert um búskap þegar ég var alast upp á Nesinu. Ég man eftir að það voru geitur í nágrenni við okkur á Bjargi. Á horninu við Tjarnarból. Þar bjó fólk með geitur. Húsdýr voru víða en búskapurinn lagðist smám saman af þegar byggðin tók að breiðast út.”

Fór snemma að vinna á stofunni

Siddý segist ekki hafa fylgst mikið með mannlífinu sem var að þróast á Nesinu í takt við nýjar byggingar og nýtt fólk. „Ástæða þess er að einhverju leyti sú að ég var í skóla í Reykjavík og átti því ekki skólasystkini þar. Það var kominn leikskóli en ég fór aldrei þangað. Bróðir minna var hins vegar í leikskóla sem barn. Ég fór líka að vinna á stofunni hjá föðursystur minni sem þá var rekin í Reykjavík. 

Aldrei þurft að vita allt um alla

Perma er elsta starfandi fyrirtæki á Eiðistorgi. Hefur verið þar í 35 ár. Hún var flutt hingað 1985 og ég tók við rekstri hennar tíu árum síðar 1995. Stofan var fyrst við Garðsenda og síðar á Hallveigarstíg áður en hún kom hingað. Viðskiptavinirnir voru því flestir úr borginni. Margir koma þaðan enn, þótt fólk hafi farið að koma af Nesinu eftir að við fluttum á Eiðistorg. Ég hef heldur aldrei verið haldin því að þurfa að vita allt um alla. Hef aldrei fundið hvöt eða þörf til þess að vera að spyrja um fólk. Í litlum samfélögum eins og á Seltjarnarnesi er líklegra að fólk eigi nánari samskipti. Þekki nágrannana meira og viti meira um hagi náungans. Það var eiginlega ekki fyrr en strákarnir mínir fóru að spila. Runólfur Helgi sá eldri spilaði handbolta og Friðgeir Elí yngri strákurinn spilað bæði fótbolta og handbolta. Hann spilaði aðallega með Gróttu  og síðan Fram og KR um tíma og að endingu með HK. Það eru tvö ár síðan hann hætti. Sjálf er ég hálfgerður antisportisti. Var ekkert í íþróttum en ég mætti þó á leiki þegar strákarnir voru að spila. Hafði gaman af að fylgjast með þeim.” Siddý segir sögu af því þegar eldri sonurinn var skýrður á afmælisdegi Runólfs Helga afa síns. „Við vorum búin að ákveða nafn á hann þegar við komum til prestsins. Séra Guðmundur Óskar Ólafsson skýrði. Hann spurði ekki hvað barnið ætti að heita. Hann spurði hvort drengurinn ætti ekki að heita Runólfur Helgi. Já, hugsaði ég. Séra Guðmundur og pabbi voru góðir vinir og honum fannst ekkert annað koma til grein en skýra barnið í höfuðið á afa sínum. Hann réði því eiginlega nafninu.“  

Sigurveig eða Siddý eins og hún er oftast kölluð hárgreiðslu­meistari á Hársnyrtistofunni Permu á Seltjarnarnesi.

