Undirstaða Rótarýhreyfingarinnar

Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, Björgólfur Thorsteinsson, forseti og Kolbrún Benediktsdóttir, gjaldkeri.

Rótarý er alþjóðleg hreyfing fólks sem hvetur til góðvildar og friðar í heiminum. Hreyfingin stendur fyrir mannúðar- og menningar­starfi, bæði alþjóðlega og í nærumhverfinu. Hreyfingin vinnur m.a. að útrýmingu lömunarveiki í heiminum, sjá rotary.org. 

Rótarýklúbbur Seltjarnarness hefur styrkt verkefni í nærsamfélaginu s.s. skiptinemaprógram, verðlaunað ungmenni fyrir árangur í sundi sem og góða framkomu og námsárangur í Valhúsaskóla. Þá veitir klúbburinn Kaldalónsskálina, tónlistarviðurkenningu í minningu Selmu Kaldalóns tónskálds. Klúbbnum er umhugað um sögu og minjar. Hann hefur gefið út örnefnakort á Nesinu, sett upp fræðsluskilti á gönguhring vestursvæðis, merkt hvar kirkjan við Nesstofu stóð og gróðursett í lundi kenndum við Björn Jónsson, Björnslundi við Bakka­vör. Ýmsar nefndir starfa innan klúbbsins, s.s. Gróttunefnd. Hún hefur forgöngu um varðveislu og framkvæmdir við Albertbúð, hús klúbbsins í Gróttu.

Rótarýstarf í Covid

Rótarýklúbbur Seltjarnarness breytti um takt, eins og önnur félagstarfsemi, meðan Covid stóð sem hæst. Í mars var tekið stutt hlé frá störfum. Síðan fór það aftur á fullt skrið að teknu tilliti til fjarlægðartakmarkana. Í stað þess að funda í minni sal félagsheimilis Seltjarnarness er nú fundað í þeim stærri til að dreifa betur mannskapnum. Á fundum ræða rótarýfélagar saman yfir máltíð. Síðan er hlustað á stuttan gestafyrirlestur. Fyrirlestrar eru um spennandi mál sem hátt fara í þjóðfélaginu hverju sinni, eða mál sem félögum þykir mikilvægt að kryfja.  

Bráðum 50 ára

Rótarýklúbbur Seltjarnarness var stofnaður 20. mars 1971 og verður því 50 ára á næsta ári. Stjórnin undirbýr nú afmælisárið af krafti. Fyrir starfsárið 2020-2021 eru í stjórn klúbbsins, Björgólfur Thor­steinsson, forseti, Erlendur Magnússon, varaforseti/verðandi forseti, Bjarni Torfi Álfþórsson, ritari, Kolbrún S. Benedikts­dóttir, gjaldkeri, Björgvin Guðjónsson, stallari og Árni Ármann Árnason, fráfarandi forseti. Umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2020-2021 er Soffía Gísla­dóttir. Netfang klúbbsins er seltjarnarnes hjá rotary.is. Finna má frekari upplýsingar á rotary.is undir flipanum klúbbar eða á fésbókinni.

You may also like...