Prakkarinn með stóra hjartað

Fjölskyldan samankomin,  Dommi, Sigga, Óttar Orri, Jenný og Simmi.

Úff það sem ég hef ekki gert af mér á nesinu, segir Guðmundur Ingi Hjartarson eigandi Netheims og Seltirningur í húð og hár. Guðmundur Ingi er alltaf kallaður Dommi og flestir sem þekkja hann undir því nafni. Dommi er uppalinn á Miðbraut 2, færði sig tímabundið í vesturbæinn og síðar í Kópavog þar sem hann hóf búskap með eiginkonu sinni, Sigríði Sigmarsdóttur. Dommi og Sigga keyptu sína fyrstu eign á Melabraut 15, færðu sig síðar á æskuheimili Domma á Miðbraut 2 og búa nú á Unnarbraut 19 en það var áður kirkjujörð sem presturinn á Seltjarnarnesi fékk úthlutað, eða svo segir sagan.

Eins og áður er sagt er Dommi borinn og barnfæddur á Seltjarnar­nesi og var það honum mikið kappsmál að börnin hans yrðu Seltirningar en þau eru þrjú í dag, Óttar Orri 19 ára,  Jenný 17 ára og Sigmar Orri 10 ára. Faðir Domma var Hjörtur Hjartarson sem rak Innrömmun Hjartar til fjölda ára í Bónushúsinu á Hrólfskálamel. Hann lést árið 2008. Móðir Domma er Jensína Guðmundsdóttir en hún varð 92 ára nú september og býr á Skólabraut. Dommi er yngstur sex systkina en þau eru: Drífa, Ingibjörg, Hjörtur sem lést 2007, Anna Ásta og Björn Grétar sem lést á síðasta ári.

Uppátækjasamur prakkari

Dommi segist hafa verið uppátækjasamur og mikill prakkari á sínum ungu árum enda Nesið að mestu óbyggt og eiginlega algjör sveit. Í vondum veðrum slettist þari upp á húsin sem stóðu við sjóinn og Dommi man líka eftir því að vera sendur eftir eggjum út á Nesbala og þar hafi verið búskapur með dýrum. Hann rifjar upp þegar hann og vinur hans kveiktu óvart í björgunarsveitahúsinu aðeins fimm ára gamall og Lási lögga tók af þeim skýrslu á túninu. Guttarnir ákváðu í miðri skýrslutöku að stinga Lása af sem keyrði rólega beint á Miðbrautina og talaði við mömmu. Þarna hélt Dommi að lífinu væri lokið. “Lási lögga, Sæmi og Ingimundur voru góðir kallar sem reyndu að hemja villingana en það gekk nú hálfbrösulega oft á tíðum. Sinubrunar og trönubruni koma upp í hugann, þar sem við Raggi vorum að hlaupa frá suðurnesinu en margir Seltirningar hlupu út í suðurnes til að slökkva eldana.” Og Dommi rifjar einnig upp götustríðin milli hópa þar sem menn voru jafnvel handsamaðir og bundnir inni í bílskúrum. “Þarna voru heimasmíðuð vopn, verkfæri og lásbogar notaðir. Dúfubransinn tók sinn tíma og margir vinir sem áttu dúfnakofa og gerðu viðskipti sín á milli. Timbur, net og það sem vantaði var fengið úr húsum sem voru alls staðar í byggingu á nesinu. “Ég man þegar ég prjónaði á gamla BMX hjólinu alla leið frá Való að Nesvali en gatan hét þá Melabraut og lá næstum þvert yfir nesið.”

Gömlu æskuvinirnir

Dommi á ennþá gömlu góðu æskuvinina og halda þeir alltaf góðu sambandi. “Þeir hittast alla föstudaga í hádegismat og hafa gert í rúm 30 ár. Þegar þeir voru 10 ára stofnuðu þeir sitt eigið knattspyrnufélag, Bláu Stjörnuna, smíðuðu mörk og héldu bækistöðvar í Plútóbrekku. Þeir hönnuðu búninga og fóru í hópferð upp í Bikarinn á Skólavörðustíg sem var eina verslunin sem merkti fatnað á þeim tíma. Bláa Stjarnan er enn á lífi þótt lítið sé um æfingar en í hópnum eru meðal annars Magnús Örn Guðmarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jón Björnsson, Ragnar Agnarsson, Jón Örn, Jón Jósafat og fleiri góðir menn.”

Sjö ára bekkur í Mýrarhúsaskóla. Frá vinstri efst: Jonni, Bjössi, Agnar, Dommi, Jónsi, Árni, Elli, Víðir, Stebbi, Maggi, Kristín, Rósa, Þóra, Gunni, Sigga, Teddý, Guðrún, Bjössi, Íbbi, Óli Gunnsteins, Maddi, Nílli, Bessý, Kristín Heimis, Magga. Kennarinn okkar var Sigþór Magnússon sem síðar varð skólastjóri í Breiðholtsskóla. Hann er aftast á myndinni.

