Ræktunaráhuginn og barnauppeldi drógu mig í Breiðholtið
– segir Sóley Kristjánsdóttir –
“Sóley Kristjánsdóttir – Dj Sóley eða Sóley módel er mörgum kunn enda ein mesta “sjarmaskessa” sem finnst í borginni.” Þetta má lesa á vefnum pjatt.is en greinin birtist þar fyrir tæpum áratug. “Sóley er alltaf brosandi og hress, gífurlega falleg með flottan stíl, ungleg í anda og útliti,” svo haldið sé áfram að lesa á pjattinu. Þá hafði Sóley unnið bæði sem fyrirsæta, plötusnúður og sem brand manager hjá Ölgerðinni um árabil þar sem hún starfar enn. Eiginmaður Sóleyjar er Freyr Frostason arkitekt og eiga þau tvær dætur auk þess sem hann á einn son fyrir. Sóley á nokkuð óvenjulegan en skemmtilegan lífsferil. Hún er uppalið Miðborgarbarn og úr Vesturbæ en flutti fyrir nokkrum árum í Breiðholt. Nánar tiltekið í Stekkina. Hvað dróg miðborgarskvísuna í Breiðholt.
“Áhugi minn á garðyrkju og ræktun,” svarar Sóley án þess að hika. “Ég hef alltaf verið mikil ræktunarmanneskja og svo vorum við komin með lítið barn. Ef ég ætti að gera eitthvað annað en það sem ég er að fást við í dag myndi ég vilja vera garðyrkju- eða jafnvel skordýrafræðingur. Miðborgin er ekki beinlínis vettvangur fyrir fólk með þessi áhugamál þótt víða megi rækta. Án gamans þá sáum við hús í Stekkunum til sölu og það var gróðurhús í garðinum. Þá var ekki aftur snúið. Við bara rukum til og keyptum húsið.” Foreldrar Sóleyjar eru Anna Gulla Rúnarsdóttir fatahönnuður og Kristján Engilbertsson verkfræðingur og menningarmógúll eins og hún kynnir föður sinn. “Ég segi það því pabbi hefur alltaf haft mikinn áhuga á menningarlegum efnum. Fyrstu árin mín voru í Danmörku þar sem foreldrar mínir bjuggu. Þau skildu og þá flutti ég í Vesturbæinn og svo í Miðbæ Reykjavíkur á Laugaveg. Ég gekk í Hagaskóla og lauk grunnskólanum þar og fór eftir það í Kvennaskólann. Þrátt fyrir að ég hafi alist upp í Danmörku fyrstu árin þá lánaðist mér að dúxa í íslensku í Kvennó. Ég er alin upp við fallega íslensku. Foreldrar mínir hafa allt tíð lagt áherslu á móðurmálið og að það sé talað með vönduðum hætti.
Bóksali, fyrirsæta, plötusnúður og sálfræði
Hvar byrjaði Sóley fjölbreyttan starfsferil sinn. “Í Kolaportinu. Vinur pabba erfði eitt stærsta einkabókasafn á landinu. Ákveðið var að selja úr safninu í Kolaportinu og þar stóð ég í sölubás og seldi bækur. Svo greip ég aðeins í fyrirsætustörf. Á unglingsárunum. Þetta gat verið skemmtilegt og ég náði að ferðast nokkuð út á þetta starf. Svo gerðist ég plötusnúður og sinnti því ásamt öðru um margra ára skeið.” Hvernig kom það til. “Ég hafði tengst tónlist mikið og hún var eiginlega mínar ær og kýr. Þetta byrjaði með því að ég fór að vinna hjá útvarpsstöð. Mér fannst það rosalega gaman. Að geta spilað þá tónlist sem ég vildi fyrir hlustendur. Svo hætti þessi stöð störfum en mér fannst ómögulegt að hætta þessari skemmtilegu vinnu. Mér fannst ég alveg eins geta spilað á kaffihúsum og setti mig í samband við aðila í þeim bransa þegar ég var 18 ára. Ég var búin að safna mér stóru safni af geisladiskum því ég vildi spila af mínum eiginn diskum. Þannig gat ég valið hvað ég spilaði hverju sinni. Ég fór í nám í sálfræði í Háskóla Íslands eftir veruna í Kvennó og spilaði svo diskana mína á kvöldin á kaffihúsum og krám. Fyrir utan hvað þetta var gaman þá var þetta þægilegt vinna og ágætlega borguð. Ég spilaði aðallega hip hopp. Ég er af hip hopp kynslóðinni. Ég hlusta enn mikið á hip hopp. Er hip hoppari í mér.”
