Passíusálmarnir lesnir í Seltjarnarneskirkju

– kirkjan opin áheyrendum og lestrinum jafnframt streymt á netinu –

Fyrir löngu er orðin hefð að lesa alla 50 Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar upp í Seltjarnarneskirkju á Föstudaginn langa sem að þessu sinni er 2. apríl. Lesturinn hefst kl. 13 og lýkur um kl. 18. Hópur Seltirninga á ýmsum aldri og báðum kynjum annast lesturinn, flestir tvo sálma. 

Hægt að hlusta í kirkjunni eða heima

Vegna veirufaraldursins var lestrinum í fyrra streymt á Fésbókarsíðu Seltjarnarneskirkju og verður svo einnig að þessu sinni. Þannig mun öllum gefast kostur á að hlusta á sálmana heima hjá sér. En að öllu óbreyttu verður einnig hægt að koma í kirkjuna til að hlýða á lesturinn og tónlist sem flutt verður inn á milli. Geta áheyrendur dvalið í kirkjunni lengur eða skemur eftir aðstæðum. 

Hinn dýrmæti kveðskapur séra Hallgríms og sú fagra tónlist sem flutt er við þetta tækifæri hafa jafnan skapað ljúft andrúmsloft í kirkjunni á þessum helga degi – krossfestingardegi Krists – sem í hugum margra er sá allra helgasti á öllu kirkjuárinu. Auk þess að rifja upp sögu krossfestingarinnar eru í Passíusálmunum dýrmæt heilræði sem öllum er hollt að hugleiða til eftirbreytni og farsældar í daglegu lífi. Ekkert sem samið hefur verið á íslensku hefur verið gefið út jafnoft og þessi óviðjafnanlegi kveðskapur sálmaskáldsins. Ómetanleg heilræði fyrir nútímafólk.

Steinunn Jóhannesdóttir les sálmana á Rás 1

Eins og jafnan fyrir páska stendur nú yfir í Ríkisútvarpinu (Rás 1) lestur Passíusálmanna, einn sálmur á hverju kvöldi. Hinn vinsæli rithöfundur og leikkona Steinunn Jóhannesdóttir, sem á liðnum árum hefur látið frá sér fara margan fróðleik um séra Hallgrím og Guðríði eiginkonu hans, les nú sálmana af aðdáunarverðum innileik. Er mikil unun að hlýða á lesturinn. Með ólíkindum er að átta sig á hve þessi aldagamli kveðskapur á beint og brýnt erindi við nútímafólk ekki síður en fyrri kynslóðir. Lesturinn er að loknum tíufréttum á kvöldin alla daga nema um helgar. Enginn mun sjá eftir að leggja við hlustir.

Sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju og Listvinafélag Seltjarnarneskirkju standa að flutningi Passíusálmanna í kirkjunni nú eins og áður. Allir eru velkomnir í kirkjuna að hlýða á sálmana og tónlistina, bæði Seltirningar og aðrir. Sóttvarnarreglur í gildi verða að sjálfsögðu virtar.

You may also like...