Siglingakennari 12 ára

Þegar Dommi var 12 ára var hann ráðinn í sumarstarf sem siglingakennari. Halda átti námskeið fyrir krakka á nesinu og kenna þeim að sigla en þar sem enginn kunni það var krakkinn sem sigldi um allt fenginn til að kenna öðrum krökkum. Vegna aldurs þá mátti hann ekki vera kennari en kenndi þá Gunna Lú tökin. “Hjörtur, Ómar, Ævar og Björn Jónsson ásamt fleiri góðum pöbbum smíðuð optimist báta í bílskúrum heima hjá sér sem notaðir voru við námskeiðin. Margir vina okkar í dag voru á námskeiðunum og við klórum okkur enn í kollinum hvernig þetta gekk allt upp án stórslysa,” segir Dommi og hlær. “Á þessum tíma voru flokkstjórarnir í unglingavinnunni Haukur í sundlauginni og Gunni Lú fjármálastjóri bæjarins. Tíðarandinn var annar á þessum tíma en minningin er alltaf skemmtileg. Siglingafélagið Sigurfari var þá nýstofnað og Hjörtur faðir minn var formaður félagsins. Á þessum tíma var byrjað á bátahöfn­inni og grjótið sem kom úr grunni íþróttahússins notað í grjótgarðinn. Ég, Raggi Agnars og Björn Jörundur voru þarna 16 og 15 ára gamlir og sáu um siglinganámskeiðin. Óli Finnboga, Rúnar Ómars og Jón Teitur voru á námskeiðunum og urðu svo síðar siglingakennarar. Við tókum þátt í siglingakeppnum á Nauthólsvíkinni og í Keflavík og þegar enginn gat skutlað okkur með bátana þá sigldum við á mótin. Tókum fyrsta sætið, annað, þriðja og fimmta sætið í einu Íslandsmeistaramótinu.” Dommi man eftir því að Björn Jörundur safnaði saman sumarlaununum og svo var farið í strætó saman niður í bæ þar sem Björn keypti fyrsta bassann sinn. Nokkrum árum síðar varð hljómsveitin Ný Dönsk til. Dommi og Raggi sáu um fjáröflun til að eignast fleiri báta fyrir klúbbinn og gáfu út blöð tvö sumur fyrir siglingafélagið. Það má segja það að allt sem við unnum við og gerðum sem guttar á nesinu er harðbannað í dag.”

Í Dubai 1983

“Við fjölskyldan fluttum til Dubai þar sem pabbi varð framkvæmdastjóri IBM. Þar kynntist ég köfun og náði mér í kafara­réttindi 14 ára gamall. Ég kom heim með kafarabúnaðinn og kenndi vinunum mínum að kafa fyrir utan Suðurströnd­ina. Þrír af mínum æskuvinum, þeir Doddi, Elli, Siggi Klein fengu delluna og eru í dag atvinnukafarar.”

Þrjátíu ár í rekstri

Dommi hefur verið í eigin rekstri í um 30 ár og rekið upplýsingatæknifyrirtækið Netheim í 22 ár ásamt félaga sínum Ellerti K. Stefánssyni. Netheimur sér um alhliða upplýsingatæknirekstur fjölda fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Hjá Netheimi starfa 19 manns. “Að reka fyrirtæki er ekki auðvelt, maður er vakinn og sofinn yfir rekstrinum alla daga en á sama tíma er þetta áhugamálið mitt og ég elska tækni og tækniframfarir en þær er nauðsynlegt að þekkja í hröðum heimi tækninýjunga. 

Ný verkefni með kórónuveirufaraldrinum

Dommi segir að hægt hafi á þegar kórónaveirufarladurinn skall á en það hafi fljótt liðið hjá. “Um leið og fólk fór af stað aftur byrjaði síminn að hringja. Hýsingar, forritun, tækni­aðstoð og heilu netverslanirnar liggja fyrir. Með faraldrinum kom í ljós að fyrirtæki þurfa nauðsynlega að breyta sér og starfseminni og ekki hengja sig alfarið á að allir mæti í vinnu 9 til 5. Faraldurinn sýndi svo um munaði að við getum allt og erum fljót að tileinka okkur tæknina og við vorum mjög öflug að aðstoða okkar fyrirtæki og koma þeim fljótt og vel inn í t.d. Teams. Á sama tíma þróuðum við rafrænar auðkenningar á vefi og vefsvæði og einfölduðum þar með undirskriftarferla hjá m.a. fasteignasölum og öðrum sem þurfa viðurkenndar undirskriftir á rafrænan hátt. Þrátt fyrir að þurfa að draga saman þessa mánuði eru samt mikil sóknartækifæri á sama tíma. Starfsfólkinu hefur fjölgað í samræmi við það. Við vorum 14 í byrjun maí en erum núna 19 manns og höldum ótrauð áfram.”

Sigga kom í reksturinn

“Fyrir tveimur árum kom Sigga konan mín inn í reksturinn og því mætti segja að við værum fjölskyldufyrirtæki enda Sigga oft að grínast með að hún eigi tvo eiginmenn, mig og Ella. Við Elli höfum verið lengur í bisness saman en við Sigga,” segir Dommi og hlær. “Saman rekum við Netheim, Job.is og hýsingarfyrirtækið Reykjavík Data Center allt á sama stað í Sóltúninu.”

Forréttindi að búa í litlu samfélagi

Dommi og Sigga una hag sínum vel á Seltjarnarnesi. Þau hafa verið öflug í foreldrastarfi Gróttu sem og skólans og hafa farið um allt land á allskonar mót og sýningar. Þau náðu einu sinni að eiga barn í leikskóla, Mýró og Való á sama tíma. 

Hjónin segjast ánægð með skólann og tómstundastarfið sem tengist honum. Við teljum það til lífsgæða að þurfa ekki að skutla og sækja börnin okkar út um allt. Þau voru tiltölulega fljót að sýna sjálfstæði og fara um allt Seltjarnarnes þegar þau byrjuðu í skóla. “Það eru forréttindi að búa í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla og maður þarf ekki að óttast um börnin vegna vegalengda eða annars. Að hafa nátt­úruna við hurðarþrepið hjá sér er líka ómetanlegt. Að sjá jökulinn loga, sjóinn öskra, horfa á dýralífið vakna til lífsins á sumrin er eitthvað sem ekki ætti að taka sem sjálfsögðum hlut,” segir hinn lífsglaði Seltirningur Guðmundur Ingi Hjartarson.

You may also like...