Kryddjurtirnar vaxa best
En aftur að málefninu sem minnst var á í upphafi. Málefninu sem varð ástæða þess að Sóley fluttist í Breiðholt. Ræktunarstarfinu. Hún kveðst snemma hafa fengið áhuga á ræktun. Kveðst muna eftir sér með plöntur í glugga. Strax á unglingsárum. Verið að vökva og fylgjast með hvað kæmi upp úr moldinni. “Ég var líka að rækta úti á svölum. Þessi ræktunaráhugi óx smá saman. Nokkur kaflaskil urðu í garðyrkjuferlinum þegar ég kynntist eiginmanni mínum á Kaupfélaginu sem var og hét. Ég fór að sýna syni hans hvernig hægt væri að taka fræ úr tómötum og paprikum og breyta í plöntur. Við settum fullt af fræjum í mold og svo fór allt að spretta. Plönturnar urðu eiginlega börnin mín og ég hafði ekki undan að setja þær í stærri og stærri potta þar til allar gluggakistur voru yfirfullar og andrúmsloftið var eins og í gömlu Eden í Hveragerði. Þegar við fórum að leita að stærra húsnæði kom húsið í Stekkjunum upp í hendurnar á okkur. Þar var stór garður með gróðurhúsi og ég sá strax möguleikana til að rækta. Við tókum um 40 fermetra af garðinum og breyttum í matjurtagarð. Freyr smíðaði beð í garðinum sem ég hef notað mjög mikið. Ég er enn að rækta í gluggakistunum. Þar byrjar ræktunin oftast. Síðan fara plönturnar út í gróðurhúsið til að taka út meiri vöxt og þaðan í beðin áður en það endar á matarborðinu.” Sóley segir að grænmeti sé dýrt en það sé þó ekki eina ástæðan að hún ræktar sitt grænmeti sjálf. “Mér finnst vinnan í garðinum bæði róandi og nærandi. Maður nær að njóta lífsins betur. Þegar uppskeran er góð er ótrúlega endurnærandi að fara út í garð og sækja salat í matinn. Ég hef prufað að rækta ýmsar tegundir en veðráttan er ekki alltaf nægilega hliðholl. Ég rækta mest salat og kryddjurtir. Þær vaxa best.”
Þarf sjaldan að kaupa egg
Sóley lætur sér plöntu- og jurtaræktina ekki nægja. Hún er með fleiri búgreinar í garðinum. Hún er með hænur. “Leyft var að vera með hænur í Reykjavík árið 2014 og þá setti ég strax upp hænsnagerði. Þær aðstoða mig líka við moltugerðina. Ég bý til moltu úr matarafgöngum til að nota sem áburð í beðin. Þær éta pöddur og snigla sem þær finna og úrgangurinn úr þeim er mjög góður áburður. Ég kaupi eiginlega aldrei egg. Þær taka þó stundum pásu og þá verð ég að kaupa en það er ekki oft. Þær eru hins vegar að verða gamlar þannig að maður veit ekki hvað þær endast lengi til þess að verpa. Mér finnst gaman að vera með hænurnar. Þær eru sjálfstæðar og hafa félagsskap hver af annarri. Geta verið einar einhverja daga ef þær hafa nóg að éta. Annars vantar mig tíma. Ég hef svo mörg áhugamál að sólarhringurinn dugar ekki til að sinna þeim því ég þarf hefðbundinn átta tíma svefn”
Hef áhuga á ljóðum
“Svo fór ég að læra ljóð,” heldur Sóley áfram. Það er góð aðferð til þess að þjálfa minnið. Ég byrjaði þegar ég var í fæðingarorlofi með yngri dóttur mína árið 2010. Ég hugsaði að kannski væri gaman að prófa bara að læra eitt ljóð. Ég nefni þetta við pabba og hann veðrast allur upp og varð agalega kátur. Hann er mikið fyrir ljóð og kann ótrúlegustu ljóð utanbókar og marga ljóðabálka. Ég réðst ekki á lægsta garðinn og valdi Einræður Starkaðar eftir Einars Benediktsson. Mér fannst eitt erindið svo fallegt en áttaði mig ekki á því að þetta væru átján erindi. Ég byrjaði bara á fyrsta erindinu og þegar maður er ekki í þjálfun þá tók alveg marga daga að læra það. En þegar maður kann orðið eitt erindi fyrst og svo allt í einu kann maður tvö erindi og áður en maður veit af kann maður fimm erindi. En ég lét ekkert stöðva mig. Ég hélt áfram og hef að undanförnu lagt mig fram um að læra ýmsar perlur ljóðlistarinnar utanbókar.”
Að vinna með sterku vínin
Sóley er búin að starfa hjá Ölgerðinni um árabil. “Ég er eiginlega í draumastarfi. Ég er brand manager sem er kallað vörumerkjastjóri á íslensku. Ég er að vinna í samskiptum við birgja víðs vegar að sem við eigum í miklum viðskiptum við. Ég er í sterka vínbransanum – að vinna með sterku vínin. Annast um viskí og vodka og margar fleiri víntegundir sem við erum að flytja inn. Ég er að vinna við allt sem snýr að þessum vörumerkjum. Markaðsmál og annað sem snýr að sölu og kynningu þeirra. Og þá er ekki verra að hafa kryddjurtirnar úr gluggakistunni. Þær koma sterkar inn þegar útbúa þarf kokteila. Það er geggjað að nota ilmandi basil og myntu ferskt í kokteila. Til dæmis er basil algjört æði í Tanqueray Gimlet og myntan er punkturinn yfir og undir i-ið í Bulleit Mint Julep. Internetið lumar svo á endalausum girnilegum uppskriftum sem hægt er að prófa en ég er að setja upp síðu sem heitir www.drekkumbetur.is sem er meðal annars samantekt yfir frábæra kokteila.”
Ekki alltaf dans á rósum
Þótt líf Sóleyjar hafi verið viðburðaríkt og áhugamál hennar náð að njóta sín hefur lífið ekki alltaf verið dans á rósum. Sóley greindist með krabbamein þegar hún var 37 ára. Hún segir það hafa komið á óvart. Enga sögu um krabbamein sé að finna í ættum sínum og hún hafi talið sig hafa lifað heilbrigðu lífi. Hún ákvað að deila þessari óvæntu reynslu sinni í stað þess að loka hana af eins og leyndarmál. Hún náði fullum bata. Hún kveðst hafa lært ýmislegt af veikindaferlinu. Allt hafi ekki verið neikvætt. “Ég er á góðri leið. Ætli ég verði ekki allra kerlinga elst. Er tæplega hálfnuð myndi ég halda.”