Hártískan er fjölbreyttari

Siddý hefur starfað við hárgreiðslu allt frá unglingsárum. Eitthvað hefur breyst frá þeim tíma að hún tók fyrstu skærin sér í hönd. „Það sem helst hefur breyst að ekkert sérstakt er lengur í tísku. Fólk velur sér miklu fremur stíl sem því finnst passa við persónu sína. Þegar ég var að byrja var permanent í mikilli tísku. Konur vildu hafa krullur í hárinu. Því þurfti að endurnýja permanentið reglulega ef þær vildu gæta að útliti sínu og viðhalda því óbreyttu. Permanentið hefur aldrei horfið. Það kemur aftur og aftur fram eins og hver önnur tíska sem fer í hringi. En það hefur ekki orðið ráðandi eins og það var á árum áður. Konur kjósa svo margt fleira. Þegar ég var að byrja var lítið um að karlar kæmu í klippingu. Þeir fóru meira á hinar hefðbundnu rakarastofur. Svo varð sítt hár í tísku á meðal karlmanna. Eldri rakararnir kunnu lítið á það og treystu sér oft ekki til þess að eiga við það að ósk viðskiptavina. Þeir vildu frekar bara klippa með rafmagnsklippum en nota skæri. Þetta fór að breytast. Karlar fóru að koma í hársnyrtingu. Nú er miklu meiri jöfnuður í þessu. Karlar og konur fara á sömu stofurnar þótt margir karlar haldi sig enn við rakarastofurnar. En hártískan er mun breytilegri en áður var. Mjög margar konur eru með litað hár. Ýmist heillitað eða strípur og karlar eru einnig farnir að lita á sér hárið. Bæði ungir menn sem vilja skapa sér stíl og einnig þeir sem farnir eru að eldast og vilja fela gráu hárin.”

Komin langt yfir meðalaldurinn

Siddý segir að hársnyrtar endist fremur stutt í faginu. Meðalaldur fólks er ekki nema tæp sjö ár. Af hverju stafar það. „Fyrir því er ef til vill fleiri en ein ástæða. Þetta reynir talsvert á líkamlega séð. Útheimtir miklar stöður. Maður situr ekki við að klippa eins og tannlæknar eru farnir að gera þegar þeir vinna við tannviðgerðir. Svo getur hársnyrtingin líka reynt á andlegu hliðina. Hársnyrtirinn vinnur í mikilli nálægð við viðskiptavininn. Hann verður alltaf að sýna jákvæðu hliðina á sér. Ekki dugar að deila áhyggjum með þeim sem er í stólnum. Á hinn bóginn getur verið nauðsynlegt að hlusta á viðskiptavininn. Þá verður maður að kunna að hlusta. Sumir vilja ræða daginn og veginn. Öðrum liggur ef til vill eitthvað þyngra á hjarta og eru þá komnir í nánd við annan einstakling sem verður þá að hlusta á. En þetta er eðlilega mjög einstaklingsbundið. Hársnyrtistarfið er fjölbreytt og mjög skemmtilegt. Öll flóran úr mannfélaginu kemur á stofurnar með sínum breytileika. Allir þurfa á klippingu og hársnyrtingu að halda.”   

Alþjóðastarfið lærdómsríkt 

Siddý hefur sinnt félagsmálum fyrir starfsgrein sína. Hún átti sæti í Intercoiffure alþjóðlegum samtökum hársnyrtifólks og var forseti þar fyrir Ísland í sjö ár. Einnig sat hún í stjórn Hárgreiðslumeistarfélags Íslands um tíma. „Þetta var bæði ánægjulegur og gefandi tími. Maður kynntist fólki frá öðrum samfélögum og fékk einnig tækifæri til þess að fylgjast með hvað var að gerast í öðrum löndum. Þótt öll hársnyrting sé af líkum rótum má alveg greina mismunandi stíla hjá öðrum þjóðum. Til dæmis eru Frakkar og Bretar ekki alveg með sama stílinn. Það eru meiri greiðslur ef svo má að orði komast í hárinu á frönskum konum. Mér finnst Bretarnir með flottari klippingu. Breski stíllinn er að mínum dómi flottari. Þessi félagsstörf gáfu mér einnig kost á ferðalögum. Ég hef ferðast mikið um heiminn þótt ég hafi alltaf búið á Seltjarnarnesi.” 

Á bara yndislega viðskiptavini

„Við erum tvær sem vinnum hér á hársnyrtistofunni og svo eru aðrar tvær sem koma inn á álagstíma sem ég kalla spariskvísur. Eru í einskonar hlutastarfi. Ég er löngu komin yfir meðalaldur í þessari atvinnugrein. Þetta er vinnan mín. Mjög skemmtilega og gefandi. Ég á bara yndislega viðskiptavini.”

You may also like...